Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, ræðst harkalega að Ólafi Ragnari Grímssyni forseta í bloggfæslu laugardaginn 5. janúar. Þar kallar hann Ólaf Ragnar „forsetabjána“ sem láti sig dreyma um að auka völd sín á kostnað Alþingis, með góðu eða illu.

Tilefni skrifa Björns Vals er grein Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðið. Þar heldur Þorsteinn því fram að það hafi verið eðlilegt af forsetanum að gera sérstakar athugasemdir á ríkisráðsfundi við hvernig staðið er að verki við breytingar á stjórnarskrá. Ólafur Ragnar gerði síðan grein fyrir athugasemdum sínum við tillögur um breytingar í nýársávarpi sínu.

Birni Val er ekki skemmt og hann telur að með þessu sé forsetinn að reyna að hrifsa til sín völd frá Alþingi. Á bloggsíðu sína skrifar Björn Valur meðal annars:

„Ólafur [R]agnar Grímsson mun hinsvegar engu láta sig varða um það hvaða flokkar eru við völd hverju sinni. Hans draumar snúast um að auka sín eigin völd á kostnað Alþingis, ef ekki með góðu – þá með illindum.

Í því nýtur forsetabjáninn stuðnings og aðdáunnar sjálfstæðisflokksins eins og svo oft áður.“

Líkt og margir aðrir í þingliði Vinstri grænna hefur Björn Valur haft horn í síðu Ólafs Ragnars Grímssonar, allt frá því hann neitaði að staðfesta lög um Icesave. Hefur Björn Valur ekki verið spar á stór orð.

10. apríl 2011 skrifaði Björn Valur:

„Líklega hefur forsetinn ekki ruglað jafn mikið um þetta mál [Icesave] og á fréttamannafundinum á Bessatöðum í dag. Er þó af nógu að taka.“

18. apríl 2011 skrifaði Björn Valur:

„Það er því ekki spurning um hvort forseti Íslands er skaðlegur íslensku þjóðinni í þessu máli [Icesave] – heldur hversu mikið.“

Loks er vert að vitna til skrifa Björns Vals frá 18. október 2011:

„Það bendir of margt til þess að forsetinn hafi nú endanlega snappað og honum sé ekki lengur sjálfrátt.

Forsetinn rífur kjaft og hæðist að þjóðinni sem dag hvern fær að finna fyrir afleiðingum hrunsins.

Hann er friðarspillir sem íslensk þjóð á langt því frá skilið að hafa fyrir sér.“