Fróðleg og vel skrifuð bók þar sem rakin er saga íslenskra kommúnista í máli og myndum frá því að Brynjólfur Bjarnason tók þátt í götuóeirðum í Kaupmannahöfn haustið 1918 og fram til þess að þau Margrét Frímannsdóttir og Svavar Gestsson þáðu boðsferð til kommúnistaflokks Kúbu haustið 1998. Óslitinn þráður var frá fyrstu aðdáendum kommúnismans til hinna síðustu. Eftir stendur, að hreyfing íslenskra kommúnista náði hér meiri áhrifumen víðast annars staðar í lýðræðisríkjum, ekki aðeins í stjórnmálum heldur einnig í verkalýðshreyfingu og menningarlífi. Hannes Hólmsteinn hefur enn einu sinni skilað þrekvirki.

Umsagnir:

„Niðurstaða mín er sú að þessi bók er einkar fróðleg og að henni góður fengur. Höfundur dregur fram margt sem fáir vissu um áður, varpar nýju ljósi á annað og setur söguna þannig fram að gott samhengi er í frásögninni. Bókin er einnig skemmtileg aflestrar og ríkulegt myndefni og góðir myndatextar auka enn á gildi hennar.“

Jón Þ. Þór / DV

„Sjálfsagt verða fræðimenn ekki endilega sammála um túlkun höfundar á því hversu skeinuhættir kommúnistar voru íslensku samfélagi, en það er þá bara umræða sem fer fram í rólegheitum. Og það er fullt af skemmtilegum myndum í bókinni, einkum frá fyrstu áratugum 20. aldar. Og ég skil ekki þá gagnrýni að Hannes megi ekki skrifa um kommúnismann þó hann hafi hamast gegn honum alla sína tíð.“

Illugi Jökulsson / Eyjan

„Mér finnst Hannes Hólmsteinn hafa unnið mikið afrek með þessari bók. Það liggur við að það sé veikleiki á bókinni hvað hann gerir lítið af því að draga ályktanir af þeim upplýsingum, sem hann hefur safnað saman, og mundi kannski einhver telja það ólíkt höfundinum, sem er betur þekktur fyrir flest annað en að liggja á skoðunum sínum. Myndirnar í bókinni eru stórmerkilegar og frágangur mjög góður.“

Styrmir Gunnarsson / Morgunblaðið

„Frásögnin er hröð og efnismagn feiknarlegt. Höfundur á létt með að hrífa lesandann með sér. Það þarf að staldra við til að greina forsendur hans … Höfundur er opinskár um eigin afstöðu til manna og málefna. Lesandi skynjar að hér eru metin jöfnuð og minnt á hvað hverjir sögðu og gerðu og hverjir höfðu rétt fyrir sér og hverjir ekki. Sums staðar eflist frásagnargleði höfundarins við þetta og þá hefur þetta góð áhrif á verkið. Á nokkrum stöðum mun þó rækilega í lagt.“

Jón Sigurðsson / Fréttablaðið