Að óreyndu hefði mátt ætla að fjölmiðlar tækju við sér og fjölluðu ítarlega um gagnrýni fyrrverandi dómara við Hæstarétt á málsmeðferð réttarins í sakamáli. En flestir þegja. Þó eru aðfinnslurnar grafalvarlegar.

Dómarinn fyrrverandi færir rök fyrir því að einstaklingur hafi verið „sakfelldur fyrir annað en það sem hann er ákærður fyrir“ og að dómur Hæstaréttar hafi falið í sér „alvarlegt brot á réttindum ákærða“. Jafnframt heldur hann því fram með rökstuðningi að rétturinn hafi ekki skilið sakarefnið um innherjasvik samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Dómurinn getur því haft veruleg áhrif á það hvernig verðbréfaviðskipti þróast hér á landi.

Hér skal efast um að hægt sé að setja fram þyngri og alvarlegri gagnrýni á störf Hæstaréttar. En flestum fjölmiðlum er sama. Að gengið sé gegn grunnreglum réttarríkisins skiptir litlu í huga þeirra sem stýra íslenskum fjölmiðlum.

Hornsteinn réttarríkisins

Dómsvaldið á að tryggja rétt einstaklingsins og frelsi hans til orðs og æðis. Sanngjörn málsmeðferð er hornsteinn réttarríkisins. Brotalamir dómskerfisins og mistök við dómaframkvæmd geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir allt samfélagið.

Vegna þessa er mikilvægt að dómstólum sé veitt aðhald með málefnalegri og opinberri umræðu. Því miður hefur slík umræða verið takmörkuð hér á landi, svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Þar bera fræðimenn í lögum og starfandi lögmenn mikla ábyrgð, en ekki síður fjölmiðlar.

Fræðimenn og lögmenn hafa „afsökun“ sem hægt er að hafa nokkurn skilning á. Þeir vita sem er að sitjandi hæstaréttardómarar leggja mat á hæfi umsækjenda um starf við réttinn. Sá er lætur sig dreyma um að setjast í Hæstarétt er því ekki líklegur til að leiða opinbera gagnrýni á réttinn og störf hans. Einnig hafa starfandi málflutningsmenn áhyggjur af því að hörð gagnrýni þeirra á úrskurði dómstóla geti komið niður á umbjóðendum þeirra í framtíðinni. Afleiðingin er sú að dómstóla skortir nauðsynlegt aðhald.

Óþægilegar skýringar

Þögn fjölmiðla um dómsýsluna er hins vegar óskiljanleg þegar haft er í huga hversu fjölmiðlungar leggja mikla áherslu á (a.m.k. í orði) að veita löggjafar- og framkvæmdavaldinu aðhald með opinskárri og á stundum óvæginni umfjöllun. Svo virðist sem gagnrýnin umfjöllun fjölmiðla á dómaframkvæmd einskorðist fyrst og fremst við mál sem snerta fjölmiðlana sjálfa beint, s.s. meiðyrðamál.

Í nýjasta tölublaði Tímarits lögfræðinga birtist grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, sem lét af störfum hæstaréttardómara á liðnu hausti. Tilefni greinarinnar, sem hefur vakið mikla athygli meðal lögfræðinga, er dómur sem féll í Hæstarétti yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, í febrúar á þessu ári. Sá grunur læðist að mér að þögn flestra fjölmiðla um harða gagnrýni Jóns Steinars á málsmeðferð Hæstaréttar, eigi sér fremur óþægilegar skýringar.

Hér er ekki efni til að taka afstöðu til sektar eða sakleysis. En fáir einstaklingar, sem hafa sætt ákæru hins opinbera, hafa setið undir harðari umfjöllun og á stundum óvægnum persónulegum árásum en Baldur, jafnt í hefðbundnum fjölmiðlum sem í skúmaskotum netsins. Fjölmiðlamenn, álitsgjafar og þóttafullir stjórnmálamenn felldu dóma yfir Baldri löngu áður en dómstólar fengu málið til efnislegrar úrlausnar. Jón Steinar bendir á í grein sinni að kröfurnar um að Baldri yrði refsað voru háværar:

„Þær byggðu hins vegar hvorki á þekkingu á sakarefninu né greiningu á því.“

Þeir sem gengu harðast fram munu aldrei eiga frumkvæði að því að ræða opinberlega um rökstudda gagnrýni á dómsýsluna í máli ákæruvaldsins gegn Baldri. Þeir tóku þátt í að búa til andrúmsloft sektar, óháð lögum og reglum. Fjölmiðlungar og álitsgjafar, hvort heldur þeir sem starfa hjá hinu opinbera eða hjá einkaaðilum, hafa beina hagsmuni af því að engin efnisleg umræða verði um það hvort hugsanlegt sé að dómskerfið hafi farið offari gagnvart fyrrverandi ráðuneytisstjóra, – hvort lög og réttindi hafi verið á honum brotin. Þögnin þjónar þeirra hagsmunum.

Dylgjur og skætingur

Rétt er að taka fram að vefmiðillinn Eyjan fjallaði nokkuð ítarlega um gagnrýni Jóns Steinars sem og Morgunblaðið. Fréttastofa ríkisins, sem gekk hart fram í máli Baldurs, þegir þunnu hljóði líkt og flestir aðrir miðlar. Álitsgjafar, sem kvarta á stundum undan því að farið sé í manninn en ekki boltann, gera sig seka um að hirða í engu um boltann en tækla gagnrýnandann með dylgjum og skætingi. Persónuleg andúð á tveimur þekktum einstaklingum og sameiginlegum vini þeirra blindar mörgum sýn.

Þannig er staðan á Íslandi liðlega fjórum árum eftir hrun fjármálakerfisins. Fræðimenn og lögmenn forðast efnislega gagnrýni á dómskerfið og fjölmiðlar þegja vegna eiginhagsmunagæslu. En um eitt getur almenningur verið viss: Fjölmiðlar munu segja skilmerkilega fréttir af hundum sem læra að keyra bíl, af heitustu pörum ársins, að ógleymdri fréttinni (sem aldrei breytist) um meint málþóf á þingi.