Að minnsta kosti 28 þingmenn munu styðja þingsályktun um að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og hefja þær ekki að nýju nema að slíkt verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo virðist sem 24 þingmenn muni greiða atkvæði gegn tillögunni en óljóst er um afstöðu tíu þingmanna, þar á meðal sex þingmanna Vinstri grænna. Líf ríkisstjórnarinnar virðist hanga á bláþræði vegna tillögunnar og pólitískur trúverðugleiki Steingríms J. Sigfússonar er að veði.

Átta af níu þingmönnum Framsóknarflokksins styðja tillögu um að slíta viðræðum en óljóst er hvað Siv Friðleifsdóttir, sem ákveðið hefur að láta af þingmennsku, gerir. Líklegt verður að teljast að hún muni leggjast gegn tillögunni. Svipuð staða er í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Þar munu allir þingmenn flokksins styðja tillöguna fyrir utan Þorgerðir Katrínu Gunnarsdóttir sem annað hvort situr hjá eða greiðir atkvæði gegn því að slíta viðræðum við ESB. Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir, sem sögðu skilið við Vinstri græna, vilja bæði að viðræðunum verði hætt.

Erfitt er að átta sig á afstöðu þingmanna Hreyfingarinnar. Árið 2010 var Birgitta Jónsdóttir flutningsmaður ásamt sex öðrum þingmönnum, til þingsályktunar um að ákveðið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort halda ætti viðræðum við Evrópusambandið áfram. Hafi hún ekki breytt um skoðun má reikna með að 29 þingmenn styðji nýja þingsályktun um að slit á aðildarviðræðunum.

Þór Saari sagði á Alþingi 26. apríl sl. í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra að það „alvitlausasta“ sem Íslendingar gætu gert væri að hætta aðildarviðræðum við ESB. Í andsvörum kom fram að Þór mundi styðja að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort þjóðin vildi áframhald viðræðna. Margrét Tryggvadóttir og Þór hafa gengið til liðs við Dögun en í svokallaðri kjarnastefnu segir eftirfarandi um Evrópusambandið og aðild Íslands:

„Við leggjum áherslu á opið og lýðræðislegt ferli, óháða upplýsingagjöf og fræðslu og treystum þjóðinni til að ráða niðurstöðunni. Ef aðildarviðræðum verður ekki lokið fyrir samþykkt nýrrar stjórnarskrár og þjóðin ákveður að hætta aðildarviðræðum í samræmi við 66. grein frumvarps Stjórnlagaráðs, munum við styðja þá niðurstöðu. Að öðrum kosti verði aðildarviðræður við Evrópusambandið kláraðar og niðurstaðan borin undir þjóðaratkvæði.”

Nítján þingmenn Samfylkingarinnar eru samstíga í að halda áfram aðildarviðræðum og hið sama má segja um Guðmund Steingrímsson og Róbert Marshall sem hafa skipað sér undir merki Bjartrar framtíðar.

Flakandi sár

Að minnsta kosti þrír þingmenn Vinstri grænna verða andvígir þingsályktunni; Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, Björn Valur Gíslason og Þráinn Bertelsson. Jafnmargir munu styðja viðræðuslit, Jón Bjarnason, Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Þá standa eftir sex þingmenn og þar af þrír ráðherrar; Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir.

Aðildarviðræður við Evrópusambandið hafa verið líkt og flakandi sár í herbúðum Vinstri grænna og það verður erfitt fyrir Steingrím J. Sigfússon formann flokksins að greiða atkvæði gegn því að viðræðum verði slitið. Hið sama má segja um Katrínu og Svandísi. Þingsályktunartillagan hefur komið forystu VG í pólitíska klemmu. Leggist Steingrímur og meirihluti þingflokksins gegn samþykkt þingsályktunartillögunnar getur það haft gríðarleg neikvæð áhrif á fylgi flokksins í komandi kosningum og jafnvel klofið flokkinn endanlega. Fyrir marga áhrifamenn innan VG er atkvæðagreiðslan um viðræðuslit síðasta tækifæri Steingríms til að endurheimta eitthvað af trúverðugleika sínum í andstöðu við Evrópusambandsaðild.

En Steingrímur er á milli steins og sleggju. Samþykki hann viðræðuslit má gera ráð fyrir að samfylkingar líti á það sem yfirlýsingu um að dagar ríkisstjórnarinnar séu taldir. Um leið munu nokkkrir þingmenn, s.s. Kristján Möller, líta svo á að þeir hafi frjálsar hendur varðandi rammaáætlun sem hefur verið hjartansmál margra innan VG.

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis verður þing kallað saman 14. janúar að loknu jólaleyfi. Þá verða meðal annars greidd atkvæði um rammaáætlunina. Reikna má með að þingsályktunartillagan um viðræðuslit, sem meirihluti utanríkismálanefndar styður, komi til kasta þingheims nokkru eftir það, þó innan Samfylkingarinnar geri einhverjir sér vonir um hægt sé að draga málið á langinn innan nefndarinnar undir forystu Árna Þórs Sigurðssonar. Vandséð er hvernig slíkar vonir geta rætst.

Hjáseta tryggir viðræðuslit

En að líkindum verður ekki nauðsynlegt að bíða þess að umræður hefjist í þingsal um tillöguna til að átta sig á stöðu málsins. Flokksráðsfundur VG hefur verið boðaður 11. og 12. janúar og þar kemst formaður flokksins illa hjá því að ræða Evrópusambandsmálin og leggja línurnar fyrir komandi kosningar. Óhugsandi er annað en að Katrín og Svandís verði samstíga Steingrími og sömu sögu er að segja um Álfheiði Ingadóttur, Lilju Rafney Magnúsdóttur (sem sækir að Jóni Bjarnasyni í forvali sem haldið verður í NV-kjördæmi í janúar) og Þuríði Backman.

Í þessu sambandi má benda á að hjáseta þessara sex ráðherra og þingmanna VG við afgreiðslu þingsályktunarinnar tryggir samþykkt hennar ef Birgitta Jónsdóttir styður tillöguna þótt félagar hennar í þingflokki Hreyfingarinnar greiði atkvæði gegn henni ásamt Siv Friðleifsdóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Þá verður tillagan samþykkt með 29 atkvæðum gegn 28 en sex sitja hjá. Hvernig þingmenn og ráðherrar VG ætla síðan að skýra út hjásetuna er allt annað mál. Fyrir Árna Þór Sigurðsson er staðan verður staðan pólitísk nöturleg greiði hann atkvæði gegn tillögunni. Fyrir Þráinn Bertelsson og Björn Val Gíslason skiptir málið litlu. Þráinn sækist ekki eftir endurkjöri og Birni Val var hafnað í forvali VG í Reykjavík fyrir skömmu.