Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði 2,5% á yfirstandandi ári en í ágúst reiknaði bankinn með að vöxturinn yrði 3,1%. Þessi vöxtur er langt undir því sem getur talist eðlilegur þegar efnahagskerfi er að vinna sig út úr áfalli og langt undir því sem nauðsynlegt er til framtíðar svo unnt sé að byggja upp lífskjör.

Samtök atvinnulífsins töldu árið 2010 að lágmarkshagvöxtur yrði að vera 3,5% að meðaltali á árunum 2011 til 2015 en æskilegast væri að hann yrði 5%.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar jókst landsframleiðslan um 2,6% á síðasta ári. Það er því ljóst að mikið vantar upp á að vöxtur efnahagslífsins sá sem hann þarf að vera. Það vantar verulega upp á.

Styrkleiki hagvaxtar skiptir öllu þegar kemur að því að bæta lífskjör landsmanna, eins og sést á meðfylgjandi mynd (sem er fengin að láni úr fyrirlestri sem dr. Daniel Mitchell hélt fyrir skömmu á vegum Samtaka skattgreiðenda og Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt).

Takist Íslendingum ekki að tryggja meiri hagvöxt á komandi árum en þann 2,5% vöxt sem áætlaður er á þessu ári, mun það taka liðlega 28 ár að tvöfalda landsframleiðsluna og bæta lífskjör landsmanna að sama skapi. Ef efnahagslífið vex um 5% á ári mun það hins vegar aðeins taka tæp 15 ár að tvöfalda verðmæti landsframleiðslunnar og liðlega tíu ár ef hagvöxtur verður 7% að meðaltali.

Verkefni atvinnulífsins og stjórnmálamanna ætti því að snúast öðru fremur um hvernig hægt sé að tryggja góðan hagvöxt.