Af einhverjum ástæðum ákvað Jóhanna Sigurðardóttir að nýta síðustu áramót sín sem forsætisráðherra til þess að segja ósatt og reyna að veiða kjósendur í vef blekkinga og hálfsannleika. Eftir að hafa setið í 35 ár á Alþingi og þar af í nær 13 ár sem ráðherra, virðist Jóhanna Sigurðardóttir hafa mikla þörf fyrir að endurrita söguna. Hún sé óflekkuð og syndlaus líkt og nafna hennar af Örk – bjargvættur fyrirtækja og heimila, sem forðaði þjóð frá gjaldþroti.

Samkvæmt söguskoðun Jóhönnu hrundi fjármálakerfið á „vakt sjálfstæðismanna“ þótt bankamálaráðherrann væri úr Samfylkingunni og formaður Fjármálaeftirlitsins fyrrverandi ráðherra og flokksfélagi hennar. Söguskoðun Jóhönnu leyfir að talað sé um halla á ríkissjóði á „síðasta heila ári Sjálfstæðisflokksins við völd“ án þess að minnast einu orði á að annar flokkur sat einnig í ríkisstjórn og að hin óflekkaða og syndlausa sat við ríkisstjórnarborðið og í ráðherranefnd um ríkisfjármál. Við endurritun sögunnar verður fyrrverandi félagsmálaráðherra (og ábyrgðarmaður jafnréttismála) að hafa uppi stór orð um að þegar „Sjálfstæðisflokkurinn fór frá völdum hafði ójöfnuður og stéttaskipting í samfélaginu aukist til muna enda gekk þeirra pólitíska stefna út á það leynt og ljóst“.

Með hreinum ólíkindum

Hægt er að hafa nokkra samúð og jafnvel skilning á þörf Jóhönnu til að draga upp aðra og fegurri mynd af pólitískri fortíð sinni en heimildir sýna. Það er mannlegt, en staðreyndum verður ekki breytt.

Í áramótaávarpi sínu var Jóhanna stolt yfir störfum ríkisstjórnar sinnar síðustu fjögur ár:

„Nú, fjórum árum síðar, hillir undir sjálfbæran ríkisrekstur, lok einhverrar umfangsmestu skuldaaðlögunar heimila og fyrirtækja sem sögur fara af og stöðugur hagvöxtur hefur mælst í rúm tvö ár.“

Það er með hreinum ólíkindum að forsætisráðherra skuli halda því fram að ríkisreksturinn sé að verða sjálfbær. Vonandi trúir ráðherrann þessu ekki sjálfur, þegar ljóst er að vandanum er ýtt á undan sér. Hundraða milljarða lífeyrisskuldbindingar ríkisins, sem fara hækkandi, standa utan efnahags. Ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við að á komandi árum verður ríkið að leggja tugi milljarða í Íbúðalánasjóð, heilbrigðiskerfið er rekið áfram með límböndum og ótrúlegum dugnaði starfsmanna og öryggi borgaranna er ógnað vegna niðurskurðar í löggæslu, sem er þó eitt grunnhlutverka ríkisins.

Það er mikil kokhreysti af forsætisráðherra, sem á þremur árum (frá mars 2010 til október 2012) jók skuldir ríkissjóðs um 400 milljarða króna, að halda því fram að ríkisreksturinn sé að verða sjálfbær. Slík staðhæfing stenst ekki. Sjálfbærni felst ekki í því að velta vandanum á undan sér og gefa út víxla á komandi kynslóðir.

Hvaðan koma upplýsingarnar?

Hróðugur staðhæfði forsætisráðherra að skuldir heimila og fyrirtækja hefðu „lækkað sem nemur um tvöfaldri landsframleiðslu á einungis þremur árum“. Hér skal það látið liggja á milli hluta að Jóhanna Sigurðardóttir gefi í skyn að það sem hún kallar „umfangsmestu skuldaaðlögun“ sem sögur fari af, sé vegna aðgerða ríkisstjórnar hennar. En um hvað er ráðherrann að tala? Hafa skuldir fyrirtækja og heimila verið lækkaðar um 3.200 milljarða króna? Hvaðan koma þessar upplýsingar? Ekki er forsætisráðherra að vísa til þess þegar erlendir lánardrottnar þurftu að afskrifa þúsundir milljarða við fall íslensku bankanna í október 2008. Því verður ekki trúað.

Skuldir heimilanna hafa lækkað um 200 milljarða á síðustu árum. Nær 75% af þeirri lækkun eru vegna niðurfærslu erlendra fasteigna- og bílalána sem voru ólögleg samkvæmt niðurstöðu dómstóla. Lækkun skulda heimilanna hafði því lítið með aðgerðir eða stefnu ríkisstjórnarinnar að gera.

Fjármálastofnanir hafa einnig þurft að leiðrétta og afskrifa lán til fyrirtækja. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um hversu háar fjárhæðirnar eru en samkvæmt því sem næst verður komist má ætla að lán til starfandi fyrirtækja – fyrirtækja sem eru á lífi og eru ekki innantómar skeljar – hafi lækkað um nær eitt þúsund milljarða frá hruni fjármálakerfisins. Þetta eru gríðarlegir fjármunir en langt í frá að nema tvöfaldri landsframleiðslu. Og aftur hefur lækkun skulda lítið með aðgerðir ríkisstjórnar Jóhönnu að gera.

Látum aðra skrifa söguna

Jóhanna Sigurðardóttir benti réttilega á að „hagvöxtur hefur mælst í rúm tvö ár“. Hvernig má annað vera eftir það mikla áfall sem íslenska hagkerfið varð fyrir haustið 2008? Það hefði verið sérstakt hagfræðilegt „afrek“ að koma í veg fyrir vöxt efnahagslífsins. Vandinn er sá að hagvöxturinn er langt frá því sem sérfræðingar, þar á meðal hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, töldu raunhæft að ná. Efnahagur Íslendinga er um 100 milljörðum minni en skynsamar áætlanir gerðu ráð fyrir.

Saga stjórnmálamannsins Jóhönnu Sigurðardóttur er í mörgu merkileg og hluti af sögu lítillar þjóðar. Þá sögu verður að skrifa án þess að blása ryki í augu landsmanna eða villa fyrir þeim. Því fer best á því að aðrir en sú, sem Jón Baldvin lýsti af kaldhæðni sem „heilagri“ og hverrar „tár“ Davíð Oddsson þurfti að „þerra“, taki að sér ritun sögunnar.