Jón Ásgeir sendi mér tölvupóst strax eftir þáttinn og tilkynnti að Baugur myndi ekki auglýsa í fjölmiðlum Norðurljósa framar. Svo þakkaði hann fyrir að til væri Ríkisútvarp.

Ég sendi Jóni Ásgeiri póst til baka og benti honum á að fyrirtæki hans væru bundin af samningum sem þegar hefðu verið gerðir en honum væri frjálst að velja þá miðla sem auglýst væri í af hálfu Baugsfyrirtækja. Baugur varð síðar stór hluthafi í Norðurljósum og Skarphéðinn Berg Steinars­son stjórnarformaður félagsins. Þegar þar var komið hafði Jón Ásgeir sérstakan áhuga á að koma Jóhönnu Vilhjálms­dóttur úr starfi með þeim orðum að það væri ekki ánægja með hana í Tún­götunni og átti þar sennilega við á skrifstofum Baugs.

 Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og áður forstjóri Norðurljósa, í viðtali við Mannlíf í ágúst 2005. Þar segir hann meðal annars frá því að Jóhannes Jónsson hafi haustið 2002 verið í viðtali í Íslandi í bítið á Stöð 2. Stjórn­endurnir þáttarins, Þórhallur Gunnarsson og Jóhanna Vilhjálmsdóttir, lögðu þar fram gögn sem áttu að sýna óeðlilega hækkun á vörum á leiðinni frá Bandaríkjunum í verslanir Baugs. Þau deildu hart á Jóhannes vegna þessa.