Leiðari Morgunblaðsins undir fyrirsögninni Ekkert upplit, er einhver harðasta gagnrýni á Ríkisútvarpið sem skrifuð hefur verið. Tilefnið er kosningasjónvarp vegna forsetakosninganna. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir að Ríkisútvarpið hafi verið eini þátttakandinn sem ekki réði við úrslitin, “reis ekki undir ósigrinum”, sem komi “á óvart því ekki hafi verið tilkynnt formlega um framboð stofnunarinnar”. Síðar segir:

“Alls konur furður fylgdu þessu tapsára andrúmslofti. Langt viðtal fréttamanns við formann kjörstjórnar um hvaða ósköp hefðu gerst ef »fréttir« um falsaða kjörseðla, sem ekki var fótur fyrir, hefðu reynst réttar! Kynnar fréttastofunnar sífellt að sneiða að Hæstarétti vegna fíaskókosninga til stjórnlagaráðs. Það eitt og sér var til skammar fyrir fréttastofuna.

Fréttamaðurinn og innmúraður fræðimaður úr heimi Samfylkingar sláandi sér á lær vegna þess að súla úr niðurbrotinni Gallup-könnun sýndi að 60 prósent þeirra sem segðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum höfðu sagst mundu kjósa Ólaf Ragnar. Fréttamaðurinn og fræðimaðurinn flissuðu og skríktu og sögðu þetta undur mikil sem lengi yrði í minnum haft og kennsluefni framtíðarinnar í stjórnmálafræðinni. »Verða ekki skrifaðar doktorsritgerðir um þetta,« spurði fréttamaðurinn og fræðimaðurinn hélt helst það. Svona hefðu þessir kumpánar mátt klóra sér á kaffistofunni í auglýsingahléi.

En hvað var svona merkilegt við þessa súlu? Var einhver sjálfstæðismaður eða maður sem stendur fyrir slík gildi í kjöri í þessum kosningum? Hvað átti þetta fólk að kjósa í forsetakosningunum svo þessir tveir kappar hefðu fengið haldið ró sinni? Fyrrum formann Einingarsambands Kommúnista? Eða frambjóðandann sem þeim tveimur hugnaðist best og eyddi að sögn mestum tíma til að þvo af sér samfylkingar- og fullveldisafsalstimpilinn í kosningabaráttunni? Ef komið hefði í ljós að allur þessi skari hugsanlega verðandi kjósenda Sjálfstæðisflokksins hefðu kosið Þóru hefðu þá engar doktorsritgerðir verið skrifaðar? Var það jafnsjálfsagt og að þetta fólk kysi ekki Ólaf? Hvers konar rugludallaröfl er hægt að bjóða áhorfendum upp á af ríkisrekinni fréttastofu?

En það var önnur súla birt en hún varla nefnd. Sú súla sýndi að nærri 80 prósent kjósenda Þóru Arnórsdóttur komu úr röðum stuðningsmanna Samfylkingarinnar og viðbót frá VG. Af hverju var það ekkert undrunarefni? Atli Rúnar Halldórsson, fyrrverandi fréttamaður, upplýsti um kosningafundi í Vestmannaeyjum þar sem Þóra hefði eytt ótrúlega miklum tíma í að reyna að “þvo af sér samfylkingarstimpilinn”. Það gekk ekki betur en svo að rétt tæp 80 prósent af fylgi hennar komu frá þeim stað sem sá stimpill er runninn. En af hverju þessi mikli þvottur. Atli Rúnar benti á að ríkisstjórnin væri ekki bara óvinsæl hún væri beinlínis illa þokkuð.

Þóra Arnórsdóttir er geðfelldur einstaklingur og hún leitaðist við að bera höfuðið hátt að kosningum loknum. Gott hjá henni. En það var stórfurðulegt að frétta- og fræðimenn reyndu ekki að brjóta til mergjar hvað gerst hafði í kosningabaráttunni. Þóra fór ekki í framboð fyrr en sást að hún mældist til vinnings í könnunum. Fyrstu kannanir sýndu hana með meiri eða jafnan styrk og sitjandi forseti. Hún missti 40 prósent af því fylgi í kosningabaráttunni! Það verður ekki komist hjá að segja að það var algjört afhroð. Hvað gerðist eiginlega? Um það hafði þessi einkennilega fréttastofa ekkert fram að færa. Þóra sagði sjálf að erfitt hafi verið að kljást við sitjandi forseta “til 16 ára”. Látið var eins og það hafi verið forsetanum til framdráttar að hafa setið í 16 ár og vilja sitja í 4 ár í viðbót. Það var þó einn hans veikasti punktur. Þess vegna treystu andstæðingar hans sér til að setja fram alvöru frambjóðanda gegn sitjandi forseta. Það hefur aldrei gerst áður. Það var hið sögulegasta í kosningunum, þótt það færi framhjá fréttamanninum og fræðimanninum.”