Við áramótin er Sjálfstæðisflokkurinn efst í huga Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. „Íhaldið” eins og Jóhanna kallar sjálfstæðismenn á stundum, virðast liggja þungt á forsætisráðherra.

Í áramótagrein sem birtist í Morgunblaðinu, vék Jóhanna Sigurðardóttir 16 sinnum að Sjálfstæðisflokknum og sjálfstæðismönnum. Í stað þess að horfa fram á veginn, líkt og leiðtogar reyna gjarnan við áramót, nýtti Jóhanna Sigurðardóttir meirihluta greinar sinnar til þess að ráðast á og gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn sem upphaf og endi alls þess sem miður hefur farið á kjörtímabili ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Þó hefur Jóhanna þrisvar sinnum tekið þátt í að mynda ríkisstjórn undir forsæti sjálfstæðismanna, – fyrst árið 1987, síðan 1991 og loks 2007.

Áramótagreinin ber þess merki að Jóhanna heldur áfram tilraunum til að endurskrifa söguna. Hún sé óflekkuð og syndlaus líkt og nafna hennar af Örk. Í samræmi við þetta skulu sjálfstæðismenn hafa setið einir í ríkisstjórn frá 2007. Í söguskoðun Jóhönnu  er óhætt að halda því fram að á „vakt sjálfstæðismanna” hafi fjármálakerfið hrunið, þó bankamálaráðherrann væri úr Samfylkingunni og formaður Fjármálaeftirlitsins fyrrverandi ráðherra og flokksfélagi Jóhönnu. Söguskoðun Jóhönnu leyfir einnig að tala um halla á ríkissjóði á “síðasta heila ári Sjálfstæðisflokksins við völd” án þess að minnast einu orði á að annar flokkur sat einnig í ríkisstjórn og í skjóli þess var hin óflekkaða og syndlausa við ríkisstjórnarborðið í og ríkisfjármálaráði. Endurritun sögunnar gerir fyrrverandi félagsmálaráðherra (og ábyrgðarmanni jafnréttismála) kleift að hafa uppi stór orð um að þegar „Sjálfstæðisflokkurinn fór frá völdum hafði ójöfnuður og stéttaskipting í samfélaginu aukist til muna enda gekk þeirra pólitíska stefna út á það leynt og ljóst”.

Stjórnmálamaður sem er upptekinn af því að endurrita söguna á erfitt með að líta til framtíðar og marka stefnu til nýrrar sóknar. Allur krafturinn fer í nýjar söguskýringar. Verst er þó að Jóhönnu virðist ekki takst að losna undan „íhaldinu” hversu mikið sem hún hamast við búa til nýja fortíð fyrir stjórnmálamanninn Jóhönnu Sigurðardóttur.