Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að nýleg dæmi séu um að þingmenn hafi brotið allar venjur og reglur í umgengni við samstarfsmenn. Í viðtali við Viðskiptablaðið bendir Illugi sérstaklega á Björn Val Gíslason, formann þingflokks VG. Illugi segir að framkoma Björns Vals sé til skammar.

Á vef Viðskiptablaðsins er birtur kafli úr viðtali blaðsins, sem ekki birtist í prentaðri útgáfu blaðsins í síðustu viku. Illugi segir um Björn Val:

„Hann hefur til dæmis brigslað þingmanni Sjálfstæðisflokksins um að þiggja mútur, öðrum um vera á mála hjá erlendum aðilum og enn öðrum um að vera drukkinn í þingsal. Hann að vísu bað þann mann afsökunar en það þurfti að draga þá afsökunarbeiðni upp úr honum. Menn eiga að sýna pólitískum andstæðingum sínum virðingu og fara ekki fram með svona ofstopa. Menn gera auðvitað sjálfum sér mestan óleik með svona framkomu, en það dregur úr trúverðugleika þingsins þegar menn haga sér svona.“

Síðar  bætir Illugi við:

„Það má í þessu samhengi minna á að reglurnar sem við höfum haft í þinginu um það hvernig þingmenn og ráðherrar ávarpa hvorn annan, eru ekki settar vegna einhverrar fortíðardýrkunar. Reglurnar eru settar til þess að ýta mönnum í þá átt að koma fram við hvorn annan af virðingu og tala til hvors annars af virðingu. Þess vegna ávarpa menn ekki þingmanninn beint og nota titlana háttvirtur þingmaður og hæstvirtur ráðherra til að aga hugsunina í þessa átt, að sýna mönnum virðingu og sýna sjónarmiðum andstæðinganna virðingu. Það hafa komið þingmenn sem hafa mikið kvartað undan því að þurfa að gangast undir þessar reglur. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að halda þessum reglum af fyrrnefndum ástæðum.“