Séra Svavar Alfreð Jónsson hefur áhyggjur af því að orðspor Íslands skaðist vegna umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Umsóknin hafi verið hluti af pólitískri refskák á Íslandi. Hann vekur einnig athygli á að þeirri þversögn sem ríkt hefur í umræðunni um aðild. Eitt gildi um þá sem efist og annað um þá sem eru sannfærðir aðildarsinnar.

Svavar Alfreð skrifar á bloggsíðu sína:

„Í hinni „upplýstu” umræðu um Evrópusambandið má helst ekki efast um aðild Íslands að því. Þegar slíkir efasemdarmenn setjast að tafli eru málshefjendur snöggir að raða skákinni sér í hag og staðhæfa, að ekki  sé hægt að tala af viti um aðild Íslands að ESB nema búið sé að ganga frá samningi Íslands um aðild að ESB.

Til að flækja málin gildir reglan um að ekki séu forsendur til að mynda sér skoðun á aðild að ESB nema fyrir liggi aðildarsamningur aðeins um efasemdarmenn. Önnur regla gildir um aðildarsinna. Slíkt fólk þarf ekki aðildarsamning til að mynda sér skoðun á málinu…”

Svavar Alfreð segist efast stórlega um að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið og þó beri hann virðingu fyrir sambandinu og telji sig Evrópusinna:

„Ég sótti menntun til álfunnar og sæki mikið þangað enn. Og Evrópusambandið er auðvitað alvörusamband. Þeir sem óska eftir inngöngu í slík félög gera það af alvöru. Þú sækir ekki um inngöngu í virðulegan golfklúbb með því skilyrði að klúbburinn lagi starf sitt að þér – og hætti jafnvel að iðka golf vegna þess að þú kannt það ekki.”

Í pistlinum minnir Svavar Alfreð á að Evrópusambandið eigi sér ákveðna grunnlöggjöf og um hana verði ekki samið. Svokallaðar aðildarviðræður gangi út á tímasetningar og hvernig staðið verði að upptöku á gildandi reglum:

„Aðildarferlið er ekki fólgið í því að ESB lagi sig að ríkjunum sem sækja um aðild. Þetta ætti að vera öllum ljóst sem kynnt hafa sér stækkunarreglur sambandsins. Í gær sá talsmaður stækkunarstjóra ESB sig engu að síður knúinn til að árétta þetta við Íslendinga. Hann minnti á að það hefði ekki verið ESB sem óskaði eftir aðild Íslendinga.

The European Union didn’t apply for Iceland to become a member,

sagði talsmaðurinn, Peter Stano í viðtali við Bloomberg fréttaveituna og þarf enga stórhúmorista til að fatta skensið í ummælunum.”

Svavar Alfreð heldur áfram:

„Ofangreind skilaboð stækkunarstjórans má skilja sem sneið til Íslendinga – með áleggi. Sennilega veit hann, að Íslendingar sóttu ekki um aðild að ESB á þeim forsendum að þeir vildu ganga í sambandið. Umsóknin var liður í pólitískri refskák heima fyrir. Mikill meirihluti þjóðarinnar er andvígur inngöngu og er þar á sama máli og helmingurinn af ríkisstjórninni sem sótti um aðild að sambandinu fyrir hönd þjóðar sinnar.

Þessi framkoma íslenskra stjórnvalda, að sækja um aðild að sambandi án þess að vilja þangað inn, ætti að vera þeim áhyggjuefni, sem láta sér annt um orðspor Íslands í útlöndum og tiltrú manna á stjórnarfari hér.

Þær áhyggjur minnka ekki þegar íslensk stjórnvöld láta ekki nægja að sækja um aðild að ESB á fölskum forsendum heldur hafa þau samþykkt að þiggja milljónir evra í styrki frá ESB. IPA-styrkirnir (Instrument for Pre-Accession Assistance) eru ætlaðir til að laga íslenskt stjórnkerfi að kröfum og grunnreglum Evrópusambandsins.

Íslensk stjórnvöld ætla á hinn bóginn að nota styrkina til að „skoða í pakkann”.”