Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er loks að átta sig á því að hún nær ekki að bylta stjórnarskrá landsins. Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og helsti baráttumaður Jóhönnu fyrir stjórnarskrárbyltingunni, er einnig að átta sig á að það offors sem lagt var af stað með, gengur ekki upp. Miklar efasemdir eru meðal margra stjórnarliða með alla málsmeðferðina og fræðimenn hafa sett fram harða efnislega gagnrýni samhliða því að gera alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið er að verki. Jóhanna og Valgerður hafa haldið þannig á málum að þær hafa ekki lengur þingmeirihluta til að koma breytingum á stjórnarskrá í gegnum þingið.

Það er því komið nýtt hljóð í Jóhönnu – eins konar skilyrtur sáttatónn. Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins 8. desember sagði Jóhanna:

„Ég held að það sé fyrst og fremst spurnig um vilja í þessu efni og menn reyna að setjast yfir það að ná samstöðu í þessu máli. Ég legg upp úr því að menn geti náð samstöðu í þessu máli ef það er mögulegt en það má ekki vera á kostnað stórra mála eða atriða í stjórnarskránni sem brýnt er að ná fram. Við ætlum ekki að hafa stjórnarskrána þannig að það verði bara náð utan um lægsta samnefnarann í því stóra máli sem skiptir þjóðina miklu og þjóðin hefur komið mjög að þessu máli.“

Nú boðar Jóhanna samstöðu um stór mál og atriði sem „brýnt ert að ná fram“. Erfitt er að átta sig á því hvaða mál eða atriði forsætisráðherra er að tala um. Það liggur fyrir vilji stjórnarandstöðunnar að standa að breytingum á stjórnarskrá er varðar auðlindaákvæði, þjóðaratkvæðagreiðslur og stöðu forseta lýðveldisins. Jóhanna hefur hins vegar forðast eins og heitan eldinn að taka efnislega umræðu um breytingar á stjórnarskrá. Það eina sem eftir stendur er að hún vill ekki samstöðu „lægsta samnefnarann“ en enginn veit hver hann er í huga forsætisráðherra.

Það kemur því ekki á óvart að Valgerður Bjarnadóttir, sem ætlaði að keyra stjórnarskrármálið í gegnum þingnefndir á mettíma, sé farin að róast.

Ekkert nema málþóf getur komið í veg fyrir að málið verði afgreitt fyrir þinglok í vor hafði fréttastofa Ríkisútvarpsins eftir Valgerði Bjarnadóttur 20. október síðastliðinn. Rúmum mánuði síðar (29. nóvember)  ákvað stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, undir forsæti Valgerðar, að frestur aðila utan þings til að skila inn athugasemdum og umsögnum um frumvarp nefndarinnar um breytingar á stjórnarskránni, skyldi renna út 13. desember. Þessum stutta fresti var harðlega mótmælt af stjórnarandstæðingum en einnig fræðimönnum. Í umræðum á þingi taldi Valgerður það koma til greina að lengja frestinn eitthvað en ekki mikið:

„En við skulum líka átta okkur á því að þetta er verk sem við ætlum að klára hér fyrir kosningar og það hefst ekki ef við fáum ekki umsagnir fyrr en í lok janúar.“

Eins og vera ber fengu allar nefndir Alþingis frumvarpið til umsagnar og var þeim gert að skila áliti 10. desember. Engin nefnd taldi sig geta unnið verkið á þeim hraða. Ríkisútvarpið hafði það eftir Valgerði að formenn allra nefnda hafi fengið sent bréf frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd:

„Þar sem að við sögðum að nefndaformenn hlytu náttúrlega að forgangsraða eins og þeir teldu heppilegast og ef þeir geta ekki skilað fyrir þennan tíma þá gerum við ráð fyrir því að þeir geri það eins fljótt og þeim er unnt.“

Fréttastofa Ríkisútvarpsins fullyrti í frétt í gær (sunnudag) að eftir samtöl við formenn og varaformenn nefnda megi „ráða að flestir þeirra teldu sig geta skilað inn umsögn fyrir jól“ en þó ekki allir.

Það er að koma æ betur í ljós að fullyrðing Valgerðar Bjarnadóttur um að ekkert nema málþóf geti komið í veg fyrir afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár fyrir kosningar, á ekki við rök að styðjast. Nema að formenn nefnda Alþingis séu með einskonar málþóf með því að afgreiða ekki umsagnir á tilsettum tíma. Þá vaknar sú spurning hverjir af eftirtöldum formönnum nefnda séu að gerast sekir um að „draga lappirnar“:

  • Allsherjar- og menntamálanefnd: Björgvin G. Sigurðsson
  • Atvinnuveganefnd: Kristján L. Möller
  • Efnahags- og viðskiptanefnd: Helgi Hjörvar
  • Fjárlaganefnd: Björn Valur Gíslason
  • Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd: Valgerður Bjarnadóttir
  • Umhverfis- og samgöngunefnd: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
  • Utanríkismálanefnd: Árni Þór Sigurðsson
  • Velferðarnefnd: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Líklegra er þó að stöðugt fleiri þingmenn og þá ekki síst þingmenn Samfylkingarinnar, eru að átta sig á því að ekki er forsvaranlegt af þingmönnum að afgreiða nýja stjórnarskrá með þeim hætti sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur ætlast til. Innan við þrír mánuðir eru þangað til Jóhanna lætur af embætti formanns Samfylkingarinnar og óróleikinn í þingliði flokksins verður stöðugt meiri. „Sáttatónn” Jóhönnu er merki um að hún hefur ekki lengur þingmeirihluta fyrir stjórnarskrárbyltingunni sem átti að verða pólitískur minnisvarði hennar.