Ný ríkisstjórn á erfitt verk fyrir höndum. Vonir um góðan hagvöxt hafa brugðist og litlar fjárfestingar á síðustu árum hafa minnkað möguleikana til vaxtar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og Bjarni Benediktsson, horfa á dapra mynd sem blasir við eftir rúmlega fjögurra ára vinstri stjórn.

Hagstofan reiknar með að hagvöxtur verði aðeins 1,9% á þessu ári sem er nær 2,4-sinnum minni vöxtur en sérfræðingar Alþjóðargjaldeyrissjóðsins [AGS] töldu raunhæft að hægt væri að ná. Í nóvember 2008, nokkrum vikum eftir fall bankanna, var því spáð að hagvöxtur yrði 4,5% á þessu ári ef rétt væri á málum haldið. Sérfræðingar AGS misreiknuðu sig – þeir gerðu ekki ráð fyrir vinstri stjórn.Hagvöxtur-stöðugt svartara

Allar götur síðan hafa spár um þróun efnahagslífsins hér á landi brugðist. Í ársbyrjun 2011 voru sérfræðingar Seðlabankans sæmilega bjartsýnir á horfurnar í íslensku efnahagslífi. Reiknað var með 3,4% vexti á þessu ári. Svo liðu 12 mánuðir og útlitið varð ekki eins glæsilegt. Spá Seðlabankans í byrjun liðins árs gerði ráð fyrir 2,5% vexti á yfirstandandi ári. Og aftur liðu 12 mánuðir og sérfræðingar Seðlabankans settust niður og reiknuðu að nýju í byrjun þessa árs: Niðurstaðan var 2,1% hagvöxtur og um leið kom í ljós að vöxtur efnahagslífsins á liðnu ári hafði verið ofmetinn.

Til að bæta gráu ofan á svart birti Hagstofan þjóðhagsspá sína í apríl síðastliðnum: 1,9% hagvöxtur á þessu ári, eins og áður segir.

Í viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar horfa formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á þessar staðreyndir. Þeir vita sem er að forsenda þess að þeim takist að efna loforð um að rétta við fjárhag heimilanna, styrkja velferðarkerfið, afnema skerðingar aldraðra og öryrkja, afnema gjaldeyrishöft og ná jafnvægi í fjármálum ríkisins, er að efnahagslífið vaxi verulega á komandi árum.

Þessa vegna munu Sigmundur Davíð og Bjarni fyrst þurfa að ná saman um aðgerðir í efnahagsmálum sem miða að því að koma fjárfestingu af stað – hleypa súrefni inn í atvinnulífið – og tryggja öflugan hagvöxt, áður en þeir útfæra lausnir til að styrkja fjárhag heimila. Leiðrétting á stökkbreyttum lánum skilar engu ef ekki tekst að byggja upp efnahag landsins og tryggja aukinn kaupmátt heimilanna til framtíðar.