Ekki var við öðru að búast en að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um tillögur að nýrri stjórnarskrá yrðu túlkaðar út og suður. Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, er ekki í nokkrum vafa um að þegar kjósendur greiddu atkvæði um spurningu númer 2 hafi þeir verið að taka afstöðu til kvótakerfisins.

Spurningin hljóðaði svo:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?”

Af þeim sem tæplega helmingi kjósenda sem mættu á kjörstað og tóku afstöðu til spurningarinnar sögðu 82,5% já.

Þetta túlkar þingmaðurinn fyrrverandi á heimasíðu sinni þannig að kvótakerfinu í sjávarútvegi hafi verið hafnað:

„Í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær kom fram skýr og ótvíræður vilji til þess að gera róttækar [breytingar] á kvótakerfinu í sjávarútvegi. Segja má að núverandi kvótakerfi hafi verið hafnað og sömuleiðis frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram í vor um breytingar á kvótakerfinu.”

Röksemdir Kristins H. Gunnarssonar eru í besta falli vafasamar en varpa skýru ljósi á hversu illa var staðið að verki við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Niðurstöðurnar eru teygðar og togaðar allt eftir pólitískum hentugleika. Staðreyndin er sú að ákvæði um þjóðareign auðlinda hefur ekkert með kvótakerfi í sjávarútvegi að gera. En ekki er ólíklegt að þeir sem studdu slíkt ákvæði hafi verið að lýsa því yfir að taka ætti inn í stjórnarskrá ákvæði um allar auðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, sem sé svipað því og er í 1. grein laga um stjórn fiskveiða. Þar stendur:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.”