Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra verður að skýra það út hvernig aukinn halli ríkissjóðs með tilheyrandi skuldasöfnun, muni ekki hafa áhrif á fjárlög fyrir komandi ár. Það er óskiljanlegt hvernig fjármálaráðherra treystir sér að fullyrða að aukinn vaxtakostnaður ríkissjóðs vegna hærri skulda hafi ekki áhrif á fjárlög. Slíkt er ekki hægt nema ætlunin sé að afgreiða fjárlög fyrir árið 2013 með vísvitandi vanáætlun og tilheyrandi feluleik og jafnvel blekkingum til að fegra stöðu ríkissjóðs á kosningaári. En auðvitað kann að vera að fjármálaráðherra hafi fundið nýja og áður óþekkta aðferð við stjórnun ríkisfjármála. Sé svo væri rétt að láta aðrar þjóðir s.s. Grikki, Spánverja og Íra, vita.

Á síðasta ári nam halli á ríkissjóði 89,4 milljörðum króna eða liðlega 52 milljörðum króna hærri fjárhæð en samþykkt fjárlög gerðu ráð fyrir. Þegar Alþingi afgreiddi fjáraukalög fyrir árið 2011 voru liðlega 10 mánuðir liðnir af árinu. Þrátt fyrir það var reiknað með að hallinn yrði „aðeins” 46,4 milljarðar króna. Með öðrum orðum; aðeins nokkrum vikum fyrir lok ársins var fjármálastjórn ríkisins ekki betri en svo að halli ríkissjóðs var vanmetinn er nam liðlega 42 milljörðum króna.

Síðan kemur fjármálaráðherra og segir eins og ekkert sé sjálfsagðra að vitað hafi verið að um vanáætlun hafi verið að ræða. Þannig hafi verið ljóst að stór reikningur myndi falla á ríkissjóð vegna SpKef. En þar sem ekki hafi verið vitað hversu hár reikningurinn yrði, þá var í engu tekið tillit til hans! Í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins sagði ráðherra:

„Það var samdóma álit manna að setja ekki inn ákveðna upphæð vegna þess að á þeim tíma bar mjög mikið í milli. Auk þess var á þessum sama tíma búið að ákveða að setja málið í gerðardóm. Þannig að niðurstaðan var sú að setja upphæðina ekki inn í fjárlög eða heimildina ekki inn í fjárlög eða fjáraukalög heldur setja þetta saman þegar gerðardómur væri fallinn.“

Alls munu 20 milljarða króna falla á ríkissjóð vegna SpKef og fimm milljarðar að auki vegna vaxta, þar sem ríkissjóður mun taka lán til að standa við reikninginn. Þegar fjáraukalögin voru afgreidd 17. nóvember á liðnu ári var ljóst að SpKef-reikningurinn yrði a.m.k. 11 milljarðar. En framhjá því var litið og látið eins og allt væri í sóma.

Árið 2011 er annað árið í röð þar sem halli á ríkissjóði fer yfir 40 milljarða umfram áætlun. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að uppsafnaður vaxtakostnaður ríkisins á árunum 2009 til 2011 nemur tæplega 220 milljörðum króna. Á síðasta ári nam fjármagnskostnaður ríkisins 65,6 milljörðum króna sem er um 6,4 milljörðum króna meira en heildarframlög til menntakerfisins, lista og menningar.

En aukin skuldsetning og þar með hærri fjármagnskostnaður ríkissjóðs mun að sögn fjármálaráðherra ekki hafa nein áhrif á fjárlög komandi árs. Fyrir skattgreiðendur verður nauðsynlegt að fylgjast vel með gerð fjárlaga. Sagan hræðir í þessum efnum, eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins bendir á:

„Gert var ráð fyrir 87,4 milljarða halla á fjárlögum ársins 2010. Þegar fjárlögin 2011 voru kynnt upplýsti fjármálaráðherra um að hallinn 2010 yrði líklega ekki nema 74,5 milljarðar (vegna þess að ríkið reiknaði sér hagnað af svo kölluðum Avens-samningi). Áætlunin var svo aftur kominn upp í 82 milljarða skömmu síðar og þegar ríkisreikningur birtist reyndist raunverulegur halli ársins 2010 vera 123,3 milljarðar!“

Á síðasta ári var skekkjan jafnvel enn meiri sé miðað við fjárlög eða 173% umfram áætlun. „Það hlýtur að vera Evrópumet í skekkju í rekstri ríkis á síðasta ári“, skrifar Sigmundur Davíð.