Frá því að niðurstöður kosninganna lágu fyrir hafa fjölmiðlar flutt tugi frétta af þeim möguleikum sem fyrir hendi eru við myndun ríkisstjórnar, formenn flokkanna hafa verið teknir í viðtöl og fræðimenn dregnir fram til að greina stöðuna.

Frásagnir fjölmiðla um mögulega samsetningu ríkisstjórnar líkjast helst samkvæmisleik, þar sem markmiðið er að finna út þá kosti sem fyrir hendi eru; tveggja flokka stjórn, þriggja og jafnvel ríkisstjórn fjögurra flokka. Samkvæmisleikurinn er kryddaður með frásögnum af niðurlútum þingmönnum sem náðu ekki kjöri og kenna eigin formanni um hrakfarirnar.

Lítill ágreiningur

Fjölmiðlar eru svo uppteknir í samkvæmisleiknum að þeir huga vart að því sem skiptir almenning mestu.

Fjölmiðar gerðu margt verra en að beina kastljósinu að þeim vanda sem glímt er við í heilbrigðiskerfinu, að skuldastöðu ríkissjóðs og lamandi vaxtagreiðslum, að stöðnun atvinnulífsins þar sem fjárfesting er í sögulegu lágmarki og að slæmri stöðu aldraðra og öryrkja.

Þegar þetta er skrifað eru mestar líkur á að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur taki höndum saman í ríkisstjórn. Samsteypustjórn þessara flokka er í samræmi við úrslit kosninganna. Í ljósi þess að ekki er djúpstæður málefnalegur ágreiningur á milli flokkanna um helstu viðfangsefni á komandi kjörtímabili ætti ekki að taka langan tíma að mynda ríkisstjórn. Þess utan virðist ríkja traust og trúnaður á milli formanna flokkanna, sem skiptir miklu þegar glímt er við erfið og flókin úrlausnarefni.

Endurreisn heimila og fyrirtækja

Stjórnarsáttmáli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þarf ekki að vera langur eða ítarlegur. Yfirskrift hans ætti að vera: Endurreisn heimila og fyrirtækja. Sáttmálinn á að vera einföld stefnuyfirlýsing – verkefnalisti yfir þau brýnu mál sem bíða nýrrar ríkisstjórnar á fyrstu mánuðunum:

Innleiddur skattaafsláttur vegna íbúalána frá og með 1. júlí 2013 og um leið verði heimilt að nýta mánaðarlega séreignasparnað til að greiða niður höfuðstól íbúðalána.

Gengið frá samningum við kröfuhafa föllnu bankanna. Hugsanlegur hagnaður ríkisins af samningunum nýttur annars vegar til að rétta enn frekar við fjárhagsstöðu heimilanna og hins vegar til að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Tímasett áætlun um afnám gjaldeyrishafta í áföngum kynnt innan 60 daga.

Úttekt á stöðu ríkissjóðs af óháðum aðilum. Henni lokið eigi síðar en í september 2013 og niðurstaða hennar kynnt almenningi.

Áætlun um uppskurð á eftirlitskerfi hins opinbera, það einfaldað með endurskoðun regluverks og laga, kostnaður lækkaður.

Jafnræði í lífeyrismálum landsmanna tryggt á kjörtímabilinu. Lögð fram tímasett áætlun um leiðréttingu á kjörum aldraðra og öryrkja.

Gripið til neyðarráðstafana til að tryggja heilbrigðisþjónustu um land allt. Áætlunum um byggingu nýs Landspítala frestað ótímabundið. Heildarendurskoðun gerð á skipulagi heilbrigðiskerfisins í samráði við heilbrigðisstéttir og sveitarstjórnir. Á grundvelli endurskoðunar verður gerð sérstök fjárfestingaráætlun er nái til landsins alls.

Rammaáætlun endurskoðuð og breytt til samræmis við tillögur sérfræðinefndar um nýtingu vatnsafls og jarðjarma.

Auðlegðarskatturinn afnuminn.

Gerðir langtímanýtingarsamningar um fiskveiðiauðlindir og sátt mynduð um stjórnkerfi fiskveiða.

Fjögurra ára áætlun um lækkun tekjuskatts fyrirtækja og einstaklinga lögð fram samhliða fjárlagafrumvarpi 2014.

Tryggingagjald lækkað fyrir lok júní næstkomandi. Gjaldið ekki hærra en 5,34% í árslok 2014.

Áætlun um sölu ríkiseigna lögð fram með fjárlagafrumvarpi 2014 og jafnframt gefin út yfirlýsing um að allar tekjur af sölu þeirra renni til að greiða skuldir ríkisins.

Fjármálaregla um útgjöld ríkisins innleidd fyrir lok ársins þannig að útgjöldin verði ekki hærri en sem nemur ákveðnu hlutfalli af landsframleiðslu.

Uppstokkun á lánamarkaði. Stimpilgjöld afnumin og samkeppni milli lánastofnana þar með aukin. Skipuð slitastjórn fyrir Íbúðalánasjóð. Almenn íbúðalán verði ekki með ríkisábyrgð og meginreglan verði óverðtryggð íbúðalán þótt verðtryggð lán verði ekki bönnuð.

Stjórnkerfi peningamála breytt. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið sameinuð í eina nýja stofnun.

Aðildarviðræðum við Evrópusambandið hætt og þjóðaratkvæðagreiðsla boðuð fyrir lok kjörtímabilsins.

Leiðarljós

Leiðarljós endurreisnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði heimila og þróttmikið atvinnulíf. Um leið á að huga að stöðu komandi kynslóða og koma í veg fyrir að þær þurfi að axla þungan skuldabagga.

Markmiðið er ekki aðeins að skapa sátt milli kynslóða heldur einnig samstöðu landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins, jafnræði milli almennra launamanna og ríkisstarfsmanna og skapa samvinnu aðila vinnumarkaðarins.

Auðvitað eru verkefnin miklu fleiri. Mestu skiptir að stefnan sé skýr og öllum ljós. Þannig kemst á stöðugleiki sem er forsenda þess að hjólin fari aftur af stað. Í lok kjörtímabilsins getur ríkisstjórnin fengið þá einkunn að hafa verið ríkisstjórn endurreisnar.