Það er sótt að sjálfstæða atvinnurekandanum, með sífellt flóknari reglum, opinberu eftirliti og þungum sköttum.

Millistéttin berst í bökkum og er að kikna undan æ þyngri skattaálögum og stökkbreyttum lánum.

Eldra fólk er undir árás skattheimtumannsins og horfir á upptöku eigna í formi eignaupptökuskatts, sem nefndur er auðlegðarskattur í lögum.

Það er grafið með skipulegum hætti undan komandi kynslóðum með skuldasöfnun opinberra aðila.

Öryggi sjúklinga er ógnað vegna kolvitlausrar forgangsröðunar, þar sem jarðgöng og rándýrt bjölluat í andstöðu þjóðar, ganga fyrir en lífsnauðsynleg endurnýjun lækningatækja situr á hakanum.

Það er sótt að séreignastefnunni og grunngildum borgaralegs samfélags.

Þetta er staðan á Íslandi í dag eftir tæplega fjögur ár með ríkisstjórn sem kenndi sig í upphafi við norræna velferð.

Skylda Sjálfstæðisflokksins

Það er söguleg skylda Sjálfstæðisflokksins að standa ekki aðeins vörð um sjálfstæða atvinnurekendann, millistéttina, þá sem eldri eru og samborgara sem þurfa á aðstoð að halda, það er skylda sjálfstæðismanna gagnvart framtíðinni að snúa vörn í sókn.

Séreignastefnan er einn af hornsteinum borgaralegs samfélags. Einmitt þess vegna hafa sósíalistar og margir aðrir vinstrimenn haft horn í síðu hennar. Markmið þeirra hefur verið að grafa undan grunngildum samfélags sem byggist á frjálsum viðskiptum, frelsi einstaklingsins þar sem ríkið er verkfæri borgaranna en ekki þegnar ríkisvaldsins.

Það hefði því ekki átt að koma á óvart að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur næði litlum sem engum árangri við að rétta hlut þeirra sem glíma við miklar skuldir. Fálmkenndar tilraunir og á stundum kolvitlausar lagasetningar, hafa litlu skilað. Árangursleysi ríkisstjórnarinnar er ekki vegna mannvonsku eða skeytingarleysis gagnvart þeim þúsundum sem berjast við íbúðaskuldir. Þegar forystumenn ríkisstjórnar eru í hjarta sínu á móti séreignastefnu, skortir allan skilning á nauðsyn þess að búa til jarðveg fyrir fjölskyldur til að verja heimilin.

Í huga sósíalista er barátta fjölskyldna við að eignast eigið húsnæði með gríðarlegri vinnu og eljusemi, háttur smáborgara sem þeir hafa alla tíð litið niður á. Smáborgarar – litli atvinnurekandinn og sjálfstæða millistéttin – eiga ekki heima í framtíðarsýn um hið sósíaldemókratíska samfélag sem barist er fyrir.

Loforð allra flokka

Allir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa gefið loforð um að leysa skuldavanda heimilanna. En það þokast hægt. Úrræðin hafa reynst illa og í mörgum tilfellum aðeins lengt í hengingarólinni. Komið var í veg fyrir að samþykkt yrðu lög um flýtimeðferð deilumála fyrir dómstólum, vegna þess að flutningsmaðurinn var stjórnarandstæðingurinn Sigurður Kári Kristjánsson. Þess vegna ríkir enn mikil réttarfarsleg óvissa. Í þokkabót hafa lög sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir verið dæmd ólögmæt.

Við verðum að horfast í augu við þá nöturlegu staðreynd að mörgum verður ekki bjargað. Til þess eru og voru skuldirnar of miklar. En það er hægt að gefa þeim skuldsettu nýtt líf – annað tækifæri – með því leyfa þeim að skila íbúðum sínum til viðkomandi lánastofnunar. Það er ekki hagur lánveitenda að halda skuldara um ókomna tíð í hengingaról skulda sem á endanum verða ekki greiddar. Það er ekki hagur samfélagsins að hneppa samborgarana í fjötra skulda og koma í veg fyrir að þeir taki fullan þátt í efnahagslífinu. Lyklaleið Lilju Mósesdóttur er neyðarúrræði sem getur gagnast mörgum og um leið verða fjármálastofnanir að horfast í augu við raunveruleikann. Bankar hafa borð fyrir báru en hinn ríkisrekni Íbúðalánasjóður ýtir vandanum á undan sér og skattgreiðendur framtíðarinnar fá sendan reikninginn. Sjálfstæðisflokkurinn á að ganga til liðs við Lilju Mósesdóttur og útfæra skynsamlega lyklaleið, þar sem tryggt er að ekki sé gengið á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Sama á við um hugmynd Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem hefur lagt til að afborganir húsnæðislána komi til frádráttar tekjuskattsstofni og skattaafslátturinn renni til að lækka höfuðstól íbúðalána. Lækkun skatta með þessum hætti getur skipt marga gríðarlega miklu. Sjálfstæðismenn eiga að styðja hugmyndina sem er hluti af vörn fyrir séreignastefnuna. Sjálfstæðismenn eiga að taka undir allar skynsamlegar hugmyndir um lækkun skatta.

Engar töfralausnir

Skuldavandinn verður ekki leystur með einu pennastriki. Afnám verðtryggingar leysir ekki vandann en til framtíðar verður að draga úr vægi verðtryggingar um leið og einstaklingum er gert kleift að taka óverðtryggt lán með föstum vöxtum til nokkurra ára. Það er merkileg staðreynd að bankar bjóða þegar slík úrræði en ríkisrekni Íbúðalánasjóður ekki.

En það er sama til hvaða úrræða verður gripið – niðurfærslu skulda, skattafslátt, lyklaleið – þá verður allt til einskis unnið ef ekki tekst að koma hjólum atvinnulífsins aftur á fulla ferð. Og það gerist ekki nema pólitískri óvissu verði eytt, fjárfestingar aukist og ný ríkisstjórn með skýra framtíðarsýn taki við völdum að loknum kosningum.