Líklega hafa flestir á því góðan skilning að það geti verið erfitt að sinna starfi efnahagsráðgjafa fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Á stundum hlýtur það að vera svekkjandi og mæðandi að veita góð ráð sem mæta í besta falli takmörkuðum skilningi.

Varnargrein Ágústs Ólafs Ágústssonar, efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, hér í Morgunblaðinu síðastliðinn fimmtudag, var athyglisverð. Eitt er að taka að sér að veita ráðherra ráðgjöf og reyna af bestu getu að beina viðkomandi stjórnmálamanni á rétta braut og annað að taka að sér að verja ráðherra opinbera með þeim hætti sem Ágúst Ólafur gerir.

Pólitísk gryfja

Tilefni varnarskrifa Ágústs Ólafs var blaðagrein undirritaðs þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við ýmsar staðhæfingar Jóhönnu Sigurðardóttur í áramótagreinum og -ávarpi. Ég hélt því fram að forsætisráðherrann hefði farið fram með blekkingum og ekki sagt satt í ýmsum efnum.

Í vörn sinni telur efnahagsráðgjafinn rétt að stökkva ofan í sömu pólitísku gryfju og Jóhanna. Sögulegum staðreyndum er snúið á haus. Þær virtar að vettugi í tilraun til að telja fólki trú um að Jóhanna sé saklaus og hrein líkt og nýfallin mjöllin og að Samfylkingin beri enga pólitíska ábyrgð.

Þannig tekur efnahagsráðgjafinn fullan þátt í tilraunum Jóhönnu Sigurðardóttur til að endurrita söguna. Sem fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar hefur hann áhuga á endurritun. Efnahagsráðgjafinn hefur lítinn áhuga á að rifja upp að hann var formaður viðskiptanefndar Alþingis frá 2007 til 2009 og hafði lítið út á stefnuna í peninga- og ríkisfjármálum að setja fyrr en það var of seint.

Smitandi óvild

Nú liðlega fjórum árum eftir að stærsti hluti fjármálakerfisins hrundi, telur efnahagsráðgjafinn og fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar rétt að koma fram og gagnrýna stjórnun peningamála í aðdraganda hrunsins. Nú telur sá sem sat sem formaður viðskiptanefndar Alþingis rétt að tækla einu yfirmenn vestrænna seðlabanka sem flæmdir voru úr starfi með sérstakri lagasetningu.

Persónuleg óvild forsætisráðherra í garð fyrrverandi seðlabankastjóra hefur smitað efnahagsráðgjafann og svipt hann hæfileikanum til að gæta sannmælis. Það er dapurlegt að ráðgjafinn skuli falla í þann forarpytt að reyna að villa um fyrir almenningi með því að halda því fram að „óstjórn Sjálfstæðisflokksins í Seðlabankanum kostaði ríkið um 270 milljarða króna“. Hæfileikaríkur hagfræðingur og fyrrverandi formaður viðskiptanefndar Alþingis, veit betur. Veðkröfur Seðlabankans urðu verðlausar samkvæmt ákvörðun Alþingis. Ágúst Ólafur Ágústsson tók þátt í þeirri ákvörðun með setningu neyðarlaganna svokölluðu sem tryggðu hag innistæðueigenda og lögðu grunninn að efnahagslegri endurreisn. Með þessari ákvörðun urðu veðkröfur Seðlabankans verðlausar. Í framsögu fyrir nefndaráliti sagði Ágúst Ólafur að um neyðarráðstöfun væri að ræða til að „mæta þeim efnahagslegu hamförum sem nú ríða yfir þjóðina, en það má líka hafa í huga að þetta er hluti af þeim alþjóðlega vanda sem nánast öll vestræn ríki búa núna við“.

Ég var einn þeirra sem batt töluverðar vonir við Ágúst Ólaf sem stjórnmálamann, enda þekki ég til hans. Að honum standa sterkir og góðir stofnar. Í málflutningi sem stjórnmálamaður var hann skynsamur, öfgalaus og rökfastur. Ég var ekki sammála öllu því sem hann sagði en framsetningin var mér oftar en ekki að skapi. Hann tók undir ýmislegt með okkur hægri mönnum.

Þegar ég las varnargrein efnahagsráðgjafans kom mér hug það sem Ingólfur sagði er hann frétti af vígi Hjörleifs fóstbróður síns.

