Eftir Jón Magnússon.

Jafnan er hlustað er á ræðu forsætisráðherra á gamlárskvöld með mikilli athygli. Eðlilega eru gerðar kröfur til þess að ráðherrann fari rétt með staðreyndir.  Þess gætti Jóhanna Sigurðardóttir því miður ekki í áramótaávarpi sínu.

Í ávarpinu sagði forsætisráðherra m.a: „Danski greiningaraðilinn sem sá hrunið fyrir og varaði okkur við,“

Hér vísar forsætisráðherra  til skýrslu  Danske bank frá 21.mars 2006 sem unnin var m.a. af Lars Christiansen.  Sú skýrsla fjallar um efnahagskerfið á Íslandi og meginniðurstaðan  að kerfið sé við að ofhitna, viðskiptahalli sé um 20% af þjóðarframleiðslu og skuldasöfnun einstaklinga og fyrirtækja sé orðin hættulega mikil.

„Danski sérfræðingurinn“  spáir engu um fall íslenskra banka.  Í skýrslunni segir  m.a. að bankar verði að draga úr lánum til íslenskra fyrirtækja og einstaklinga, en bankarnir séu almennt vel settir varðandi gjaldmiðilsbreytingar en gætu þurft að selja erlendar eignir ef þeir lentu í mótvindi.  Ekkert kemur fram í skýrslunni sem vísar til hugsanlegs falls íslensku bankanna. Lars Christiansen hefur mótmælt því opinberlega að hann hafi spáð fyrir um bankahrunið.  En það hefur engin áhrif á forsætisráðherra og suma fjölmiðlamenn.

Í skýrslu Danske bank er sérstaklega varað við, að komi til niðursveiflu í efnahagslífinu gætu einstaklingar lent í miklum vanda vegna verðtryggðra lána.

Það voru fleiri en „danski sérfræðingurinn“ , sem vöruðu við. Seðlabankinn gerði það í ritinu Peningamál í nóvember 2006 og 2007. Árið 2007 talar Seðlabankinn um  þörf  á ströngu aðhaldi þar til jafnvægi næst og varar við auknum útgjöldum hins opinbera.

Jóhanna Sigurðardóttir settist í ríkisstjórn á miðju ári 2007 og stýrði útgjaldafrekasta ráðuneytinu.  Við fjárlagagerð árið 2008 samþykktu þáverandi stjórnarflokkar rúmlega 20% raunhækkun ríkisútgjalda einkum til mála undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.  Það var að þvert á varnaðarorð „danska sérfræðingsins“, viðvaranir Seðlabanka Íslands og hluta stjórnarandstöðunnar þar á meðal þess sem þetta ritar.

Af vitnaskýrslu Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir Landsdómi  má ráða að forsætisráðherra hafi ekki fylgst með efnahags- eða bankamálum á árunum 2007 og 2008.  Skýrslu danska bankans  frá 2006 virðist því vera henni opinberun nú.

Við hrunið krafðist ég þess að sett yrðu sérstök neyðarlög sem tækju verðtrygginguna úr sambandi sbr. það sem fram kemur hjá „danska sérfræðingnum“.  Jóhönnu Sigurðardóttur var falið það mál af þáverandi ríkisstjórn og hún ákvað að gera ekkert.  Forsætisráðherra hafði þá ekki áttað sig á hinni miklu opinberun „danska sérfræðingsins“.

Jón Magnússon hrl. fyrrverandi alþingismaður.