Hvort sem okkur Íslendingum líkar það betur eða verr verðum við að horfast í augu við þá einföldu staðreynd að við höfum ekki efni á því að reka ríkið með þeim hætti sem við gerum. Við munum fyrr eða síðar missa öll tök í feni skulda og óreiðu. Það verða síðan börnin okkar og barnabörn sem standa uppi með reikninginn og verða að vinda ofan af vitleysunni.

Eitt stærsta og mikilvægasta verkefni á komandi árum er að koma skikki á rekstur ríkisins með endurskipulagningu. Niðurskurður hér og þar dugar ekki. Uppskurður í öllu skipulagi er nauðsynlegur. Við þurfum að hugsa hlutverk ríkisins upp á nýtt og endurskilgreina. Slíkt verður ekki hægt nema stjórnmálamenn hafi kjark til þess að leiða umræðuna, upplýsa hreinskilnislega um staðreyndir og benda á leiðir sem færar eru úr ógöngunum.

Milljarðar í gæluverkefni

Það er eðli stjórnmálamanna að reyna að gera vel við sem flesta. Útvega fjármuni í verkefni, byggingu húsa og annarra mannvirkja, afla styrkja til lista og menningar, íþrótta og annarra góða mála. Með því eru stjórnmálamennirnir að þjóna sérhagsmunum og það eru skattgreiðendur sem standa undir reikningnum.

Við höfum hins vegar ekki efni á því að stjórnmálamenn fái að verja milljörðum króna á hverju ári í gæluverkefni sín, hvort heldur er í „kíkja-í-pakkann-umsókn“ að ESB eða merkingarlausa þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá. Tími uppboðsstjórnmála, þar sem lofað er að gera allt fyrir marga á kostnað samborgaranna, er liðinn.

422 milljarðar í vexti

Frá hruni fjármálakerfisins 2008 og fram til næsta árs mun ríkið greiða alls 422,5 milljarða króna (454,2 milljarða m.v. verðlag janúar til ágúst 2012). Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að vaxtagreiðslur ríkisins nemi alls liðlega 88 milljörðum króna á komandi ári. Þetta þýðir að liðlega átta krónur af hverjum tíu sem einstaklingar greiða í tekjuskatt fara í að standa undir vaxtakostnaði.

Skuldasöfnun ríkissjóðs á síðustu árum á sér skýringar og hægt er að setja fram rök til að skýra og jafnvel réttlæta gríðarlegan vaxtakostnað ríkissjóðs. Þau rök duga hins vegar ekki um aldur og ævi. Fyrr eða síðar verður að stíga á bremsuna, stöðva skuldasöfnunina og greiða niður skuldir. Vaxtakostnaður ríkisins er hægt en örugglega að kyrkja velferðarkerfið og dregur allan mátt úr menntakerfinu. Því miður eru engin merki þess að ríkisstjórnin ætli sér að taka á vandanum. Þvert á móti mun rekstrarkostnaður ríkisins á næsta ári hækka.

Kolvitlaus forgangsröðun

Óskiljanlegt er að þeir sem hæst tala um nauðsyn þess að standa vörð og efla heilbrigðiskerfið, almannatryggingar og menntakerfið, skuli láta reka á reiðanum líkt og ríkisstjórnin gerir með frumvarpi til fjárlaga. Engu er líkara en verið sé að treysta á guð og lukkuna – og komandi kynslóðir.

Á sama tíma og innviðir og tæki Landspítalans eru að hruni komin ætlar ríkisstjórnin að auka framlög til fjölmiðlanefndar um 55% frá árinu 2011, til Launasjóðs listamanna um 25% og Kvikmyndamiðstöðvar Ísland um 27,6%. Það eiga að renna 1.256 milljónir króna í Tækjasjóð (hækkun um 82,6% frá 2011), styrkir til nýsköpunarfyrirtækja verða 1.100 milljónir (102,2% hækkun), og framlög í það sem kallast ýmis ferðamál verða 526,6 milljónir króna (109,4% hækkun).

