Klofningur meðal Vinstri grænna dýpkar stöðugt. Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins skrifaði félögum sínum bréf ásamt þremur öðrum stjórnarmönnum þar sem lýst er áhyggjum yfir því að flokkurinn fái ekki að njóta sannmælis í aðdraganda kosninga til Alþingis. Í bréfinu er vikið að stuttlega að aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið:

„Þá er ljóst að Evrópusambandsumsóknin hefur reynt á flokksmenn alla og enn er ekki fullljóst hvenær eða hvernig efnisleg niðurstaða liggur nógu skýrt fyrir til að þjóðin geti tekið af skarið.”

Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, segir að mörgum flokksmönnum sé nóg boðið. Forysta flokksins sé farin að tala eins og hörðustu aðildarsinnar. Forystan hafi fjarlægst grasrótina og grunnstefnu flokksins. Í samtali við Morgunblaðið segir Jón:

„Það orðaval sem þarna er notað er eins og hörðustu ESB-sinnarnir í forystu Samfylkingarinnar nota til þess að réttlæta áframhaldandi aðlögun og aðildarviðræður við Evrópusambandið. Ég hygg að mörgum sé nóg boðið í grasrót flokksins, að ekki sé talað um þá sem hafa yfirgefið flokkinn vegna þessa máls.”

Ljóst er að Jón er ósáttur:

„Þetta er staðfesting á því að forysta flokksins er höll undir aðild að Evrópusambandinu. Það gefur augaleið að ég er fullkomlega andvígur þessari nálgun. Fyrir félaga í Vinstri grænum ætti það að vera löngu ljóst – og það liggur fyrir í samþykktum flokksins – að það á ekki að þurfa að kíkja í pakkann til þess að komast að því hvað í aðild felst. Þjóðin er meira en tilbúin til að hætta ESB-vegferð ríkisstjórnarinnar.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð var m.a. stofnuð til að berjast gegn aðild að ESB. Svona ummæli ganga því þvert á stefnu flokksins og vilja grasrótarinnar. Ummælin komu því mörgum á óvart og hafa margir í grasrótinni haft samband við mig vegna málsins. Ég hef, ásamt Atla Gíslasyni, flutt þingsályktunartillögu um að Alþingi afturkalli ESB-umsóknina. Tillagan verður borin upp á ný í haust og þá kemur í ljós hvar afstaða manna til stefnu VG og ESB-aðildar liggur.”

Styrmir Gunnarsson segir í pistli sem birtist í Sunnudagsmogga að hópur aðildarsinna innan VG sé orðin býsna stór:

„Víst má telja, að sá hópur innan VG, sem nú er orðinn aðildarsinnaður – og hann er býsna stór – sé tilbúinn til að fórna hagsmunum Íslendinga í makríldeilunni en þeir eru miklir.”

Styrmir segir að ekki sé víst að Steingrímur J. Sigfússon sé tilbúinn til að taka þátt í uppgjöf vegna makrílsins:

„Sumir af pólitískum samherjum hans hafa trúað því fram á þennan dag, að hann muni standa fast á rétti Íslendinga og ekki hvika. Því er hins vegar ekki að leyna að ýmis ummæli hans að undanförnu gætu bent til þess að hann undirbúi nú uppgjöfina sjálfur og er þá vísað til samtals við hann í Fréttablaðinu fyrir skömmu.”