Íslendingar raða sér ótvírætt í hóp þeirra þjóða sem hafa skilvirkast efnahagslíf og það eitt og sér bendir sterklega til þess að þær stofnanir sem við höfum komið okkur upp flækist ekki um of fyrir efnahagslífinu. Trúverðugleiki er yfirleitt ekki mældur einn og sér en ýmis tengd fyrirbrigði er reynt að mæla. Þannig er t.d. áhugavert að sjá stöðu Íslands hvað spillingu varðar. Ísland var árið 2004 í 3.–4. sæti á lista stofnunarinnar Transparency International þar sem ríkjum er raðað eftir því hvort spilling sé talin þrífast innan þeirra eða ekki. Árið áður taldi stofnunin Ísland vera næstóspilltasta ríki á eftir Finnlandi en árið 2004 var Nýja-Sjáland í 2. sæti og Danmörk jöfn Íslandi.

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði, í erindi á morgunverðarfundi Samtaka atvinnulífsins um
„Traust í viðskiptalífinu – Getur gott siðferði borgað sig?“ sem haldinn var 11. janúar 2005.