Þetta eru aðeins örfá dæmi úr fjárlagafrumvarpi komandi árs. Ekki skal um það deilt að allt eru þetta verðug verkefni. En við höfum ekki efni á að sinna þeim öllum – hvað þá að auka stöðugt útgjöldin á sama tíma og stærsti hluti tekjuskatts einstaklinga rennur til greiðslu vaxta og heilbrigðiskerfið er komið langt út fyrir þolmörk. Forgangsröðunin er einfaldlega vitlaus.

Sáttmáli þjóðar

Óhætt er að fullyrða að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna lítur svo á að í gildi sé það sem kalla má sáttmála þjóðar. Við Íslendingar viljum tryggja sameiginlega að börn og unglingar njóti góðrar menntunar. Við viljum reka öflugt heilbrigðiskerfi fyrir alla landsmenn og við viljum rétta hvert öðru hjálparhönd – aðstoða þá sem minna mega sín til sjálfshjálpar, tryggja að þeir sem ekki geta hafi til hnífs og skeiðar. Við viljum stuðla að mannlegri reisn okkar allra. Síðast en ekki síst viljum við að ríkið haldi uppi lögum og reglu um leið og varnir landsins eru tryggðar.

Um þessi meginhlutverk ríkisins er almenn sátt. Við höfum einnig þann sameiginlega metnað að búa í haginn fyrir framtíðina líkt og foreldrar okkar, afar og ömmur gerðu fyrir okkur. Um annað tökumst við á: Hvort reisa eigi glæsileg tónlistarhús á kostnað skattgreiðenda, hvort gera eigi jarðgöng, styrkja fullfrískt fólk til að sinna listum og menningu, greiða niður framleiðslukostnað, styrkja fyrirtæki eða einstakar atvinnugreinar. Við getum einnig deilt um hvort skynsamlegt sé að verja nær 68,5 milljörðum króna í sendiráð, í þróunaraðstoð og alþjóðastofnanir á tíu árum.

En fyrst skulum við tryggja að sómasamlega sé staðið að því að uppfylla sameiginlega sáttmála. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir komandi ár er brot á þessum sáttmála.

Uppstokkun og öflugt atvinnulíf

Til þess að ná tökum á gríðarlegri skuldasöfnun ríkisins og lamandi vaxtagreiðslum, verður ekki aðeins að stokka upp allt ríkiskerfið og rekstur ríkisins, heldur einnig að auka tekjur. En tekjuauki ríkissjóðs verður ekki sóttur með því að seilast dýpra í vasa einstaklinga eða fyrirtækja. Skattabagginn er orðinn of þungur, lamar allt þrek og dregur úr tekjum ríkissjóðs.

En það er ekki nægjanlegt að lækka skatta. Það þarf að mynda stöðugleika í allri umgjörð atvinnulífsins. Ekkert fyrirtæki þrífst með eðlilegum hætti þegar stöðugt er verið að breyta leikreglunum – herða eftirlit og hækka og breyta sköttum og opinberum gjöldum. Hið sama á við um einstaklinga.

Óttinn við breytingar veldur því að forráðamenn fyrirtækja halda að sér höndum. Ákvörðun um fjárfestingu í nýju tæki eða húsnæði, er að engu gerð á morgun þegar ákveðið er að hækka skatta, herða reglur og eftirlit. Fyrirætlun um að ráða fleiri starfsmenn er sett á hilluna vegna þess að enn einu sinni á að hækka tryggingagjald. Óttinn er ekki ástæðulaus. Þegar forystumaður ríkisstjórnarinnar, þá fjármálaráðherra en nú allsherjar atvinnumálaráðherra, hótar atvinnurekendum –You ain’t seen nothing yet – skal engan furða þó að menn fyllist skelfingu og þori sig hvergi að hræra.

Ríkisstjórn sem tekur við völdum eftir kosningar hefur næg verkefni. Hún þarf ekki aðeins að tryggja stöðugleika í öllum leikreglum, heldur verður hún að gefa loforð um hvenær og hvernig staðið verði að lækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki. En ríkisstjórnin verður einnig að kynna hugmyndir sínar um uppstokkun í ríkisrekstrinum og segja: Þegar við höfum staðið við sáttmála þjóðarinnar, getum við rætt um önnur góð verkefni. Ekki fyrr. Við höfum sagt skilið við tíma uppboðsstjórnmála.