Egill Helgason hefur haldið því fram að „frumhvöt hjá þingmönnum“ sé að „halda í sætið sitt“. Út frá því megi „oft skýra gerðir þeirra“. Sjónvarpsmaðurinn hefur tekið undir þá skoðun að flokksstofnun Guðmundar Steingrímssonar „sé plott innan úr Samfylkingu“:

„Vina- og samherjahópur Guðmundar er mestanpart innanborðs í Samfylkingunni – og þar telja menn að nauðsyn að komi fram annar flokkur en Samfylkinginn sem styður aðild að ESB.“

Þegar Egill skrifaði þessi orð hafði Róbert Marshall, sem kjörinn var á þing fyrir Samfylkinguna, ekki tilkynnt um fyrirætlun sína um að ganga til liðs við Guðmund. Helstu leiðtogar Besta flokksins höfðu heldur ekki greint frá því þeir myndu skipa sér í hinn nýja flokk – Bjarta framtíð.

Í Kryddsíld Stöðvar 2 hélt Jóhanna Sigurðardóttir því fram að lítill sem enginn munur væri á Samfylkingunni og Bjartri framtíð. Guðmundur mótmælti ekki. Engum dettur í hug að mótmæla slíkri fullyrðingu.

The video cannot be shown at the moment. Please try again later.

Þjóðarpúls Capacent Gallups bendir til að Björt framtíð [BF] Guðmundar Steingrímssonar og Besta flokksins, sé á siglingu. Það er stígandi í fylgi hins nýja flokks. Samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi gæti BF orðið stærri en Vinstri grænir í komandi kosningum og fengið allt að níu þingmenn kjörna. Það sem meira er, þá eru líkur á því að Samfylkingin nái betri árangri í komandi kosningum en nokkru sinni áður með útibúi sínu – Bjartri framtíð. Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin 20 þingmenn kjörna en verði úrslit komandi þingkosninga í takt við þjóðarpúlsinn má reikna með að samtals fái Samfylking og BF 22 þingmenn.

Tveir helstu talsmenn BF, – Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall – eiga rætur í Samfylkingunni og því kemur ekki á óvart að Jóhanna Sigurðardóttir líti svo á að lítill mundir sé á Samfylkingunni og BF. Báðir flokkarnir eru hlynntir aðild að Evrópusambandinu og telja rétt að samþykkja nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. En að öðru leyti er hugmyndafræði Bjartrar framtíðar í mörgu óljós. Almennt vilja liðsmenn Bjartrar framtíðar „minna vesen”, „vera í jafnvægi, að „börn og unglingar njóti góðs mataræðis”, og nýja„frumsamda og skýrari stjórnarskrá” enda aðhyllast þeir „róttækt traust”.

Teknókratískir

Þau þingmál sem Guðmundur og Róbert hafa beitt sér fyrir veita kjósendum litla innsýn í hugmyndafræði þeirra félaga. Þó má halda því fram að þeir séu teknókratískir, séu á því að ríkisvaldið eigi að gegna stóru hlutverki í lífi landsmanna. Báðir eru þeir Evrópusinnar og fylgjandi setningu nýrrar stjórnarskrár, eins og áður segir.

Þegar Guðmundur Steingrímsson sagði skilið við Framsóknarflokkinn í ágúst 2011 skrifaði hann grein sem birtist á Eyjunni og sagði meðal annars:

„Grænn, alþjóðlega sinnaður, víðsýnn, frjálslyndur flokkur þarf að verða til á Íslandi.

Slík hreyfing þarf að vinna að öðruvísi stjórnmálum heldur en þeim sem við höfum mátt þola um langt árabil og af vaxandi þunga undanfarið í landsmálunum. Stjórnmál eiga að vera skemmtileg, gefandi og uppbyggileg.“

Þingmál – fyrir hverju hefur verið barist?

Á yfirstandandi þingi (141. löggjafarþingi) hefur Guðmundur Steingrímsson lagt fram þrjár tillögur til þingsályktunar og eitt frumvarp. Frumvarpið er endurflutt frá 140. löggjafarþingi og ein þingsályktunartillagan einnig. Yfirlitið sem birtist hér að neðan nær til þeirra þingmála sem Guðmundur er fyrsti flutningsmaður að – þ.e. hefur haft forgöngu um að leggja fram:

  • Húsaleigubætur (réttur námsmanna) – frumvarp
  • Afsökunarbeiðni og greiðsla skaðabóta til iðkenda Falun Gong – þingsályktunartillaga
  • Jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum (tvöfalt lögheimili) – þingsályktunartillaga
  • Skráning upplýsinga um umgengnisforeldra – þingsályktunartillaga

Þingmál Guðmundar á 140. löggjafarþingi. Eitt frumvarp, tvær fyrirspurnir og ein tillaga til þingsályktunar:

  • Húsaleigubætur (réttur námsmanna) – frumvarp
  • Tryggingastofnun ríkisins og Sjúkratryggingar Íslands til velfrh. – fyrirspurn
  • Opinber innkaup og verndaðir vinnustaði til fjmrh. – fyrirspurn
  • Greiðsla skaðabóta til iðkenda Falun Gong – þingsályktunartillaga

Þingmál Guðmundar á 139. löggjafarþingi. Fimm fyrirspurnir og ein þingsályktunartillaga.

