Allar helstu frelsisvísitölur sem hinar ýmsu stofnanir og fjölmiðlar reikna út, gefa til kynna að þeir sem berjast fyrir auknu upplýsingafrelsi eigi lítið erindi til Ekvadors – hvað þá að setjast þar að. Engu að síður vill Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, fá þar hæli en hann situr nú í sendiráði Ekvadors í London til að forðast framsal til Svíþjóðar. Edward Snowden, bandarískinn uppljóstrarinn, virðist einnig stefna til Ekvadors á flótta sínum undan bandarískum stjórnvöldum. Assange og Snowden segjast vera talsmenn upplýsingafrelsis og baráttumenn gegn leyndarhyggju.Frelsiskort fjölmiðla

Blaðamenn án landamæra gera úttekt á stöðu fjölmiðla í heiminum og birta svokallaða Frelsisvísitölu fjölmiðla. Samkvæmt úttekt samtakanna er frelsi fjölmiðla mest í Finnlandi, síðan í Hollandi og Noregi. Ísland er í níunda sæti. Ekvador er í 119. sæti en Blaðamenn án landamæra telja að fjölmiðlar eigi við ýmis alvarleg vandamál að stríða þar í landi og stjórnvöld leggi skipulega steina í götur þeirra.

Á vef BBC kemur fram að meiðyrði séu hegningarlagabrot og árið 2011 var þrír yfirmenn dagblaðsins El Universo dæmdir í fangelsi og fjársektir fyrir það sem talið var refsiverð ummæli um Correa forseta.

Þá er öllum fjölmiðlum skylt samkvæmt lögum að gefa ríkisstjórn frítt pláss í blöðum og aðgang að útvarpi og sjónvarpi. Þá hefur ríkið gert útvarps- og sjónvarpsstöðvum að senda út sem ríkið hefur framleitt.

Fyrr í þessum mánuði voru sett ný fjölmiðlalög, þar sem settar eru auknar skyldur á einkarekna fjölmiðla. Nafnlaus skrif á internetið eru bönnuð og þeim sem ekki hafa próf í fjölmiðlafræðum er meinað að vinna við fjölmiðlun.

Lítið efnahagslegt frelsi

Samkvæmt vísitölu efnahagsfrelsis, sem The Heritage Foundation og The Wall Street Journal reikna árlega út, er efnahagslegt frelsi mest í Hong Kong og Singapore. Sviss er efst af Evrópuþjóðum í fimmta sæti og síðan er Danmörk í því níunda. Bandaríkin verma tíunda sætið. Ísland er í 23. sæti þar sem efnahagsfrelsi er talið mest með 72,1 stig. Ekvador er í 159. sæti með 46,9 stig og er í hópi þeirra ríkja þar sem minnst efnahagslegt frelsi er talið ríkja.

Samkvæmt niðurstöðum Transparency International er spilling í viðvarandi vandamál í Ekvador. Samkvæmt spillingarvísitölu stofnunarinnar fær Ekvador aðeins 32 stig af 100, þar sem 0 er algjör spilling og 100 engin spilling.

Transparency International birtir lista yfir 176 lönd þar sem Ekvador er í 118 sæti.

Þess má geta að Ísland fær 82 stig af 100 er talið 11. minnst spilltasta land í heimi.

Samkvæmt úttekt The Economist Intelligence Unit er lýðræði mest á Norðurlöndunum, þar sem Noregur, Svíþjóð, Ísland og Danmörk eru í efstu sætunum. Ekvador er í 87. sæti og fær aðeins 5,78 í einkunn af 10 mögulegum. Til samanburðar má nefna að Norðurlöndin fjögur eru með 9,5 til 9,9 í einkunn.

Fleiri heimildir

Fjölmörg samtök og stofnanir hafa gert alvarlega athugasemdir við stöðu mannréttinda í Ekvador sem og yfirgang stjórnvalda gagnvart fjölmiðlum og upplýsingafrelsi.

Human Rights Watch gerir alvarlegar athugasemdir vegna stöðu frjálsra fjölmiðla og einnig takmarkað sjálfstæði dómstóla.

Amnesty International varar við því að lög um meiðyrði séu notuð til að þakka niður gagnrýni fjölmiðla á stjórnvöld.