Stjórnlyndum stjórnmálamönnum finnst fátt skemmtilegra en að deila út fjármunum – peningum annarra en þeirra eigin. Flóknar millifærslur og háir skattar eru forsenda þess að hinir stjórnlyndu fái að njóta sín, hvort heldur undir merkjum félagshyggju eða norrænnar velferðar. Þeir eru sannfærðir um að hið opinbera – stjórnmálamenn með aðstoð embættismanna – sé betur til þess fallið að taka ákvörðun um ráðstöfun fjármuna en einstaklingar og fyrirtæki sem afla þeirra af dugnaði og útsjónarsemi.

En það er tilgangslaust að dreifa brauðmolum hingað og þangað ef enginn veit af því. Þess vegna hafa hinir stjórnlyndu það sem reglu að boða til blaðamannafundar, þó ekki væri til annars en að tilkynna að þeir séu að hugleiða að hefja útdeilingu fjármuna. Engu skiptir þótt formleg ákvörðun – hvað þá lögformleg – liggi ekki fyrir. Mikilvægast er að allir viti að hugsanlega, ef til vill og kannski muni góðgjarnir stjórnmálamenn hefjast handa við að færa fjármuni fram og til baka í þjóðfélaginu.

Þúsund milljónir á mánuði

Í huga forráðamanna ríkisstjórnarinnar var talið nauðsynlegt að boða til blaðamannafundar 18. maí síðastliðinn til að kynna fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt henni ætlaði ríkið að ráðast í liðlega 39 milljarða króna fjárfestingar á næstu þremur árum, þar af voru 16,4 milljarðar króna á komandi ári. Tilgangur ríkisstjórnarinnar með fögrum fyrirheitum var annars vegar að kaupa stuðning við ofurskatt á íslenskan sjávarútveg og hins vegar pólitískan frið vegna misheppnaðrar stefnu í efnahagsmálum.

Tæpu hálfu ári síðar var aftur boðað til blaðamannafundar og tilefnið hið sama og í maí; fjárfestingaáætlun. Að vísu höfðu um þúsund milljónir gufað upp á mánuði frá því í vor en engu að síður var talið rétt að tilkynna að liðlega 10,3 milljarðar rynnu úr ríkissjóði á kosningaári í hinar ýmsu fjárfestingar eða rúmlega sex milljörðum króna lægri fjárhæð en ríkisstjórnin gaf fyrirheit um á fyrri kynningarfundi.

Fyrir stjórnmálamenn sem leggja metnað í að skammta fólki opinbera fjármuni úr hnefa eru blaðamannafundir mikilvægari en flest annað í aðdraganda kosninga. Nokkrum dögum fyrir prófkjör (flokksval á fínu máli samfylkinganna) var ekki ónýtt að sitja fyrir framan ljósmynda- og sjónvarpsvélar og opinbera enn og aftur „góðu tíðindin“ í uppbyggingu atvinnulífsins. En liðlega 10,3 milljarða blaðamannafundur dugði ekki krónprinsessu Jóhönnu Sigurðardóttur til sigurs. Brottrekinn ráðherra, sem í óþökk Jóhönnu sækist eftir að leysa hana að hólmi, hafði betur í kapphlaupinu um oddvitasæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Umbúðir án innihalds

Innan Samfylkingarinnar eru margir sérfræðingar, þótt einn standi þar öðrum framar, í fögrum en innihaldslitlum orðum. Allt er klætt í fallegan búning og ekki vantar orðskrúðið í fjárfestingaáætluninni. Grænn fjárfestingasjóður, grænar fjárfestingar, grænkun fyrirtækja, græn skref og vistvæn innkaup eru umbúðir í samræmi við pólitískan rétttrúnað. Efling vaxandi atvinnugreina, innviðir friðlýstra svæða, verkefnasjóður skapandi greina og sóknaráætlun landshluta undirstrikar hve umbúðirnar skipta miklu í hugum hinna stjórnlyndu en innihaldið litlu.

Í vor var reynt að kaupa almenning til fylgilags við ofurskatt á sjávarútveg en hálfu ári síðar er búið að „klípa“ 1,4 milljarða af fjármunum sem á næstu þremur árum áttu að renna til rannsókna og nýsköpunar og sóknaráætlunar landshlutanna. Og í orði hafa talsmenn ríkisstjórnarinnar uppi stór orð um að styðja við bakið á vaxandi atvinnugreinum og ekki síst ferðaþjónustu, en snúa sér síðan við og ákveða að þrefalda skattheimtu sem rústar öllum áætlunum fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Afturhvarf til stjórnlyndis

Fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar er enn eitt dæmið um það hvernig íslenskt samfélag er að hverfa aftur til stjórnarfars stjórnlyndis, þar sem almenningur og fyrirtæki eiga allt sitt undir hinu opinbera. Tími gælustjórnmála er genginn aftur í garð. Fjármunir eru teknir af einstaklingum og fyrirtækjum og þeim úthlutað til verkefna sem njóta sérstakrar náðar stjórnmálamanna. Þetta kallast „sóknaráætlun 2020“ í pólitískri orðabók Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Íslendingar, að minnsta kosti þeir sem eldri eru, ættu að þekkja afleiðingarnar. Okkur hlýnar í skamma stund, líkt og þegar við pissum í skóinn en síðan kemur ofkælingin. Aðeins fjárfestingar sem gera kröfu til arðsemi, þ.e. aukinnar framleiðni fjármagns og vinnuafls, skila hærri launum og betri lífskjörum til lengri tíma. Það er efnahagsleg firra að halda því fram að nokkrir stjórnmálamenn í Stjórnarráðshúsinu, geti tekið ákvörðun um hvernig best sé að verja takmörkuðum fjármunum til uppbyggingar atvinnulífsins – hvaða fjárfestingar séu vænlegar og hverjar ekki.

Samfylkingar og vinstri grænir eiga þá ósk heitasta að halda völdum eftir kosningar í apríl næstkomandi með einu eða fleiri varadekkjum undir vagninum. Með fjárfestingaáætlun fulla af fögrum loforðum, er vonast til að ofkælingin komi ekki fyrr en eftir kjördag.