Í kosningunum 2009 unnu Vinstri grænir góðan kosningasigur. Flokkurinn fékk 21,7% atkvæða og 14 þingmenn settust á þing undir merkjum flokksins. Síðan hefur stöðugt verið að molna undan flokknum. Þingmenn og almennir flokksmenn hafa sagt skilið við flokkinn.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, fyrrverandi þingflokksformaður VG, tilkynnti að morgni gamlársdags að hún hefði ákveðið að segja af sér þingmennsku, aðeins tæpum fjórum mánuðum fyrir lok kjörtímabilsins. Í viðtali við fréttastofu ríkisins neitaði Guðfríður Lilja að tjá sig um hvort ástæðan afsagnarinnar væri óánægja með Steingrím J. Sigfússon, flokksformann. Hún sagði að ekki væri tími til að tala um „neitt þess háttar núna“. Enginn fer í grafgötur með hvað Guðfríður Lilja var að segja.

The video cannot be shown at the moment. Please try again later.

Guðfríður Lilja er fjórði þingmaðurinn sem ákveður að yfirgefa þingflokk VG þó ekki hafi hún tilkynnt um úrsögn úr flokknum. Atli Gíslason, Lilja Mósesdóttir og Ásmundur Einar Daðason, kvöddu flokkinn – fullsödd af flokksræði og svikum í ESB-málum. Þannig er saga VG farin að minna á ónefnda sakamálasögu Agöthu Christie.

Það hefur lengi verið ásetningur forystu Vinstri grænna að losna við Guðfríði Lilju sem var í villikattadeild flokksins. Fyrsta skrefið var stigið í apríl 2011. Þá var komið í veg fyrir að hún tæki við þingflokksformennsku að nýju, þegar hún snéri aftur á þing eftir fæðingarorlof. Þannig vinnur hreinsunardeild vinstri flokks sem kennir sig við femínisma.

Hreinsunardeildinni tókst þó ekki ætlunarverk sitt við að koma öllum villiköttunum út úr húsi. Atlagan að Ögmundi Jónassyni mistókst en síðar í þessum mánuði verður gerð atlaga að Jóni Bjarnasyni.

Björn Bjarnason bendir réttilega á að flokkur Steingríms J. Sigfússonar „hefur skroppið saman í öllu tilliti á kjörtímabilinu sem er að líða“. Í pistli á vef Evrópuvaktarinnar dregur Björn upp ófagra mynd af ástandinu í herbúðum VG:

1. Steingrímur J. hefur verið staðinn að mestu loforðasvikum af hálfu flokksformanns.

2. Þrír þingmenn af 14 manna þingflokki hafa sagt skilið við flokkinn en sitja áfram á þingi einn þingmaður að auki hefur sagt af sér þingmennsku.

3. Forval á frambjóðendum flokksins hafa sýnt dæmalaust áhugaleysi þeirra sem eru þó enn skráðir í flokkinn. Í kjördæmi Steingríms J. tóku til dæmis aðeins 261 þátt í forvali og kusu aðeins 199 formanninn í efsta sæti á listann.

4. Við forval í Reykjavík tókst aðeins að virkja fjölskyldur frambjóðenda sem eiga lögheimili í borginni. Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar, norðan af landi kolféll.

5. Steingrímur J. gerði tangarsókn gegn Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra í forvali í SV-kjördæmi, aðförin mistókst og Ögmundur hlaut fyrsta sæti á listanum.

Bjarni Harðarson er einn þeirra sem hefur gefist upp og sagt skilið við Vinstri græna. Á bloggsíðu sinni í september síðastliðnum hélt hann því fram að með „Ögmund innanborðs eru yfirráð Steingríms innan flokksins ekki eins altæk og hann telur nauðsynlegt“.

Bjarni velti því fyrir sér hvort það kunni ekki að vera rétt hjá Ögmundi, Jóni Bjarnasyni og fleirum að segja skilið við Vinstri græna:

„Um hitt má svo deila hversu skynsamlegt það er hjá Ögmundi, Jóni, Guðfríði Lilju og fleirum að hanga eins og hundar á roði í flokki sem er orðinn er lítið meira en annexía frá Samfylkingunni.”

Bjarni er ekki einn um að hafa orðið fyrir vonbrigðum með forystu Vinstri grænna. Í ágúst á liðnu ári skrifaði Þórarinn Magnússon eftirfarandi í athugasemdakerfi Smugunnar, sem er vefrit VG:

„Einu sinni hélt ég að Svandís væri vonarpeningur, einu sinni hélt ég að Árni Þór væri það líka. Einu sinni taldi ég skynsamlegt að Steingrímur J. Sigfússon leiddi VG. Einu sinni hélt ég að Álfheiður, Katrín og Þuríður Bachman væru bæði frjálslyndar og réttsýnar. Margt hefur breyst síðan þá.“

Það er vissulega margt með öðrum hætti hjá Vinstri grænum en fyrir tæpum fjórum árum. Það hefur fækkað í herbúðunum. Samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Capacent Gallup, hafa 58 af hverjum 100 kjósendum VG árið 2009, snúið baki við flokknum.

Að þessu leyti hefur hreinsunardeild Steingríms J. skilað töluverðum árangri.