II. grein um veiðigjöld

Á undanförnum árum hafa fyrirtæki í sjávarútvegi gengið á framtíðina. Þau hafa neyðst til að halda að sér höndum í fjárfestingum enda undir stöðugum hótunum frá stjórnvöldum um að stjórnkerfi fiskveiða verði umbylt. Nú er svo komið að meðalaldur togara á Íslandsmiðum er 27 ár samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Á árunum 2009 til 2011 var fjárfesting sem hlutfall af framlegð (EBITDA) innan við 10% en nauðsynlegt hlutfall er um 30%. Með öðrum orðum: Sjávarútvegurinn hefur verið að ganga á framleiðslutæki til þess að skila hagnaði. Við getum sagt þetta með öðrum hætti: Íslenskur sjávarútvegur hefur verið að ganga á útsæðið og um leið grafið sína eigin gröf með því að sýna methagnað árið 2011, sem síðan á að styðjast við sem grunn að veiðigjaldi.

Afkoma í sjávarútvegi

Tugmilljarða uppsöfnuð þörf

Líklegt er að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í sjávarútvegi sé a.m.k. 55 milljarðar króna. Óeðlilegt veiðigjald dregur úr möguleikum til eðlilegrar endurnýjunar og þar með mun samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs skerðast. Og hagsmunirnir sem eru í húfi eru gríðarlegir, ekki aðeins fyrir eigendur fyrirtækjanna heldur þjóðarbúið allt. Ástæða er að óttast að heildartekjur hins opinbera af starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja og tengdra fyrirtækja verði minni til lengri tíma en ella. Þá vaknar sú spurning hvaða hagsmunum sé verið að þjóna?

Í umsögn skrifstofu opinberra fjármála við frumvarp sjávarútvegsráðherra er bent á að efasemdir hafi verið um að sjávarútvegsfyrirtæki fengju risið að fullu undir því að greiða veiðigjöld samkvæmt þágildandi lögum „án þess að rekstrargrundvöllur a.m.k. sumra þeirra teldist vera orðin brostinn“. Með öðrum orðum hugsanlegar tekjur ríkisins af veiðigjaldinu sem reiknað var með að samkvæmt lögum vinstri stjórnarinnar, voru sýnd veiði. Allt tal um lækkun veiðigjalda samkvæmt frumvarpi sjávarútvegsráðherra (nú lög) var því á villigötum (að ekki sé talað um þegar ljóst er að ríkisstjórnin stefnir að því að hækka veiðigjöldin um hundruð milljóna á uppsjávarfyrirtæki).

Engin löggjafarsamkoma í frjálsu landi getur setið aðgerðarlaust hjá þegar talin er hætta á að gildandi lög um álagningu skatta og gjalda, stefni rekstri fjölda fyrirtækja í hættu – kippi hreinlega undan þeim löppunum og knýi þau í þrot með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir þjóðarbúið allt en þó einkum byggðarlög sem eiga allt sitt undir öflugum sjávarútvegi.

Einblínt á tvennt

Sem betur fer hefur afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi, jafnt í útgerð sem vinnslu, verið góð á síðustu árum, enda hafa ytri aðstæður verið hagstæðar. Verð á erlendum mörkuðum hefur verið hátt, gengi krónunnar lágt og makríllinn verið góð búbót. Margt bendir hins vegar til að aðstæður á erlendum mörkuðum verði erfiðar á næstunni og því mikil óvissa um afkomu útgerðar og vinnslu.

Baráttumönnum fyrir háum veiðigjöldum hentar að einblína á tvennt. Annars vegar á góða afkomu á síðustu árum og hins vegar á áætlaðar (líklega í excel) tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi samkvæmt lögum sem voru langt í frá öruggar þar sem óbreytt gjöld hefðu stefnt rekstri margra fyrirtækja í hættu. Áætlaðar tekjur af veiðigjöldum samkvæmt lögum vinstri ríkisstjórnarinnar voru ofáætlaðar a.m.k. til lengri tíma. Það er einnig fráleitt að ákvarða skattheimtu til framtíðar út frá einu eða tveimur árum, þar sem allar aðstæður voru hagstæðar og fjárfestingum var haldið í lágmarki. Þá væri nær að líta til lengri tíma og draga réttar ályktanir.

Vantar 81 milljarð

Ef litið er til upplýsinga um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja sem Hagstofa Íslands tekur saman, verður ekki sagt að ofsagróði hafi einkennt afkomuna það sem af er þessari öld. Frá árinu 2000 til 2011 var samanlagður hreinn hagnaður um 7,8 milljörðum króna eða að meðaltali um 654 milljónir á ári á verðlagi 2011.

Ekki liggja fyrir tölur um afkomu sjávarútvegs á síðasta ár, en flest bendir til að hún hafi verið ágæt. Árið 2008 var hins vegar ár hryllings en þá töpuðu  fyrirtæki í veiðum og vinnslu alls 192 milljörðum króna á verðlagi 2011. Frá 2009 hefur hagnaður verið af rekstrinum en enn vantar um 81 milljarð til að vinna upp tapið árið 2008.

Líkt og bent er á í greinargerð með frumvarpi sjávarútvegsráðherra, – sem nú er orðið að lögum – hafa tekjuskattsgreiðslur sjávarútvegsins hækkað verulega á síðustu árum í takt við bætta afkomu. Rekstrarárið 2009 voru tekjuskattsgreiðslur um 1,5 milljarðar króna, rekstrarárið 2010 um 2,7 milljarðar og rekstrarárið 2011 um 5,5 milljarðar. Samkvæmt áætlun Deloitte munu tekjuskattsgreiðslur fyrir rekstrarárið 2012 nema 8,5–9,5 milljörðum króna, en það tengist ekki síst því að fyrirtækin eru að verða búin að nýta sér uppsafnað skattalegt tap.

Eitthvað lætur undan

Reiknað er með að veiðigjöld á nýju fiskveiðiári nemi alls 9,8 milljörðum króna. Þannig munu beinar skattgreiðslur (veiðigjöld og tekjuskattur) nema alls 18,3-19,3 milljörðum miðað við heilt ár og óbreytta afkomu í sjávarútvegi.

Undir þessum opinberu gjöldum þurfa sjávarútvegsfyrirtækin að standa, samhliða því að fjármagna uppsafnaða fjárfestingarþörf, árlega eðlilega fjárfestingu, og fjármagnskostnað. Til þess að standa undir þessu öllu þarf afkoma í sjávarútvegi að vera miklu betri en verið hefur á síðustu árum. Fátt bendir til þess að svo verði, ekki síst þegar litið er til ástands á erlendum mörkuðum. Það mun því eitthvað láta undan og fyrirtækin neyðast til að halda áfram að éta útsæði framtíðarinnar. Varla geta menn gert ágreining um það þá gerist.

I. grein er hægt að lesa hér