Skilaboð Steingríms J. Sigfússonar eru skýr: Íslenska ríkið er ekki svo aumt að það hafi ekki efni á því að kaupa eina stærstu jörð landsins fyrir hundruð milljóna króna. Ríkissjóður hefur hins vegar ekki bolmagn til þess að endurnýja lífsnauðsynleg tæki á Landspítala sem eru forsenda þess að hundruð einstaklinga eigi möguleika á að hafa sigur á illvígum sjúkdómi.

Forgangsröðun ríkisstjórnar norrænnar velferðar liggur því fyrir.

Það er ekki af illvilja sem forystumenn ríkisstjórnarinnar telja rétt að verja takmörkuðum fjármunum ríkisins til uppkaupa á jörðum í stað þess að fjárfesta í lífsnauðsynlegum tækjum. Hér ræður hugmyndafræðin ferðinni. Þjóðnýting auðlinda og jarðnæðis er hluti af hugmyndafræði sem „tær vinstristjórn“ starfar eftir.

Það er ekki aðeins skiljanlegt heldur pólitískt skynsamlegt að formaður Vinstri grænna grípi á lofti þá hugmynd að ríkið kaupi jarðir. Þegar góðhjartaðir og þekktir borgarar hvetja til ríkisvæðingar getur Steingrímur J. Sigfússon ekki annað en nýtt sér tækifærið. Nú skal kaupa Grímsstaði. Hvaða jörð verður næst ríkisvædd – allt undir slagorðinu um að merkar og mikilvægar jarðir skuli vera þjóðareign? Enginn veit hvað það þýðir en það hljómar vel – þjóðareign.

Himnasending

Hrun fjármálakerfisins var himnasending fyrir vinstrimenn. Þeir trúðu því að eyðimerkurgöngu þeirra væri lokið. Tími sósíalismans væri kominn eftir að almenningur hefði séð verstu hliðar kapítalismans. Nú væri tækifæri til að umbylta þjóðfélaginu og móta það í samræmi við hugmyndir vinstrimanna. Þeir nýta öll tækifæri sem gefast.

Sósíalistar hafa lengi gert sér grein fyrir því að fyrir utan eignarréttinn eru millistéttin og sjálfstæði atvinnurekandinn mikilvægustu hornsteinar kapítalísks þjóðfélags. Það var því ekki við öðru að búast en að vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar legði til atlögu.

Með flóknu regluverki, dýru eftirliti og síhækkandi sköttum hefur verið sótt að sjálfstæða atvinnurekandanum. Skuldugum fyrirtækjasamsteypum hefur verið gefið nýtt líf með flóknum skuldbreytingum og niðurfellingu skulda. Með nýjum bakhjörlum – bönkum og lífeyrissjóðum – er enn á ný sótt að litla atvinnurekandanum sem þarf að verjast á tvennum vígstöðvum – ásókn ríkisins og ójafnri samkeppni. Millistéttin stendur lömuð með þyngri byrgðar á bakinu en nokkru sinni.

Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðismenn verða að viðurkenna að þeir bera að hluta ábyrgð á því að atlagan að litla atvinnurekandanum er að takast. Þeir gleymdu því í velmeguninni árin fram að falli fjármálakerfisins að sjálfstæði framtaksmaðurinn er ekki aðeins undirstaða framfara og efnahagslegra landvinninga, heldur bakbein Sjálfstæðisflokksins. Trúnaðarsamband milli Sjálfstæðisflokksins og þúsunda sjálfstæðra atvinnurekenda rofnaði.

Sjálfstæðisflokkurinn sofnaði í varðstöðu sinni og baráttu fyrir sjálfstæða atvinnurekandanum. Þess vegna hefur það reynst auðveldara en ella fyrir vinstri ríkisstjórn að sækja að honum. Þess vegna hefur myndast frjór jarðvegur fyrir hugmyndir um að ríkisvæða jarðnæði á Íslandi sem jafnvel hægrimenn taka undir. Þess vegna er smátt og smátt verið að koma upp eftirlitsþjóðfélagi sem byggist fremur á tortryggni og vantrausti en tiltrú og trausti.

Hægt og bítandi er verið að umbylta þjóðfélaginu. Hvert skerf er lítið en það er markvisst stigið fram. Og sumir hægrimenn feta í fótsporin.

