Landsfundur Samfylkingarinnar sem lauk í dag, sunnudag, verður ekki nýttur í kennslubækur í stjórnmálafræði um hvernig stjórnmálaflokkar eiga að halda baráttufundi í upphafi kosningabaráttu. Líklegra er að fundurinn verði tekin sem gott dæmi um misheppnaða landsfundi.

Samfylkingar komu saman á föstudag fullir bjartsýni. Með nýrri forystu yrði blásið til sóknar fyrir alþingiskosningar. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hóf fundinn með dæmigerðum hætti og lýsti yfir stríði við Sjálfstæðisflokkinn. Um leið gerði hún lítið úr nýjum framboðum sem hún sagði litlu skipta. Nokkrum klukkustundum síðar voru landsfundarfulltrúar slegnir með kaldri tusku.

Niðurstaða þjóðarpúls Gallups sýndi að mikið fylgistap Samfylkingarinnar og að „litla Samfylkingin” – Björt framtíð – væri orðin stærri en móðurflokkurinn. Könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins varð síðan til að strá salti í sárin. Samfylkingin er fjórði stærsti flokkur landsins – litlu stærri en Vinstri grænir. Á fjórum árum hefur Jóhönnu tekist að koma Samfylkingunni niður í fylgi Alþýðuflokksins sem var 11,4% árið 1995 þegar flokkurinn bauð síðast fram. Slíkt hlýtur að teljast nokkuð afrek.

Sagt skilið við Jóhönnu

Landsfundarmenn reyndu að endurheimta gleði sína á laugardeginum þegar tilkynnt var að Árni Páll Árnason hefði verið kjörinn formaður Samfylkingarinnar með töluverðum yfirburðum yfir Guðbjarti Hannessyni. Kjörsókn í formannskjörinu var hins vegar dræm. Alls voru 18.318 á kjörskrá vegna formannskosninganna en 5.621 greiddi atkvæði. Þátttakan var því tæplega 31%. Árni Páll hlaut stuðning liðlega 62% þeirra sem tóku þátt í formannskjörinu en aðeins tæp 19% þeirra sem höfðu kosningarétt.

Eitt fyrsta verk hins nýja formanns var að hafna stríðsyfirlýsingum Jóhönnu Sigurðardóttir í setningarræðu daginn áður:

„Við erum á tímamótum og það er erfitt að sjá að frekari stríðsrekstur verði Samfylkingunni til árangurs eða virðingarauka. Við höfum háð of mörg stríð án árangurs þetta kjörtímabil og við verðum að læra af þeirri reynslu.”

Árni Páll er greinilega sannfærður um að ef Samfylkingunni á að takast að ná vopnum sínum verði hann sem formaður og flokkurinn í heild að koma arfleifð og vinnubrögðum Jóhönnu Sigurðardóttir, eins langt aftur fyrir sig og kostur er.

Innan við helmingur landsfundarfulltrúa

Eftir hádegi á laugardegi var svo komið að kosningu varaformanns. Samkvæmt upplýsingum Samfylkingarinnar eiga 1.100 manns rétt á því að sitja landsfund flokksins. Eðli máls samkvæmt hafa þeir einir atkvæðisrétt á fundinum sem greitt hafa fundargjald.

Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra var kjörinn varaformaður. Alls greiddu 524 fundarmenn atkvæði eða 46,7% þeirra sem hafa rétt til fundarsetu. (Greiddi innan við helmingur fundargjald?) Katrín fékk 308 atkvæði eða tæplega 59% greiddra atkvæða en aðeins um 28% sé miðað við fjölda þeirra sem átti rétt til að sitja landsfundinn.

Svo virðist sem áhugi samfylkinga á eigin landsfundi hafi dvínað eftir því sem fundurinn stóð lengur yfir. Á sunnudag var komið að kosningu formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Alls kusu 246 eða liðlega 22% af þeim sem áttu seturétt á fundinum og innan við helmingur þeirra sem tók þátt í varaformannskjöri á laugardeginum. Til að kóróna vandræðaganginn og undirstrika áhugaleysið á landsfundinum var tilkynnt að aðeins tveir væru í kjöri til verkalýðsráðs Samfylkingarinnar. Því var hætt við kosninguna, með undarlegum skýringum um skipulagsbreytingar. Staðreyndin er auðvitað sú að þær rætur sem gamli Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið áttu í verkalýðshreyfingunni, var verið rifnar upp með rótum af forystu Samfylkingarinnar. Það var ekki síst þess vegna sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, ákvað að segja skilið við Samfylkinguna.

Í stað þess að koma fullir af baráttuhug af landsfundi fara samfylkingar, sem á annað borð mættu og greiddu sín gjöld, heim særðir og vonsviknir. Tækifæri til að blása til nýrrar sóknar rann þeim úr greipum um helgina og þeir átta sig líklega ekki fyllilega á því hvernig það gerðist. En landsfundur Samfylkingar var misheppnaður og í andist sinni samþykktu fundarmenn að breyta nafni flokksins.