Við vissum alltaf að Davíð væri geðveikur leiðtogi en nú hvarflaði allt í einu að okkur að taka þau orð bókstaflega. Var karlinn á leið yfir um? Hann hafði jú lengi stefnt þangað. Misserin á undan hafði hann skammað Hæstarétt eins og skólabekk, kallað stjórnarandstöðuna “dóna” í beinni, fengið biskupinn til að íhuga málsókn gegn sér, og þegið í staðinn mótmæli frá öllum prestum landsins, sönnunarlaust sakað stærsta forstjóra landsins um að ætla að múta sér, hellt sér yfir nokkra óleiðitama fréttamenn í votta viðurvist og hringt í umboðsmann Alþingis til að hóta honum öllu illu. Nánast á hverju einasta kvöldi stóð þjóðin skelkuð og langþreytt upp frá sjónvarpsfréttum, með nýjustu fúkyrði forsætisráðherra glymjandi í eyrunum. Og nú hafði hann ráðist á sjálfan forseta Íslands. Manninum var greinilega ekkert heilagt. Hann hafði í raun lokið við að lítilsvirða ALLA æðstu embættismenn þjóðarinnar. Kannski vildi hann klára það áður en hann gengi út úr Stjórnarráðinu.

Hallgrímur Helgason rithöfundur rifjar upp fjölmiðlaárið 2004 í grein í Fréttablaðinu 31. desember 2004