Annað hvort hefur utanríkisráðuneyti Össurar Skarphéðinssonar orðið uppvíst að alvarlegri vanrækslu í starfi eða að það hefur falið mikilvægar upplýsingar varðandi makríldeilu Íslendinga og Evrópusambandsins. Þetta segir Styrmir Gunnarsso á Evrópuvaktinni.

Evrópuvaktin greindi frá því í frétt á laugardag að írsk stjórnvöld leggi til við „sjávarútvegsráðherra ESB-ríkjanna sem koma saman til fundar í Brussel mánudaginn 16. júlí að tilboð til Íslendinga um 7,5% hlutdeild í veiðikvóta á makríl verði dregið til baka enda sé makríll að hverfa úr íslenskri lögsögu”. Þessar upplýsingar voru birtar opinberlega síðastliðinn föstudag.

Styrmir Gunnarsson segir í pistli að það veki meira en furðu að frétt þessa efnis skuli berast til Íslands fyrir atbeina lítils vefmiðils:

„Nú hlýtur utanríkisráðuneytið að hafa fengið upplýsingar um bréf írskra stjórnvalda til ráðherranna. Hafi ráðuneytið ekki haft þessar upplýsingar undir höndum er það til mark um alvarlega vanrækslu í starfi, sem ekki verður haldið fram hér að hafi verið til staðar.

En hvernig stendur á því, að utanríkisráðuneytið upplýsti þjóðina ekki þegar í stað um svo mikilvægan þátt í framvind makríldeilunnar? Eða sjávarútvegsráðuneytið, sem hlýtur að hafa fengið þessar upplýsingar frá utanríkisráðuneytinu.

Hvers vegna hafa þeir Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon legið á þessum upplýsingum?”

Í lokin spyr Styrmir Gunnarson:

„Er það ekki rétt munað að ríkisstjórn þeirra sé sú ríkisstjórn, sem hefur lofað opinni og gagnsærri stjórnsýslu?”