Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir að forráðamenn Brekkuskóla á Akureyri og fræðsluyfirvöld hafi lagst lágt þegar ákveðið var að víkja Snorra Óskarssyni úr starfi kennara við skólann. Með því sé verið að vinna gegn þeim málstað sem þau telja sig vera að styðja.

Eins og kunnugt er var Snorra Óskarssyni vikið úr starfi kennara vegna skrifa sinna á bloggsíðu um samkynhneigð.

Í leiðara Morgunblaðsins er bent á að aðstaða samkynheigðra hafi „sem betur fer gjörbreyst á aðeins örfáum árum og áratugum“:

„Þeir hafa sjálfir nú komið út úr skápnum, sem þurfti ekki smákjark til á árum áður, og þjóðfélagið, sem einnig var að sínu leyti inni í sínum skáp, hefur smám saman komið sér þaðan út. Vafalítið er að flestum líður betur við þessa breytingu.“

Leiðarahöfundur bendir á að ekki hafi allir sætt sig við þessar breytingar frekar en margar aðrar. Þeir eigi fullan rétt á slíkum skoðunum og „rétt á að viðra þær opinberlega, þótt gæta verði hófsemdarmarka, rétt eins og við aðra umræðu“. Um sé að ræða minnihlutahóp í þjóðfélaginu sem sæti „þá jafnvel aðkasti eins og sumir aðrir slíkir“.

„Nýjasta dæmið er þegar skóli í þeim góða bæ Akureyri lætur undan kröfum fáeinna einstaklinga, sem þó koma ekki fram undir nafni, og flæma hæfan kennara úr starfi fyrir að hafa haldið fram sínum skoðunum á samkynhneigð, ekki síst hjónabandi þeirra, á bloggsíðu, undir fullu nafni og vísað þar m.a. til síns biblíuskilnings til þess að árétta þær. Forráðamenn skólans eða fræðsluyfirvöld á þessum stað leggjast lágt og eru ekki að gera þeim málstað, sem þau sjálfsagt telja sig vera að styðja með þessu, neitt nema ógagn.“