Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur ekki alltaf verið sannfærður um að rétt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar virðast pólitískir hagsmunir fremur ráða för en prinsipp. Þannig telur formaður Samfylkingarinnar að ný lög um veiðigjöld séu vel til þess fallin að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, en tvisvar sinnum lagðist hann gegn því að Icesave-samningarnir yrðu bornir undir kjósendur. Árni Páll var einnig andvígur því að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, en vill nú að efnt verði til atkvæðagreiðslu um hvort viðræðum verði haldið áfram.

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins 7. júlí  hélt Árni Páll því fram að nýsamþykkt lög um veiðigjöld eigi „erindi til þjóðarinnar“ og honum finnist „að við verðum að fara eftir einhverjum svona almennum viðmiðum“:

„Þessi fjöldi sem hefur óskað eftir að fá að greiða atkvæði um málið er slíkur að það verður ekkert horft framhjá því.“

Um leið hélt Árni Páll því fram að synjunarvald forseta gildi um öll frumvörp. Áður hefur Árni Páll haldið því fram að þjóðaratkvæðagreiðsla um veiðigjald á sjávarútveg myndi „veita Alþingi skýrt lýðræðislegt umboð til að taka hraustlegt gjald af nýtingu auðlinda,“ líkt og fréttastofa Ríkisútvarpsins hafði eftir honum 20. júní síðastliðinn.

Ekki alltaf áhugasamur

Áhugi Árna Páls á þjóðaratkvæðagreiðslum hefur ekki alltaf verið jafn mikill og nú. Þannig hafði hann ekki miklar áhyggjur af því að „hraustlegt“ og „lýðræðislegt umboð“ væri að baki ákvörðun vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, að óska eftir aðild Íslands að Evrópusambandinu [ESB].

Í júlí 2009 lögðu Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, til að efnt yrði til „þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland skuli sækja um aðild að Evrópusambandinu“. Þetta var breytingartillaga við þingsályktun vinstri stjórnarinnar um aðildarumsókn að ESB.

Árni Páll Árnason lagðist gegn þjóðaratkvæðagreiðslunni. En það kom ekki í veg fyrir að fjórum árum síðar væri hann flutningsmaður tillögu um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu „um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu sem fram fari samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2014“. Össur Skarphéðinsson er fyrsti flutningsmaður, en hann líkt og Árni Páll tók þátt í að koma í veg að kjósendur gætu tekið afstöðu til aðildarumsóknar árið 2009.

Andvígur þjóðaratkvæði um Icesave

Hentistefna Árna Páls gagnvart þjóðaratkvæðagreiðslum kemur vel fram í Icesave-málinu. Undir lok ársins 2009 tók hann þátt í því, ásamt öðrum stjórnarliðum, að fella tillögu um þjóðaratkvæði um Icesave II.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði til að  heimild „fjármálaráðherra til að veita ríkisábyrgð“ vegna Icesave-skulda skyldi borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu „allra atkvæðisbærra manna svo fljótt sem verða má og eigi síðar en sex vikum frá gildistöku laganna“. Heimildin skyldi aðeins veitt með samþykki meirihluta kjósenda.

Þessu var Árni Páll mótfallinn og reyni þar með að koma í veg fyrir að íslenskir skattgreiðendur hefðu eitthvað um það að segja að þeir veittu hundruð milljarða ábyrgð á skuldum einkafyrirtækis. Lögin um ríkisábyrgð voru síðan fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti neitaði að staðfesta þau.

Árni Páll lék sama leik í febrúar 2011 þegar nýr Icesave-samningur var til afgreiðslu á þingi. Aftur var það Pétur Blöndal sem vildi vísa málinu til þjóðarinnar og aftur tók Árni Páll þátt í því að hafna tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Eftir synjun forseta höfnuðu kjósendur ríkisábyrgðinni.

Þegar Árni Páll greiddi atkvæði gegn tillögu um þjóðaratkvæði sagði hann:

„Þjóðaratkvæðagreiðslur gegna mikilvægu lýðræðislegu hlutverki. Fyrir ári síðan var mikill ágreiningur í samfélaginu um þá niðurstöðu sem Alþingi komst þá að í þessu máli. Talsmenn þjóðaratkvæðagreiðslu þá lögðu áherslu á að hún mundi styrkja samningsstöðu okkar og gera okkur auðveldara að ná samningum.

Þjóðaratkvæðagreiðslan í byrjun mars [2010, innsk. T24.is] hafði áhrif til að styrkja samningsstöðu okkar og þjappaði forustuliði allra stjórnmálaflokka saman um að leita bestu mögulegu niðurstöðu fyrir okkur í samningum. Nú er sú niðurstaða fengin og samdóma álit færustu sérfræðinga að ekki verði lengra komist í samningum. Víðtækur stuðningur er við málið innan þings jafnt meðal þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu. Þingmenn Samfylkingarinnar munu því ekki styðja neinar tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu um þennan nýja samning. Ég segi nei.“

Þegar saga Árna Páls er skoðuð er varla erfitt að skilja af hverju hann á í erfiðleikum sem formaður Samfylkingarinnar. Flipp-flopp hefur aldrei gefist vel.