Stjórnmálamaður sem heldur því fram að nú sé komið að uppskeru – hægt sé að gleðja marga með auknum útgjöldum ríkissjóðs – er annað hvort að villa um fyrir kjósendum í von um að fá atkvæði þeirra, eða hann lifir í sjálfsblekkingu. Hægt er að deila um hvort sé verra en afleiðingin er líklega sú sama. Víxlar eru slegnir á kostnað komandi kynslóða og vandanum er ýtt á undan sér eða sópað undir teppið.

Árangur ríkisstjórnarinnar við stjórn efnahagsmála hefur því miður ekki verið sá sem vonast var eftir og langt frá því sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn taldi raunhæft. Vegna þessa er íslenska hagkerfið a.m.k. 100 milljörðum króna minna en það ætti að vera. Afleiðingarnar eru augljósar. Lífskjör almennings eru verri, tekjur ríkissjóðs lægri, atvinnuleysi meira og skuldir hærri.

Ríkissjóður hefði haft um 30 milljörðum hærri tekjur á þessu ári ef hagvöxtur hefði verið viðunandi og þær tekjur hefði verið hægt að nýta til að greiða niður skuldir eða draga úr skuldasöfnun. Það sem meira er, það hefði verið hægt að lækka skuldir ríkisins um 30 milljarða á hverju einasta ári hér eftir.

Uppskeruhátíð

Árin frá hruni fjármálakerfisins hafa því verið ár glataðra tækifæra. Ríkissjóður er enn rekinn með halla og skuldir aukast að sama skapi. En það kemur ekki í veg fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir boði til sérstakrar uppskeruhátíðar.

Nú verða barnabætur hækkaðar, fæðingarorlof lengt og hækkað. Byggja á fangelsi fyrir milljarða, reisa hús íslenskra fræða, setja hundruð milljóna í grænkun fyrirtækja (hvað svo sem það þýðir), og leggja hundruð milljóna í náttúruminjasafn og þekkingarsetur. Millifærslur verða auknar. Framlag til Tækjasjóðs skal stóraukið, styrkir til nýsköpunarfyrirtækja tvöfaldaðir og framlög til ýmissa ferðamála einnig. Þannig heldur listinn áfram sem á að fagna á uppskeruhátíðinni sem haldin verður nokkrum mánuðum fyrir kosningar.

Vandanum ýtt á undan

Til að hægt sé að halda uppskeruhátíð er öllum vanda annað hvort ýtt á undan sér eða honum hreinlega sópað undir teppi. Ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við að Íbúðalánasjóður er tæknilega gjaldþrota og sameiginlegur sjóður landsmanna er í ábyrgð. Ef allt fer á versta veg geta allt að 200 milljarðar fallið á skattgreiðendur.

Slíkir smáaurar koma ekki í veg fyrir gleðina. Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra og ráðherra húsnæðismála, ætlar að skipa „sérstakan starfshóp“ til að fara yfir framtíðarhorfur og hlutverk sjóðsins svo rekstur hans standi undir sér. Ríkisábyrgð veldur ráðherranum engu hugarangri en í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins sagði hann:

„Sjóðurinn er með ríkisábyrgð og við stöndum þétt á bak við hann. Þannig að hann er ekki í neinni áhættu og mun lifa áfram. Það er markmiðið með öllum þeim aðgerðum sem hér eru settar fram.“

Ráðherrann hefur hvorki áhyggjur af Íbúðalánasjóði né skattgreiðendum sem þurfa að „standa þétt á bak við“ sjóðinn. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja 13 milljarða í Íbúðalánasjóðs til viðbótar þeim 33 milljörðum sem sjóðurinn fékk á síðasta ári, en það dugar ekki. Vandinn er miklu stærri. Aðeins er lengt í hengingarólinni. En ráðherra húsnæðismála er ekki kvíðafullur. Sjóðurinn er ekki í hættu vegna ríkisábyrgðar!

Auknar álögur

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem Alþingi hefur til afgreiðslu tekur því miður lítið mið af raunveruleikanum, ekki frekar en aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna vanda Íbúðalánasjóðs. Þrengt er að fyrirtækjum og einstaklingum með auknum álögum – hækkun skatta og gjalda. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, heldur því fram að boðskapur ríkisstjórnarinnar sé „sá að nú sé hægt að byrja veisluna með útgjöldum til margvíslegra hluta á kostnað atvinnulífsins“. Hann hefur réttilega bent á að eina leiðin sem fyrirtækin hafi til að mæta nýjum sköttum sé að segja upp fólki eða hækka verð. Þar með fer gamalkunnur vítahringur af stað.

Fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár var lagt fram 11. september síðastliðinn og þar var gert ráð fyrir að halli á ríkissjóði yrði „aðeins“ 2,8 milljarðar króna. Þá þegar var hins vegar ljóst að ekki var gert ráð fyrir tugmilljarða útgjöldum og efasemdir voru uppi um tekjuhlið. Þessar efasemdir hafa verið staðfestar með tillögum stjórnarflokkanna um aukin útgjöld og hækkun skatta frá því sem reiknað var með í fjárlagafrumvarpinu.

Vitleysan kórónuð

Reynslan af fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar er ekki með þeim hætti að almenningur eða atvinnulífið geti borið mikið traust til frumvarps til fjárlaga. Á árunum 2010 og 2011 vanmat ríkisstjórnin hallarekstur ríkissjóðs um 76,5 milljarða króna miðað við fjárlög og um nær 66 milljarða sé tekið mið af fjáraukalögum.

Það er því miður ekkert tilefni til að fagna, þvert á móti eru merki um að það sé að hægja enn frekar á atvinnulífinu. En velferðarráðherra er áhyggjulaus líkt og sumir þingmenn.

Til að kóróna vitleysuna dettur þingmönnum í hug að tvöfalda framlag ríkisins til heiðurslauna listamanna og láta kanna hvort ekki sé rétt að niðurgreiða þjónustu hómópata.