Ríkisvæðing náungakærleikans

Komandi þingkosningar snúast um það hvernig þjóðfélagið þróast á komandi árum. Hvort haldið verður áfram á braut vinstrimanna þar sem allt traust er lagt á hið opinbera eða hvort frjáls viðskipti fá aftur að blómstra með sjálfstæða atvinnurekandanum og millistéttinni í fararbroddi.

Kosningarnar snúast ekki aðeins um það hvort hér verður efnahagsleg velmegun heldur einnig með hvaða hætti við viljum eiga samskipti við hvert annað. Engu þjóðfélagi, sem hefur lagt allt traust sitt á ríkið, hefur farnast vel.

Umbylting vinstrimanna á þjóðskipulaginu krefst ekki aðeins að komið sé böndum á atvinnulífið og millistéttina, heldur ekki síður að gera alla eins háða ríkisvaldinu og mögulegt er.

Ég hef haldið því fram að hægt og bítandi sé ríkið að verða svo stór hluti af okkar daglega lífi, að við séum hægt en örugglega að verða ónæm hvert fyrir öðru. Náunginn, nágranninn, og jafnvel okkar nánustu vinir, skipta okkur ekki lengur máli. Við vísum öllum þeirra vandamálum til ríkisins. Við erum að verða ónæm fyrir erfiðleikum annarra.

Þannig höfum við þjóðnýtt (ríkisvætt) náungakærleikann. Við höfum keypt okkur frá erfiðleikum náungans. Við ætlumst til að ríkið – hið opinbera – grípi til sinna ráða í stað þess að við réttum fram hjálparhönd. Þjóðnýting náungakærleikans hefur gert það að verkum að við erum tilbúin að sætta okkur við að ríkið þenjist út.

Ríkisvæðing náungakærleikans hófst ekki þegar hin „tæra vinstristjórn norrænnar velferðar“ tók við völdum fyrir tæpum fjórum árum. Hún hófst miklu fyrr, í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í samstarfi við Framsóknarflokkinn og síðar Samfylkinguna. Í sinnuleysi sínu misstu hægrimenn tökin á útþenslu ríkisins og undirbjuggu þannig jarðveginn fyrir hugmyndir vinstrimanna. Þegar þjóð er búin að kaupa sig frá vandræðum nágrannans er auðvelt að samþykkja ríkisvæðingu á öðrum sviðum.

Endurnýjun sáttmálans

Það er kominn tími til þess að snúa vörn í sókn og Sjálfstæðisflokkurinn verður að hefja baráttu fyrir grunngildum einstaklings- og atvinnufrelsis. Í stað þess að ala á öfund og tortryggni líkt og vinstrimenn, eiga sjálfstæðismenn að leggja áherslu á traust og að einstaklingurinn fái að njóta ávaxta síns erfiðis. Í grein sem birtist í sumarhefti Þjóðmála 2011 hélt ég því fram að Sjálfstæðisflokkurinn gæti endurheimt stöðu sína sem kjölfesta og leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum með því að endurnýja traust og trúnað við launþega og atvinnurekendur. Sú endurnýjun verði hins vegar ekki nema forystumenn flokksins viðurkenni af einlægni að þeir sofnuðu á verðinum og undir forystu flokksins náði ríkið að þenjast út. Í lok greinarinnar sagði:

„Almenningur horfir til Sjálfstæðisflokksins en hann hefur ekki öðlast fyrra traust á störfum flokksins. Kjósendur bíða eftir því að flokkurinn endurnýi sáttmála sjálfstæðisstefnunnar við íslensku þjóðina: Sáttmála sem er í senn einfaldur – stétt með stétt og gjör rétt að þola ekki órétt – en um leið margslunginn. Sáttmála sem er samofinn þjóðarsálinni – sáttmála sem við sjálfstæðismenn stóðum ekki tryggan vörð um. Til að öðlast tiltrú og traust landsmanna verðum við sjálfstæðismenn að endurnýja sáttmálann sem grunnhugsjón okkar byggir á.

En til að þetta verði að veruleika þarf að tala skýrt og forystumenn flokksins mega í engu hvika frá hugsjónum og grunnstefinu sem hefur sameinað flokksmenn.“

Á næstu átta mánuðum munu kjósendur fylgjast með orðum og athöfnum sjálfstæðismanna. Hörð barátta gegn ríkisvæðingu – þjóðnýtingu – jarðnæðis gæfi góðan tón og skýr skilaboð.