200 verða 300

Í áðurnefndri grein hélt ég því fram að skuldir heimilanna hefðu lækkað um 200 milljarða og um 75% þeirrar lækkunar hefði verið vegna ákvörðunar dómstóla og ekkert haft með störf og stefnu ríkisstjórnarinnar að gera. Efnahagsráðgjafinn sakar mig um að fara með rangt mál því skuldir hafi lækkað um 300 milljarða.

Mér er ekki ljóst hvaðan upplýsingar ráðgjafans koma en ég byggði á skriflegu svari atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem lagt var fram á Alþingi 30. nóvember síðastliðinn. Þar kom fram að tölurnar væru frá því í janúar 2012 en tekið fram að þær hefðu lítið breyst frá þeim tíma.

Ef taka má mark á efnahagsráðgjafanum hafa skuldir heimilanna lækkað um 100 milljarða til viðbótar á nokkrum mánuðum nema að þær upplýsingar sem atvinnuvegaráðherra veitti Alþingi hafi ekki verið réttar. Nauðsynlegt er að draga hið rétta fram í dagsljósið.

„Skuldaaðlögun“

Það veldur mér nokkrum áhyggjum að Ágúst Ólafur, sem er ágætlega menntaður hagfræðingur, skuli taka þátt í áróðursleik forsætisráðherra er kemur að lækkun skulda til fyrirtækja og heimila. Skilaboð Jóhönnu Sigurðardóttur til landsmanna um áramótin voru þau að stefna ríkisstjórnarinnar hafi leitt til þess að skuldir fyrirtækja og heimila hafi lækkað um 3.200 milljarða króna – ígildi landsframleiðslu í tvö ár. Hreykinn talaði forsætisráðherra um „umfangsmestu skuldaaðlögun“ sem sögur fari af. Hvorki meira né minna!

Ég hélt því fram að á undanförnum árum hefðu fjármálastofnanir afskrifað og leiðrétt lán til starfandi fyrirtækja um nær eitt þúsund milljarða. Hér er um verulegar fjárhæðir að ræða en langt í frá að nema landsframleiðslu í tvö ár. Þá standa eftir um tvö þúsund milljarðar króna að teknu tilliti til skuldalækkunar heimilanna.

Ekki verður betur séð en að langstærsti hluti „umfangsmestu skuldaaðlögunar“ sögunnar hafi komið til vegna þess að fjármálastofnanir hafa neyðst til að afskrifa útlán vegna gjaldþrota fyrirtækja og eignarhaldsfélaga. Þó að halda megi því fram að stefna ríkisstjórnarinnar hafi ekki auðveldað rekstur fyrirtækja á Íslandi er það varla ætlun forráðamanna hennar að hreykja sér sérstaklega af því að í heild hafi skuldir fyrirtækja lækkað á síðustu árum, vegna gjaldþrota og afskrifta? „Umfangsmesta skuldaaðlögun“ sögunnar hefði getað orðið enn umfangsmeiri ef fleiri lögaðilar hefðu siglt í þrot. Kannski hefði forsætisráðherra orðið enn hróðugri af stjórnarstefnunni. En einhverjum kemur það ekki á óvart að forráðamenn ríkisstjórnarinnar líti á afskriftir lána vegna gjaldþrota sem „skuldaaðlögun“.

Réttar og sundurgreindar tölur

Varnargrein efnahagsráðgjafans og staðhæfingar forsætisráðherra gefa tilefni til þess að þingmenn óski eftir nákvæmum upplýsingum frá Seðlabankanum og Samtökum fjármálafyrirtækja um afskriftir og lækkun skulda. Hversu stór hluti er vegna gjaldþrota fyrirtækja? Hvað og hversu mikið hafa skuldir starfandi fyrirtækja verið leiðréttar og afskrifaðar? Hversu stór hluti lækkunar skulda fyrirtækja er vegna dóma Hæstaréttar vegna erlendra lána? Hversu mikið hafa fjármálastofnanir afskrifað af skuldum fyrirtækja sem þær yfirtóku og seldu aftur eftir umfangsmiklar afskriftir? Hversu mörg fyrirtæki hafa notið lækkunar skulda vegna svokallaðrar beinu brautar, sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir í samráði við fjármálastofnanir? Um hvaða fjárhæðir er að ræða?

En auðvitað getur efnahagsráðgjafinn tekið frumkvæðið í þessum efnum. Hann er í aðstöðu til þess að leggja fram sundurgreindar tölur í þessum efnum.