Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar fellur í grýttan jarðveg. Þar nefndi hún Sjálfstæðisflokkinn 20 sinnum samkvæmt talningu fréttastofu Stöðvar 2. Jón Baldur L’Orange segir að Jóhanna telji sig stadda í upphafi síðustu aldar í stéttabaráttu. Karl Th. Birgisson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar segir á fésbókarsíðu sinni að það sé heilbrigðara fyrir stjórnmálaflokk „að skilgreina sig eftir því hverju hann er með fremur en hverju(m) hann er á móti”.

Í pistli á bloggsíðu sinni segir Jón Baldur að Jóhanna Sigurðardóttir sé að kalla á stríð við sjálfstæðismenn. Áróður Samfylkingarinnar virki aðeins ef það tekst „að strá nógu miklu hatri í samfélaginu sem kallar á stéttabaráttu og flokkadrætti”:

„Hnefinn er kominn á loft. Hatursfullur og harður hnefi, sem er tákn stéttaátaka, ofbeldis og ófriðar.

Sjálfstæðisflokkurinn var hins vegar stofnaður á grunni slagorðsins: Stétt með stétt. Sjálfstæðismenn vilja sátt í samfélaginu um framfarir og jöfnuð. Þeir hafa aldrei viljað stilla stétt upp á móti annarri sem býr til samfélag sem er sundurlynt og hatursfullt. Íslenska þjóðin er ein þjóð sem tekur sameiginlega á vandamálum og leysir þau í sátt og samstöðu. Sterkt samfélag þolir ekki að hluti þjóðarinnar búi við fátækt meðan fámennur hópur býr við alsnægtir. Slíkt samfélag er ekki í anda sjálfstæðisstefnunar, eins og höfundar hennar lögðu grunn að árið 1929. Það er sú arfleið sem forysta Sjálfstæðisflokksins á ávalt að hafa í heiðri. Þegar Sjálfstæðisflokknum vegnar vel þá vegnar íslensku þjóðinni vel.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingar, vill etja þjóðfélagshópum saman í pólitískum leik. Það er hættulegur leikur og kann að draga dilk á eftir.”

Karl Th. Birgisson er langt í frá sáttur við formann Samfylkingarinnar. Á fésbókarsíðu sinni segir Karl það sérkennilega nauðhyggju „að skilgreina sífellt óvini út og suður”. Í framhaldinu spyr Karl:

„Er það þannig sem stjórnmálaflokkur laðar fólk að sér?”

Karl skrifar síðan:

„Það er óendanlega heilbrigðara fyrir stjórnmálaflokk að skilgreina sig eftir því hverju hann er með fremur en hverju(m) hann er á móti. Og þetta óvinatal er leifar af átaka- og rifrilfishefðinni sem við þurfum að sálga. Hætta að garga og fara að tala saman. Allra helzt við þá sem eru ósammála okkur.”