Laxá á Ásum má muna sinn fífil fegurri. Síðustu ár hefur veiðin verið langt undir meðaltali og í sumar er hrun. Samkvæmt upplýsingum angling.is – vefs Landssambands veiðifélaga – höfðu aðeins 198 laxar komið á land 12. september síðastliðinn. Þetta er langt frá þeim 1.881 löxum sem veiddust metárið 1975 og einnig langt undir meðaltali frá árinu 1974 sem er tæplega eitt þúsund fiskar. Meðalveiðin er auðvitað mögnuð þegar haft er í huga að aðeins er veitt á tvær stgangir. Minnsta veiðin var 2003 þegar 308 laxar komu á land.

Á liðnu ári veiddust 438 laxar og þótti mörgum slæmt miðað við söguna. Vísitala veiðinnar var rúmleg 44 stig miðað við meðalveiðina 100. Þetta þýðir að árið 2011 var veiðin 44% af meðalveiðinni frá 1974. Á sama tíma var meðalveiði í íslenskum laxveiðiám 127 stig eða 27% yfir meðaltali, en hafbeitarfiski er sleppt í þessum tölum.