Engu er líkara en að það sé vinnuregla hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir að sé þess nokkur kostur þá skuli efna til ágreinings og skiptir litlu hvort í hlut eiga stjórnarnandstaða, einstakar atvinnugreinar, launþegasamtök eða önnur hagsmunasamtök. Ágreiningur og deilur eru súrefni ríkisstjórnarinnar.

Hugmyndin að baki liðlega áratuga vinnu sérfræðinga við rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, var að ná pólitískri samstöðu „þannig að unnt yrði að sjá fyrir þróun í orkunýtingu og vernd landsvæða til lengri tíma og gera áætlanir í samræmi við það”. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir í Morgunblaðsgrein að bundnar hafi verið vonir um að bærilega samstaða næðist:

„Eftir að ráðherrarnir tveir, [Svandís Svavarsdóttir og Oddný Harðardóttir] ríkisstjórnin í heild og þingflokkar VG og Samfylkingar höfðu farið höndum um málið og gert á því ýmsar breytingar, dvínuðu þær vonir mjög. Verði niðurstaða þingsins sú að samþykkja tillögu ráðherranna án nokkurra breytinga, er hætt við að eðli málsins breytist; að í stað langtímaáætlunar, sem haldið gæti gildi sínu þrátt fyrir stjórnarskipti og kosningar, komi plagg, sem aðeins er rammaáætlun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.”

Í stað víðtækrar samstöðu, líkt og stefnt var að með vinnu sérfræðinga, stefnir í djúpstæðan ágreining, að sögn Birgis.

Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, bendir á að eftir að fagleg verkefnastjórn rammaáætlunar hafi lokið störfum, hafi átján orkukostir verið færðir niður í biðflokk eða verndarflokk. Enginn kostur hefur verið færður upp í nýtingarflokk. Í grein í Morgunblaðinu birtir Gústaf Adol samanburð á rammaáætlun verkefnastjórnar og hvernig rammaáætlunin lítur út eftir að breytingar í ráðuneytum og ríkisstjórn. Sumir þeirra orkukosta sem settir hafa verið í bið- og verndarflokk eru á meðal mest rannsökuðu og hagkvæmustu kostanna, sem jafnvel er þegar gert ráð fyrir á aðalskipulagi og mati á umhverfisáhrifum löngu lokið.

Gústaf Adolf lýkur grein sinni með þessum orðum:

„Þetta er staðan í dag. Tillagan liggur fyrir, en hún er ekki nema að afar takmörkuðu leyti byggð á faglegri vinnu verkefnisstjórnarinnar. Alþingi ræður því auðvitað hvort hún verður samþykkt óbreytt, en verði það niðurstaðan er algerlega ljóst að engin sátt mun ríkja um niðurstöðuna og hætt við að hún verði eingöngu til afar skamms tíma.”