Hann er marglitur og brögðóttur og hefur marga fjöruna sopið á löngum pólitískum ferli. Hann býr yfir klókindum fjallarefsins og áttar sig fljótt á mannaferðum og straumum og stormum samtímans. Hann hefur jafnmörg líf og kötturinn og kemur alltaf standandi niður.

Ennfremur kann hann best allra manna að rugla spilin og hræra í pólitískri óvissu, ekki bara í sínum eigin flokki heldur einnig og ekki síður meðal andstæðinganna.

Þannig lýsir Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsónarflokksins, Össuri Skarphéðinssyni í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Guðni nefnir ekki að dráps- og grimmdareðli refsins í lýsingunni.

Í greininni bendir Guðni á að Össur hafi afneitað Jóhönnu Sigurðardóttur og gefið það út að hún leiði ekki flokkinn í gegnum næstu kosningar. Með þeirri yfirlýsingu hafi hann skapað glundroða:

„Og nú virðast allir litlu refirnir í Samfylkingunni halda að þeir séu formannsefni. Gamli refurinn bíður hins vegar rólegur og skemmtir sér. Hann verður sá sem ræður ferðinni þegar nær dregur.“

Í greininni heldur Guðni því fram að Össur Skarphéðinsson ætli að ráða Samfylkingunni og að hann muni „ráða hver verður formaður Samfylkingarinnar, kannski hann sjálfur?“:

„Þótt líklegast sé nú að Guðbjartur Hannesson verði fyrir valinu sem biðleikur og sáttaniðurstaða stríðandi fylkinga. Guðbjartur mun una vel aftursætisbílstjóra enda friðsamur skátahöfðingi. Svo skarpt hefur Össur ruglað spil Samfylkingarinnar að mestu pókermeistarar átta sig ekki á því hverju verður spilað út næst, eitt er þó nokkuð víst; Jóhanna er á förum.“