Orðið skattalækkun finnst ekki í orðabók Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvegaráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, ekki frekar en í bókum annarra ráðherra ríkisstjórnar vinstri flokkanna. Hófsemd í skattaheimtu er framandi í huga þeirra. Vegna þessa er meginstefið í stjórnarstefnunni að skattleggja allt sem hreyfist.

„Þessi atvinnugrein verður að sæta því að þeirra skattalega umhverfi sé endurskoðað af og til,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi síðastliðinn mánudag þegar hann svaraði fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um margfalda hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna – úr 7% í 25,5%. Vinstri menn líta á endurskoðun á skattalegu umhverfi fyrirtækja og einstaklinga sem tækifæri til að hækka skatta og álögur. Fátt er skemmtilegra í hugum þeirra en að endurskoða skatta „af og til“ í þeim tilgangi að herða skrúfurnar enn meira – draga úr hreyfingum efnahagslífsins.

Hótanir

Þegar forráðamenn fyrirtækja eða einstaklingar heyra vinstri menna lýsa því yfir að skattalegt umhverfi sé til endurskoðunar eiga þeir að hafa áhyggjur, ekki síst þegar í hlut á ráðherra sem skirrist ekki við að hafa í hótunum við þá sem kvarta. Í janúar 2010 var Steingrímur J. Sigfússon kokhraustur sem fjármálaráðherra á fundi um skattamál. Þá þegar hafði hann beitt sér fyrir verulegum skattahækkunum. Skilaboðin ráðherrans um að haldið yrði áfram á sömu braut voru öllum skiljanleg:

„You ain’t seen nothing yet.“

Við þessi orð hefur Steingrímur J. Sigfússon staðið af trúmennsku. Það vita atvinnurekendur vel. Eldra fólk, sem berst við að halda eignum sínum, finnur á eigin skinni að hótanir um hækkun skatta ber að taka alvarlega. Heimilin í landinu vita að hótanir eru ekki orðin tóm. Hækkun skatta og opinberra gjalda er að sliga heimilin sem þurfa síðan að „sætta“ sig við að hækkunum er velt út í verðlagið og íbúðalánin hækka. Þetta kalla stjórnarþingmenn „skjaldborg“ um heimilin.

Varasamt að ná árangri

Vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna heldur sínu striki og óskar eftir að fá fjögur ár til viðbótar í kosningum í apríl næstkomandi. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur telja það óviðunandi að fyrirtæki og einstaklingar nái árangri, án þess að skattakrumla ríkisins grípi inn í. Þess vegna eru þau sannfærð um nauðsyn þess að leggja þyngri byrðar á ferðaþjónustuna, sem hefur náð umtalsverðum árangri á síðustu árum.

Nú er svo komið að það er beinlínis orðið hættulegt fyrir atvinnugreinar að ná árangri og jafnvel þokkalegri afkomu. Með því verða þær skotskífa skattmanns sem fylgist með öllu sem hreyfist. Það getur varla komið nokkrum manni á óvart að atvinnulífið haldi að sér höndum. Ekki getur það komið neinum í opna skjöldu að uppbygging til framtíðar hafi verið sett til hliðar vegna ótta við stjórnvöld.

Skilja ekki samhengið

Vinstri menn hafa því miður átt í erfiðleikum með að skilja samhengið á milli hagsældar og hófsemdar í skattheimtu. Þeir líta á fyrirtæki og heimili sem skattstofna í óseðjandi og endalausri viðleitni við að fjármagna rándýrt stjórnkerfi hins opinbera, flóknar millifærslur og stöðugt stækkandi eftirlitskerfi hins opinbera.

Ráðherrum ríkisstjórnar, sem eitt sinn kenndi sig við „norræna velferð“, er ofviða að átta sig á einföldum sannindum sem John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, benti á í ræðu árið 1962:

„Efnahagskerfi sem er þrúgað af háum sköttum mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, alveg eins og það mun aldrei búa til nægilegan hagvöxt eða nægilega mörg störf.“

Ef til vill er það ósanngjarnt að gera kröfu til þeirra sem hafa lifað í vernduðu umhverfi í áratugi, um að þeir geri sér grein fyrir hvað það þýðir að leggja allt sitt undir við að byggja upp fyrirtæki og hafa áhyggjur af því að eiga fyrir launum starfsmanna og virðisaukaskatti á næsta gjalddaga. Líklega er það einnig óbilgirni að ætlast til þess að stjórnmálamenn, sem hafa allt sitt á þurru og njóta ríkistryggðra lífeyrisréttinda, geti sett sig í fótspor eldri borgara sem verða að ganga á eignir sínar eða skuldsetja sig til að greiða eignaupptökuskatt. En það getur aldrei talist ófyrirleitni að almenningur fari fram á það við stjórnmálamenn að þeir hætti að hafa í stöðugum hótunum.

Skýrir kostir

Eftir tæplega sex mánuði ganga kjósendur að kjörborði. Kostirnir eru óvenju skýrir. Annars vegar er það braut vinstri flokkanna og hins vegar hugmyndafræði frjálsræðis og atvinnufrelsis með uppbyggingu atvinnulífsins, hófsemd í skattheimtu og bættum lífskjörum. Valið stendur um það hvort ríkisstjórnarflokkunum tekst að halda völdum með því að skjóta einu eða fleiri varadekkjum undir stjórnarvagninn eða hvort Sjálfstæðisflokkurinn öðlast styrk til að koma í veg fyrir fjögur mögur ár til viðbótar.

Þó kjósendur hafi ekki getað treyst loforðum stjórnarflokkanna frá síðustu kosningum um skjaldborg um heimilin, andstöðu við aðild að Evrópusambandinu, aukið gegnsæi í stjórnsýslu og beint lýðræði, segir reynslan að einu geti þeir treyst: Hótunum um frekari skattahækkanir.