Hvað eiga Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Gunnlaugur Sigmundsson, athafnamaður og fyrrum alþingismaður, sameiginlegt?

Svar:

Það er tvennt. Þeir treysta á slæma ráðgjafa og dómgreind þeirra sjálfra hefur brostið.

Ákvörðun Guðbjarts Hannessonar að hækka laun forstjóra Landsspítalans og fara á svig við lög lagði eld að mikilvægustu heilbrigðisstofnun landsins. Trúnaðarbrestur varð milli starfsfólks Landsspítalans annars vegar og forstjórans og velferðarráðherra hins vegar. Orðspori þess forstjóra ríkisstofnunar, sem hefur staðið sig einna best  við erfiðar aðstæður, var fórnað fyrir nokkrar krónur.

Guðbjartur Hannesson varð margsaga þegar hann reyndi að verja ákvörðun sína sem var eins og blaut tuska í andlit almennings. Í öðrum löndum hefðu ráðherrar þurft að taka pokann sinn. Forsætisráðherra getur  aldrei sætt sig við að ráðherrar í ríkisstjórn gangi fram og kveiki ófriðarbál á erfiðum tímum, nema því aðeins að hafa vitað og stutt framgöngu ráðherrans. Enginn trúir því að Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki tekið þátt í ákvörðun velferðarráðherra um að hækka mánaðarlaun eins manns um tæplega tvöfalt hærri fjárhæð en hjúkrunarfræðingar fá í byrjunarlaun. Þannig vill „norræna velferðarstjórnin“ undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur stuðla að auknum jöfnuði.

Í óðagoti hefur Guðbjartur Hannesson ákveðið með samþykki forstjórans að draga launahækkunina til baka. Eftir stendur trúnaðarbresturinn líkt og Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga, hefur bent á:

„Eins og þetta horfir við mér þá snerist málið um þann trúnaðarbrest sem varð milli forstjórans og hjúkrunarfræðinga og það að launahækkunin gangi til baka, það lagar ekki þennan trúnaðarbrest.“

Guðbjartur Hannesson hefur verið krónprins Jóhönnu Sigurðardóttur. Launafarsinn hefur gert sameiginlegan draum þeirra um að Guðbjartur leiði Samfylkinguna þegar Jóhanna ákveður að draga sig í hlé – hvenær sem það verður – að engu.

Í mál til að tapa

Ákvörðun Gunnlaugs Sigmundssonar að höfða mál gegn Teiti Atlasyni, sem hafði unnið sér það til óhelgi að rifja upp blaðagreinar um Kögunarmálið svokallaða, var undarleg og raunar galin. Gunnlaugur gat aldrei annað en tapað og skipti engu hvort dómstólar kæmust að niðurstöðu sem hann var að sækjast eftir.

Auðvitað er það réttur hvers og eins að leita á náðir dómstóla ef þeir telja að þeir hafi þurft að sæta ómaklegum, óréttmætum og svívirðilegum árásum, dylgjum og lygum í ræðu og riti. Um það verður ekki deilt að Gunnlaugur hafði allan rétt á því að stefna bloggaranum Teiti Atlasyni fyrir dóm. En þó menn hafi réttinn er ekki þar með sagt að skynsamlegt sé að nýta sér hann.

Með fullri virðingu fyrir Teiti Atlasyni þá skiptir hann litlu sem engu við ritun sögunnar, hafi Gunnlaugur Sigmundsson haft áhyggjur af því. Málshöfðunin breytti þessu.

Hefði Gunnlaugur Sigmundsson setið á sér hefði fljótt fennt yfir skrift Teits Atlasonar. Pistlar hans höfðu ekkert vægi – ekki frekar en þúsundir pistla sem skrifaðir eru og deyja drottni sínum nokkrum klukkustundum eftir að þeir birtast. Málshöfðunin tryggði að skrif Teits urðu hluti af dómsögu landsins og skólarbókadæmi um hvernig menn eiga ekki að verja æru sína.

Gunnlagur Sigmundsson hefur skaðast á málaferlunum gegn bloggaranum. Hagstæð niðurstaða héraðsdóms hefði engu breytt. Þetta skildi Gunnlaugur ekki og þetta skildu ráðgjafar hans ekki. Verst er þó að með ákvörðun sinni um að höfða mál særði Gunnlaugur saklausan mann. Sá heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.