Ríkisstjórn Jöhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hangir á völdunum og er tilbúinn til að greiða hvaða gjald sem er, líkt og Kristrún Heimisdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu benti á í grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær:

“Til Hreyfingarinnar sækir ríkisstjórnin úrslitastuðning og felur það ekki þótt þingmenn þess flokks hafi varið fyrir augum alþjóðar í sjónvarpi hrottalega lífshættulega líkamsárás sem varðaði hámarksrefsingu fyrir dómstólum.”

Jón Baldur L’Orange telur undir með Kristrúnu á bloggsíðu sinni og bætir við að ríkisstjórnin haltri fram í andlátið með “Guðmund Steingrímsson, hinn fallna erfðaprins Framsóknar, á vinstri hönd og með þingmenn Hreyfingarinnar á þá hægri.”

Jón Baldur heldur því fram að grein Kristrúnar sé “útspil stuðningsmanna Árna Páls í blóðugum formannsslag í Samfylkingunni, sem liggur í loftinu”:

“Stuðningsmenn Árna Páls svíður ennþá hvernig Jóhanna og Steingrímur Jóhann spörkuðu átrúnaðargoðinu úr musterinu með skít og skömm á sama tíma og þau losuðu sig við Jón Bjarnason, sem stóð í veginum fyrir aðlögun Íslands að Evrópusambandinu.

Reiði þeirra er kannski skiljanleg þegar haft er í huga að Árni Páll reið fremstur og var grimmastur riddara ríkisstjórnarflokkanna í aðförinni gegn skjaldborg og velferð heimila landsmanna, á þeim tíma þegar heimilin þurftu á mestri aðstoð að halda frá stjórnvöldum. Jafnframt var hann helsti talsmaður þess að Ísland yrði hluti af Evrópusambandinu og taldi íslensku krónuna helsta bölvald landsmanna, en evruna bjargvættinn sem beið við dagsbrún.

Þór Saari, alþingismaður Hreyfingarinnar, lendir í skotlínunni á milli fylkinga í Samfylkingunni að þessu sinni. Hnefi jafnaðarmanna er kominn á loft og er krepptur. Spurning er bara, næst þegar internationallin, verður sunginn á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar, fyrir hvaða formann verður þá sungið með hnefann á lofti? Kínastjórn hlýtur að fá fulltrúa á fundinum og fá sæti á fremsta bekk.”