Samfylkingin hefur lagt fram tvær breytingatillögur við þingsályktun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í skuldamálum heimilanna. Helgi Hjörvar, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir að með breytingatillögunum sé verið að „skerpa á tveimur helstu  kosningaloforðum Framsóknarflokksins í þingsályktunartillögunni, þ.e. 20% niðurfellingu skulda og afnámi verðtryggingar”.

Þingflokkur Samfylkingarinnar stendur að tillögunum en þar er meðal annars lagt til að aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar miðist við 20% höfuðstólslækkun íbúðaskulda, en í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar er enginn prósentutala nefnd um höfuðstólslækkun. Þá vill Samfylkingin að skipaður verði sérfræðihópur til að undirbúa frumvarp til laga um afnám verðtryggingar sem verði lagt fram á Alþingi í nóvember næstkomandi.

Páll Vilhjálmsson gefur ekki mikið fyrir þetta útspil Samfylkingarinnar og segir það fuglahræðurök þegar andstæðingi eru gerð upp sjónarmið og þau síðan gagnrýnd:

„Framsóknarflokkurinn lofaði ekki 20 prósent niðurfellingu skulda í kosningabaráttunni í vor. Samfylkingin, á hinn bóginn, vill telja fólki trú um að svo sé og gagnrýnir Framsóknarflokkinn fyrir 20 prósent loforðið sem hann gaf ekki.”

Á bloggsíðu sinni bendir Páll á að Samfylkingin hafi beðið afhroð í síðustu kosningum og að fuglahræðupólitíkin „sem flokkurinn rekur núna mun ekki gera annað en að festa þá ímynd í sessi að Samfylkingin er skæruliðaflokkur sem ekki er treystandi fyrir landsstjórninni”.

Jón Baldur L’Orange  skrifar um „skrílshegðun þingmanna” Samfylkingarinnar sem vilji kalla sig ,,jafnaðarmenn” – hegðun sem sé þeim til skammar:

„Samfylkingin heldur áfram í heilagri herferð sinni gegn því að skuldugum heimilum landsmanna verði komið til hjálpar vegna forsendubrests með fjármunum kröfuhafa gömlu bankanna. Fyrst sagði Samfylkingin að þetta væri ekki hægt því ekkert fjármagn væri hafa hjá kröfuhöfum gömlu bankanna. En þegar þeir urðu tilneyddir að viðurkenna að þetta fjármagn væri fyrir hendi, þá vildu þeir nota fjármunina í allt annað. Sennilega dreymir þá enn um að láta skattgreiðendur borga óreiðuskuldir einkabanka og nota fjármunina til þess.

Heimir L Fjeldsted, skrifar um breytingatillögur Samfylkingarinnar og segist ekki muna eftir „hallærislegri” framkomu þingmanna:

„Það er að verða dagleg ánægja að fylgjast með afturbata Samfylkingar. Þingmenn flokksins reyna hvað eftir annað að gera lítið úr fyrirheitum stjórnarinnar og gefa ráðherrum varla tíma til að ræskja sig áður þeir fara að gagnrýna ræðuna.”