  • Markaðsátakið ,,Inspired by Iceland” til iðnrh. – fyrirspurn
  • Tækni- og raungreinamenntun til menntmrh. – fyrirspurn
  • Póstsamgöngur við afskekktar byggðir til samgrh. – fyrirspurn
  • Seinkun klukkunnar og bjartari morgnar – þingsályktunartillaga
  • Biðlisti eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar til velfrh. – fyrirspurn
  • Staða atvinnulausra sem ekki eiga rétt á bótum til velfrh. – fyrirspurn

Þingmál Guðmundar á 138. löggjafarþingi. Tvær fyrirspurnir og ein þingsályktunartillaga.

  • Aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna til féltrmrh. – fyrirspurn
  • Notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun – þingsályktunartillaga
  • Raforkuöryggi á Vestfjörðum til iðnrh. – fyrirspurn

Þingmál Guðmundar á 137. löggjafarþingi. Ein fyrirspurn.

  • Niðurstaða nefndar um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerðum til dómsmrh. – fyrirspurn

Guðmundur var í Samfylkingunni áður en hann gekk til liðs við Framsóknarflokkinn og náði kjöri sem aðalmaður á þingi árið 2009. Hann var aðstoðarmaður Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og varaformanns Samfylkingarinnar 2007-2008 og tók sæti sem varaþingmaður Samfylkingarinnar. Þá lagði hann fram eina fyrirspurn um stöðu forsjárforeldra sem hafa annað lögheimili en börn þeirra. Það var á 135. löggjafarþingi.

Róbert Marshall hefur lagt fram tvö frumvörp á yfirstandandi þingi en auk þess hefur hann verið flutningsmaður nefndarálita og breytingatillagna fyrir hönd þingnefnda. Líkt og í yfirliti þingmála Guðmundar Steingrímssonar eru aðeins tekin saman þau þingmál sem Róbert er fyrsti flutningsmaður að.

Þingmál Róberts á 141. löggjafarþingi. Tvö frumvörp:

  • 40 stunda vinnuvika (færsla frídaga að helgum) – frumvarp
  • Miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara (heildarlög) – frumvarp

Þingmál Róberts á 140. löggjafarþingi. Eitt frumvarp, ein fyrirspurn og ein breytingartillaga:

  • Náttúruvernd (refsingar fyrir náttúruspjöll) Lög nr. 20/2012 – frumvarp
  • Rafræn skattkort til fjmrh. – fyrirspurn
  • Tekjustofnar sveitarfélaga (hesthús) Lög nr. 56/2012. – breytingartillaga

Þingmál Róberts á 139. löggjafarþingi. Þrjú frumvörp, tvær fyrirspurnir og ein þingsályktunartillaga:

  • Úthlutun byggðakvóta til Reykjanesbæjar til slrh. – fyrirspurn
  • Staða skuldara á Norðurlöndum til féltrmrh. – fyrirspurn
  • Veiting ríkisborgararéttar Lög nr. 149/2010. – frumvarp
  • Lögreglulög (afnám launagreiðslna lögreglunema í grunnnámi) Lög nr. 16/2011. – frumvarp
  • Göngubrú yfir Markarfljót – þingsályktunartillaga
  • Stjórnlagaþing (brottfall laganna) Lög nr. 31/2011 – frumvarp

Þingmál Róberts á 138. löggjafarþingi. Eitt frumvarp, tvær fyrirspurnir, ein breytingartillaga og ein beiðni um skýrslu:

  • Rafræn sjúkraskrá til heilbrrh. – fyrirspurn
  • Teymisvinna sérfræðinga til heilbrrh. – fyrirspurn
  • Stjórnarráð Íslands (siðareglur) Lög nr. 86/2010. – breytingartillaga við frumvarp
  • Stjórnlagaþing (gerð kjörseðils, uppgjör kosningar o.fl.) Lög nr. 120/2010. – frumvarp
  • Staða skuldara á Norðurlöndum til féltrmrh. – beiðni um skýrslu

Þingmál Róberts á 137. löggjafarþingi. Þrjár fyrirspurnir:

  • Undirbúningur að innköllun veiðiheimilda til slrh. – fyrirspurn
  • Viðbrögð við hættu á heimsfaraldri inflúensu A til heilbrrh. – fyrirspurn
  • Björgunarþyrlur til dómsmrh. – fyrirspurn