Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar, veitist harkalega að Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í pistli á heimasíðu sinni, án þess þó að nefna hana á nafn. Björn Valur segir að enn eigi eftir að gera upp nokkur mál vegna hrunsins og þar beri helst að nefna Íbúðalánasjóð „sem varð fyrir áföllum upp á tugi milljarða vegna Hrunsins, mest megnis vegna kolrangra ákvarðana fyrri stjórnvalda fyrri tíma”. Jóhanna Sigurðardóttir var yfirmaður Íbúðalánasjóðs frá 2007 sem félagsmálaráðherra og breytti og rýmkaði útlánareglur sjóðsins í aðdraganda hrunsins. Breyttar reglur gengu þvert á loforð sem ríkisstjórn hafði gefið ríkisstjórnum annarra Norðurlanda í tengslum við gjaldmiðlaskiptasamning.

Í pistli á bloggsíðu sinni segir Björn Valur að fjárlagafrumvarp næsta árs með breytingum meirihluta fjárlaganefndar sé „til vitnis um að nú sé viðsnúningurinn orðin að veruleika”. Nú sé verið að snúa af braut niðurskurðar og samdráttar. Hann tekur fram að enn eigi eftir að gera upp nokkur mál af stærri gerðinni:

„Ber þar helst að nefna Íbúðalánasjóð sem varð fyrir áföllum upp á tugi milljarða vegna Hrunsins, mest megnis vegna kolrangra ákvarðana fyrri stjórnvalda fyrri tíma. Það lendir á okkur öllum að borga fyrir það eins og annað, því miður. Fleiri slík mál má telja til, öll af sama toga óstjórnar og mistaka.”

Jóhanna bar ábyrgðina

Sem félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar bar Jóhanna Sigurðardóttir ábyrgð á Íbúðalánasjóði, eins og áður segir.

Í maí 2008 tókst Seðlabankanum að ná samkomulagi við seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur um gjaldmiðlaskiptasamninga, sem var gríðarlega mikilvægt enda gjaldeyrisforði bankans við hættumörk. En samningarnar voru háðir skilyrðum. Norrænu seðlabankarnir settu það sem skilyrði að ríkisstjórnin skrifaði undir yfirlýsingu, þar sem annars vegar var því heitið að stefnan í ríkisfjármálum yrði ábyrg og gerðar yrðu breytingar á Íbúðalánasjóði. Í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sagði Geir H. Haarde að erlendir sérfræðingar hefðu sett „fingurinn á útlán hjá Íbúðalánasjóði“. Ríkisstjórnin skuldbatt sig því til þess að „gera eitthvað í því sem skipti máli“.

Ríkisstjórnin gaf út sérstaka yfirlýsingu sem „fól í sér áform um tilteknar aðgerðir á sviði efnahagsmála, í starfsemi Íbúðalánasjóðs og gagnvart bönkunum“, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði síðar. Geir H. Haarde, Árni M. Mathiesen og Ingibjörg Sólrún undirrituðu yfirlýsinguna ásamt bankastjórum Seðlabankans.
Ingibjörg Sólrún sendi þingmönnum sérstaka greinargerð vegna þingsályktunar um að ákæra hana ásamt þremur öðrum ráðherrum. Þar sagði hún um áðurnefnda yfirlýsingu:

„Það sem að ríkisstjórninni sneri var fyrst og fremst ábyrg stefna í ríkisfjármálum og breytingar á Íbúðalánasjóði. Ég skrifaði undir yfirlýsinguna sem oddviti Samfylkingarinnar vegna þess að Jóhanna Sigurðardóttir, sem kölluð hafði verið til fundar vegna þessarar yfirlýsingar hinn 15. maí 2008, var farin af fundi þegar skilaboð komu frá norrænu seðlabankastjórunum um að það þyrfti að ganga frá yfirlýsingunni þegar í stað.

Ég skrifaði undir þar sem málefni Íbúðalánasjóðs heyrðu undir félagsmálaráðherra Samfylkingarinnar og ég hafði gengið úr skugga um að ráðherrann var samþykk því sem í yfirlýsingunni fólst.“

Gengið gegn loforðum

Ekkert varð úr því að gera breytingar á Íbúðalánasjóði þvert á móti var blásið til sóknar. Fasteignamarkaðurinn var á þessum tíma í mikilli lægð enda bankarnir nær hættir að veita íbúðalán.

Í júní 2008 setti Jóhanna Sigurðardóttir þrjár reglugerðir sem félagsmálaráðherra. Hámark húsnæðislána Íbúðalánasjóðs var hækkað úr 18 milljónum í 20 milljónir. Þá var brunabótamat afnumið sem viðmið fyrir lánveitingum Íbúðalánasjóðs en þess í stað miðað við allt að 80% af kaupverði eigna.

Viðskiptablaðið greindi frá því í maí 2010 að þessar breytingar hefðu haft veruleg áhrif:

„Samkvæmt tölum sem Viðskiptablaðið óskaði eftir frá ÍLS [Íbúðalána-sjóður] höfðu breytingarnar mikil áhrif. Samtals voru 2.843 lán veitt frá júní og fram í október 2008, þegar bankarnir hrundu og markaðurinn nánast botnfraus og verðfall varð mikið. Þrjá mánuði þar á undan voru aftur á móti veitt 1.600 lán. Útlánum sjóðsins fjölgaði því umtalsvert skömmu fyrir hrun bankanna, eftir að heimildir Íbúðalánasjóðs voru útvíkkaðar.“

Ætla má að margir þeirra sem nýttu sér auknar lánveitingar Íbúðalánasjóðs eftir reglugerðarbreytingu Jóhönnu, glími nú við verulega vandamál, en sjóðurinn lánaði 90% af kaupverði íbúðar. Að sama skapi er ljóst að stór hluti vanda Íbúðalánasjóðs, sem Björn Valur vísar til, á rætur að rekja til stjórnvaldsákvarðana Jóhönnu Sigurðardóttur sem félagarmálaráðherra.