Sigurjón Aðalsteinsson skrifar Róberti Marshall, þingmanni Samfylkingarinnar, opið bréf í Eyjafréttir og spyr hann nokkurra spurninga, fyrir hönd venjulegra Vestmannaeyinga. Sigurjón hefur aðdraganda að spurningunum og segir meðal annars:

„Í aðdraganda þess að lagður var á óhugnanlegur landsbyggðarskattur sem felst í veiðigjaldinu, þá tókst ykkur í ríkisstjórn að hundsa, blekkja og afvegaleiða umræðuna þannig að almenningur sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu trúði því að þið hafið tekið tillit til athugasemda hagsmunaðila í sjávarútvegi og að útgerðin og þá byggðarlögin þaðan sem gert er út séu vel aflögufær.”

Í bréfinu til Róberts bendir Sigurjón á að ekki hafi verið komið til móts við athugasemdir Eyjamanna og einnig „hafið þið algjörlega sneitt hjá því að upplýsa okkur um áhrif veiðigjaldsins á samfélagið í Eyjum”.

Þá skrifar Sigurjón:

„Þú sjálfur hefur ekki svarað kalli um að mæta til Eyja og upplýsa okkur um afleiðingarnar af veiðigjaldinu. Einnig tókst þér að vanvirða sjómenn rétt fyrir sjómannadag í fyrra, með því að segja að ekki sé mark takandi á sjálstæðum skoðunum þeirra, vegna hagsmunatengingar við útgerðina.

Þá að spurningunum:

1) Ertu stoltur af verkum þínum, þ.e. þeim sem snúa að því að bæta hag Vestmannaeyja, bæði hvað varðar sjávarútveg og samgöngur? Ef já, í hverju felast umbætur þínar og þinna samverkamanna?

2) Ertu stoltur af viðbrögðum ofantaldra ráðherra og þingmanna, þegar kemur að því að svara okkur Eyjamönnum?

3) Sagt er að veiðigjaldið komi hvað harðast niður á þeim sem standa vel, er það rétt ályktað? Ef það er svo, er þá ekki verið að verðlauna „skussana“ einu sinni enn?

4) Munið þið í ríkisstjórn halda af stað með fundi um landsbyggðina, þar sem þið upplýsið almenning um afleiðingar veiðigjaldsins á viðkomandi byggðir? Ef já hvenær? Ef nei, hvers vegna ekki?

Við Eyjamenn höfum séð það að borin von er að vænta þess að ríkisstjórnin setjist niður og hlusti á okkur, það er því spurning hvort við þurfum ekki sjálf að standa upp og mótmæla?

Einnig er það undarlegt að fylgjast með hvernig meðlimir ríkisstjórnarflokkana í Vestmannaeyjum, hafa setið hjá og sleppt því að taka upp hanskann fyrir okkur, hvers vegna er það?”