Fjölmörg verkefni og sum erfið bíða þeirra 1.600 sjálfstæðismanna sem koma saman á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem hefst 21. febrúar næstkomandi. Hvernig fundarmönnum tekst til við lausn þessara verkefna mun ráða miklu um árangur Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum til Alþingis. Það er mikið í húfi, ekki aðeins fyrir flokksmenn heldur miklu fremur fyrir þjóðina alla.

Komandi kosningar snúast um framtíð þjóðarinnar. Hvort haldið verður áfram á braut vinstrimennsku, með sífellt flóknara regluverki og eftirliti hins opinbera, hækkandi sköttum og skuldasöfnun. Kosningarnar snúast um það hvort Íslendingar ætla að nýta náttúruauðlindir af skynsemi og með arðbærum hætti. Hvort velferðarkerfið verði varið og menntakerfið byggt upp í sókn til framtíðar. Kosningarnar ráða úrslitum um það hvort fjárfesting atvinnulífsins fer aftur af stað, ný störf verði til og kaupmáttur aukist að nýju. Í kosningunum ræðst hvort millistéttin nær aftur fótfestu, hvort horfið verði frá óréttlátu skattkerfi og hvort lítil og meðalstór fyrirtæki fái súrefni til að blómstra.

Skýrir valkostir

Viðfangsefni landsfundarfulltrúa verður að marka hnitmiðaða stefnu í öllum helstu málum. Í allri vinnu sinni eiga þeir að leggja línurnar þannig að kosningarnar snúist fyrst og síðast um hugmyndir og stefnu Sjálfstæðisflokksins. Kostirnir sem kjósendur standa frammi fyrir í kjörklefanum eiga að vera skýrir: Annars vegar fjögur ár í viðbót með óbreyttri stjórnarstefnu Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur og hins vegar ný ríkisstjórn atvinnu og uppbyggingar undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Á landsfundi á að varða veginn í átt að nýju skipulagi hins opinbera stjórnkerfis. Fámenn þjóð hefur ekki lengur efni á því að reka það flókna og dýra stjórnkerfi sem hefur fengið að vaxa að því er virðist stjórnlaust. Sjálfstæðismenn verða að vera óhræddir við að segja hlutina eins og þeir eru: Ríkissjóður hefur ekki efni á því að standa undir öllum þeim útgjöldum sem góðviljaðir stjórnmálamenn vilja. Meginhlutverk ríkisins er að tryggja velferðarkerfið, góða menntun og öfluga löggæslu.

Tillögur um að greiða úr erfiðum skuldamálum heimila og fyrirtækja falla um sig sjálfar ef ekki tekst að auka hagvöxt verulega á komandi árum, fjölga störfum og auka kaupmátt. Arðbærar fjárfestingar í atvinnulífinu eru forsenda hagvaxtar. Stöðugleiki, einfalt og sanngjarnt skattkerfi, samhliða jákvæðu viðhorfi stjórnvalda til atvinnulífsins, er besta leiðin til að tryggja aukna fjárfestingu, jafnt innlendra sem erlendra aðila. Allar hugmyndir um að draga verulega úr eða jafnvel afnema verðtryggingu á skuldbindingum einstaklinga skipta engu ef ekki tekst að samþætta trúverðuga peningamálastefnu og aðhaldssemi í ríkisfjármálum. Hið sama á við um velferðarkerfið. Það verður ekki varið nema tekið sé til í ríkisfjármálum, komið í veg fyrir skuldasöfnun og að atvinnulífið fái að dafna.

Tala af sannfæringu

En það er ekki nægjanlegt að marka stefnuna á landsfundi. Forysta Sjálfstæðisflokksins verður að koma fram af festu, tala skýrt og af sannfæringu – sýna djörfung í málflutningi. Hið sama á við um frambjóðendur flokksins um allt land. Aðeins þannig munu kjósendur skynja að sjálfstæðismenn séu málafylgjumenn, sem segja það sem þeir meina og gera það sem þeir segja.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins eiga því að vera ófeimnir við að tala máli atvinnulífsins. Þeir eiga að berjast fyrir hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem veita tugum þúsunda atvinnu. Þeir sem vilja skipa þinglið Sjálfstæðisflokksins verða að setja mál sitt þannig fram að öllum sé ljóst að öflugasta byggðastefnan er fólgin í arðsömum sjávarútvegi og skilvirkum og frjálsum landbúnaði. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins eiga að vera baráttumenn fyrir jafnræði landsmanna á öllum sviðum. Það gera þeir best með því að standa vörð um eignarréttinn, afnema mismun í lífeyrisréttindum og einfalda allt skattkerfið.

Allar forsendur

Sjálfstæðismenn hafa allar forsendur til að vinna góðan sigur í kosningum á komandi vori og tryggja þar með að næstu fjögur ár verði ekki déjá vusíðustu fjögurra ára.

Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur býr yfir meiri innri krafti en Sjálfstæðisflokkurinn og sést það best í prófkjörum.

Í þeim tveimur prófkjörum sem eru að baki lögðu 12.616 flokksmenn leið sína á kjörstað. Þetta er yfir níu sinnum fleiri en tóku þátt í forvali Vinstri-grænna í þremur kjördæmum. Steingrímur J. Sigfússon hlaut „rússneska“ kosningu í sínu kjördæmi (eftir að búið var að draga frá 16% atkvæða sem töldust ógild). Þó var hann með fjórtán sinnum færri atkvæði á bak við sig en frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem hafnaði í 10. sæti.

Til framtíðar á Sjálfstæðisflokkurinn að virkja enn betur þann kraft sem býr í sjálfstæðismönnum um allt land. Það gerir hann best með því að gefa þeim öllum kost á því að kjósa beint formann flokksins. Að loknu öflugu málefnastarfi ættu landsfundarfulltrúar því að beita sér fyrir að reglum um formannskjör verði breytt.