Ef ný ríkisstjórn heldur rétt á málum er hægt að afnema tekjuskatt ríkisins af meðaltekjum almenns launafólks í áföngum á nokkrum árum. En til þess þarf tvennt. Annars vegar verður að endurskipuleggja ríkisreksturinn og hins vegar að greiða skuldir ríkisins hratt niður meðal annars með sölu eigna. Um leið þarf pólitískan vilja til þess að tryggja að almennir launamenn njóti árangursins í formi lægri skatta og koma í veg fyrir að fjármunir renni í ríkishítina.

Skuldir ríkissjóðs umfram eignir námu 774 milljörðum króna í lok liðins árs eða nær 9,7 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Á þessu og næsta ári er áætlað að vaxtagreiðslur ríkissjóðs verði um 169 milljarðar. Þetta jafngildir því að hver fjölskylda greiði að meðaltali 88 þúsund krónur í vexti á mánuði þessi tvö ár eða alls um 2,1 milljón króna. Um átta af hverjum tíu krónum sem einstaklingar greiða í tekjuskatt til ríkisins fara í greiðslu vaxta.

Engu skiptir frá hvaða pólitískum sjónarhóli horft er á fjárhagslega stöðu ríkissjóðs. Gríðarleg skuldsetning og þungar vaxtagreiðslur eru að sliga sameiginlegan sjóð og koma í veg fyrir að ríkið geti sinnt grunnhlutverki sínu með sómasamlegum hætti.

Uppskurður og sala eigna

Ég hef ítrekað bent á að við Íslendingar höfum ekki efni á því að reka ríkið með þeim hætti sem við höfum leyft okkur. Ríkissjóður heldur áfram að safna skuldum og ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð grefur undan velferðarkerfi framtíðarinnar.

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir komandi ár tekur ekkert á krónískum vandamálum sem glímt er við í ríkisrekstrinum. Kannski var ekki við öðru að búast í aðdraganda kosninga. Freistingin til að leggja fram kosningafjárlög er of mikil til að sundurlaus ríkisstjórn fái staðist hana. Það er látið reka á reiðanum og jákvæður frumjöfnuður dugar ekki til að standa undir fjármagnskostnaði. Vandanum er velt yfir á nýja ríkisstjórn og skuldunum yfir á komandi kynslóðir.

Ef pólitískur vilji og kjarkur verður fyrir hendi að loknum kosningum er hægt að hefja nýja sókn til bættra lífskjara. Það þarf að stokka upp rekstur ríkisins – skera af fituna og hætta flóknum millifærslum samhliða því sem staðið er vörð um heilbrigðis-, trygginga- og menntakerfið og löggæslan er efld. En um leið þarf að skoða hverja einustu ríkiseign og spyrja: Af hverju á ríkið þessa eign og höfum við efni á halda þessari eign á sama tíma og ríkissjóður er skuldum vafinn? Er skynsamlegra að selja og nýta andvirðið í að greiða niður skuldir, lækka vaxtakostnað og lofa launafólki að njóta þess í formi lægri skatta?

Landsvirkjun og bankar

Engin viðskiptaleg né efnahagsleg rök eru fyrir því að ríkið eigi einn stærsta viðskiptabanka landsins – Landsbankann. Rökin fyrir ríkisreknum banka eru pólitísk og við Íslendingar höfum ekki sérlega góða reynslu af ríkisrekstri sem réttlættur er með þeim hætti – ekki frekar en aðrar þjóðir. Ríkisstjórn sem tekur við að loknum kosningum á að lýsa því yfir að Landsbankinn verði seldur á kjörtímabilinu og að allt söluverðið renni óskipt til greiðslu skulda. Um leið á ríkisstjórnin að gefa loforð um að allur sparnaður í formi lægri fjármagnskostnaðar verði nýttur til að hækka skattleysismörk skref fyrir skref. Hið sama á við um eignarhluti ríkisins í öðrum fjármálafyrirtækjum.

En ný ríkisstjórn á að ganga lengra. Hún á að bjóða lífeyrissjóðum að eignast helmingshlut í Landsvirkjun á móti ríkissjóði. Hér er um hundruð milljarða að ræða og með greiðslu skulda tugmilljarða vaxtasparnaður. En það er fleira sem vinnst. Staða Landsvirkjunar styrkist með því að gríðarlega öflugir eigendur koma til liðs við fyrirtækið sem að öðru óbreyttu nýtur þess í formi hagstæðara lánshæfismats. Lífeyrissjóðunum opnast möguleiki á því að ávaxta fé sitt með betri hætti en þeir geta í dag og launamenn njóta þess í formi hærri lífeyrisgreiðslna. Með öðrum orðum: Það græða allir.

Lækkun skatta

Umfangsmikil sala eigna, sem engin skynsamleg rök eru fyrir að séu í höndum ríkisins, gerir kleift að minnka skuldir ríkisins um hundruð milljarða króna. Samhliða uppskurði í ríkisrekstrinum er hægt að tryggja að almennir launamenn, sem margir hverjir berjast í bökkum, njóti þess í formi lægri tekjuskatts til ríkisins. Fátt mun bæta hag landsmanna meira.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru meðallaun á mánuði 469 þúsund krónur á síðasta ári. Markmið nýrrar ríkisstjórnar er að tryggja tekjuskattfrelsi meðaltekna. Þegar átta krónur af hverjum tíu sem ríkið fær af tekjuskatti renna til greiðslu vaxta er svigrúmið augljóst. Forsendan er lækkun skulda m.a. með sölu ríkiseigna og að söluverð þeirra renni ekki í botnlausa ríkishítina heldur til launamanna. Eftir sem áður mun ríkissjóður fá umtalsvert í sinn hlut í formi tekjuskatts þeirra sem eru yfir meðallaunum. Það sem meira er, óbeinar tekjur ríkisins (virðisaukaskattur, tollar o.s.frv.) munu hækka verulega.

Til að þetta verði að veruleika þarf aðeins pólitískan kjark, festu í ríkisfjármálum og nýja ríkisstjórn með skýra sýn til framtíðar.