Rekstrarkostnaður Seðlabankans nam alls 3.171 milljón króna á síðasta ári en ekki 2.314 milljónum króna líkt og kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Svar ráðherrans er villandi þar sem rekstrarkostnaður bankans er gefinn upp á greiðslugrunni en ekki rekstrargrunni eins og eðlilegt er.

Í ársreikningi Seðlabankans fyrir síðasta ár kemur fram að rekstrarkostnaður bankans hafi verið 2.047 milljónir króna árið 2010 sem þýðir að kostnaðurinn jókst um 1.124 milljónir en ekki 404 milljónir líkt og lesa má úr svari ráðherrans. Þannig hækkaði rekstrarkostnaðurinn um nær 55% en ekki liðlega 21% ef stuðst er við upplýsingar efnahags- og viðskiptaráðherra.

Í svari ráðherra er gefið í skyn að laun starfsmanna Seðlabankans hafi hækkað um 9,3%. Í þessum tölum er stuðst við meðallaun sem voru rétt liðlega 610 þúsund krónur á mánuði. En þar með er aðeins hálf sagan sögð. Launakostnaður Seðlabankans nam alls 1.599 milljónum króna á síðasta ári og hækkaði um 283 milljónir eða 21,5% á milli ára. Þetta má lesa úr ársreikningi bankans.

Ljóst er að svar efnahags- og viðskiptaráðherra er villandi og með því er raunverulegur rekstrarkostnaður Seðlabankans falinn. Spurningin er af hverju?