Forystumenn Samfylkingarinnar eru sannfærðir um að það sé vænlegt til árangurs að beita hótunum gagnvart pólitískum andstæðingum. Þeim tókst að brjóta vinstri græna til hlýðni í ríkisstjórn og fá þá til að svíkja eitt helgasta kosningaloforð sitt – að standa heilshugar gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Á síðustu mánuðum ársins 2008 – mitt í hruninu – varð samfylkingum töluvert ágengt gagnvart sjálfstæðismönnum, sem hröktust undan kröfu um að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu.

Samstarfið við Samfylkinguna hefur reynst Vinstri grænum dýrkeypt. Þrír þingmenn sögðu skilið við þingflokkinn árið 2012 og flokkurinn stendur höllum fæti meðal kjósenda. Brestir komu í ljós snemma á kjörtímabilinu. Fyrst varðandi umsókn að Evrópusambandinu, síðan við afgreiðslu á Icesave-lögum, þá við afgreiðslu fjárlaga. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2011 kom í ljós að þrír þingmenn VG töldu sig ekki geta stutt lögin. Alti Gíslason, Lilja Mósesdóttir og Ásmundur Einar Daðason, sátu hjá við afgreiðslu þeirra. Síðar gengu þau úr þingflokki Vinstri grænna. Þremenningarnir unnu sér inn óhelgi í hugum forystu Samfylkingarinnar. Þingmenn VG voru kallaðir kettir og Lilja hryssa og Ásmundur Einar og Atli folöldin þeirra.

Ekki jafningar

Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson hafa aldrei litið á liðsmenn Vinstri grænna sem jafninga heldur aðeins sem nauðsynlega meðreiðasveina á leið inn í draumaland Evrópusambandsins og evrunnar. Þess vegna er talað niður til þeirra í hvert sinn sem ástæða er talin. Þessu fékk Jón Bjarnason að kynnast þegar forsætisráðherra sagði hann bera ábyrgð á að breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu náðu ekki fram – hann hefði verið að „dunda“ við málið, sem Össur Skarphéðinsson líkti við bílslys.

„Vandamál ríkisstjórnarinnar, er að mínu mati Jóhanna Sigurðaróttir sjálf,“ svaraði Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann var rekinn úr ríkisstjórninni.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður VG, og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hafa lýst því yfir að endurmeta þurfi stöðuna í viðræðunum við Evrópusambandið. Setja umsóknina á ís, draga til baka eða efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkisnefndar, virðist vera sömu skoðunar.

Össur Skarphéðinsson brást við með því að hóta stjórnarslitum. Jóhanna Sigurðardóttir talaði af þjósti og sakaði þingflokk VG um kosningaskjálfta og engin ástæða væri til að endurskoða aðildarviðræðurnar vegna „panic“ viðbragða.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, vísar hins vegar á aðstoðarmenn sína til að meta hvort ástæða sé til að ræða við fjölmiðla um málið.

Stjórnarslit eða heimabrúk

Sá er þetta skrifar hefur haldið því fram að Vinstri grænir séu að undirbúa stjórnarslit. Forysta Vinstri grænna verður að þjappa liði sínu saman og fátt er betur til þess fallið en að láta samstarfið við Samfylkinguna brotna á Evrópumálum. Aðrir halda því fram að ummæli Katrínar og Svandísar séu aðeins til heimabrúks til að lægja öldurnar innan flokksins. Ekki er víst að það takist enda eru margir flokksmenn reiðir og kjósendur hafa snúið baki við flokknum, líkt og skoðanakannanir sýna. Kosningasigurinn frá 2009 hefur þurrkast út og gott betur.

Ekkert hefur leikið VG verr en aðildarumsóknin til Evrópusambandið með stuðningi meirihluta þingflokksins.

Málflutningur Steingríms J. Sigfússonar um Evrópusambandið og hugsanlega aðild Íslands, hefur gjörbreyst frá því hann tók höndum saman við Jóhönnu Sigurðardóttur í ríkisstjórn. Í nóvember 1999 talaði hann um „skollaleik“ sem hafi verið aðdragandi þess að koma löndum inn í Evrópusambandið. Í desember 2011 lagðist Steingrímur J. hins vegar á móti því að aðildarviðræðum við Evrópusambandið væri frestað. Þá taldi hann nauðsynlegt að láta reyna á „eitthvað af grundvallarhagsmunum okkar í viðræðum þannig að við séum einhverju nær“. Þetta er þvert á það sem Steingrímur hélt fram árið 1999 þegar hann sagði að það lægi fyrir í öllum meginatriðum, hvað fælist í aðild.

Gegn þjóðaratkvæðagreiðslu

Í maí 2012 greiddi Steingrímur atkvæði gegn því að efnt yrði til þjóðaratkvæðis um hvort halda skyldi aðildarviðræðum áfram.

Tíu þingmenn Vinstri grænna lögðust gegn því að áðurnefnd þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram. Þjóðaratkvæðagreiðsla hefði þó verið í samræmi við yfirlýsingu sem formaður Vinstri grænna gaf á Alþingi þegar samþykkt var að hefja viðræður. Steingrímur J. Sigfússon sagði í umræðum um atkvæðagreiðsluna 16. júlí 2009:

„Öll eigum við það sameiginlegt, þingmenn VG, að áskilja okkur rétt til málflutnings og baráttu utan þings sem innan í samræmi við grundvallaráherslur flokksins og okkar sannfæringu. Það tekur einnig til þess að áskilja okkur rétt til þess að slíta samningaviðræðum séu þær ekki að skila fullnægjandi árangri á hvaða stigi málsins sem er sem og auðvitað að hafna óviðunandi samningsniðurstöðu.“

Þingmenn VG áskildu sér því rétt til þess að styðja tillögu um að draga umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka, hvenær sem er óháð þátttöku í ríkisstjórn, enda ljóst að umsóknin væri ekki að skila tilætluðum árangri. Fram til þessa hefur Steingrímur J. Sigfússon ekki viljað láta reyna á þessa yfirlýsingu, ekki einu sinni með því að samþykkja að láta kjósendur skera úr um málið með beinum hætti. Yfirlýsingar Katrínar Jakobsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur gefa tilefni til að ætla að nú verði breyting á enda augljóst að Vinstri grænir geta ekki gengið til kosninga með Evrópusambandið og aðildarviðræðurnar hangandi yfir sér.

Tveir kostir

Engan skal undra að margir félagar Steingríms J. haldi því fram að forysta flokksins hafi svikið grunnstefnu flokksins. Hjörleifur Guttormsson, sem gekk úr Alþýðubandalaginu með Steingrími árið 1998, eftir að samþykkt var að taka þátt í stofnun Samfylkingarinnar, segir að það sé „orðið verkefni fyrir sálfræðinga að lesa í málflutning“ Steingríms J. í Evrópumálum.

Steingrímur J. á tvo kosti í stöðunni. Hann getur haldið áfram samstarfinu við Jóhönnu og Össur og jafnvel samþykkt að bola óþægum ráðherrum úr ríkisstjórn eða hann getur látið sverfa til stáls og endurnýjað með því trúnað við stefnu Vinstri grænna. Velji Steingrímur J. fyrri kostinn er vandséð með hvaða hætti hann ætlar að eiga samræður við kjósendur í aðdraganda kosninga. Trúverðugleikinn verður lítill sem enginn. Kannski er Steingrímur J. tilbúinn til að greiða hvað sem er fyrir samstarfið við Samfylkinguna og velþóknun Jóhönnu og Össurar.