Sjálfstæðisflokkurinn stendur sterkt að vígi í Suðvesturkjördæmi – Kraganum. Skoðanakannanir benda til þess að flokkurinn haldi góðum meirihluta í þremur sveitarfélögum og bæti jafnvel við sig fylgi. Í Kópavogi er flokkurinn í mikilli sókn og í Hafnarfirði gera sjálfstæðismenn sér vonir um góðan sigur eftir glæsilegt prófkjör.

Í Reykjavík á Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar erfitt uppdráttar. Borgarfulltrúum og frambjóðendum í komandi kosningum hefur ekki tekist að ná eyrum kjósenda. Eftir tæplega fjögurra ára stjórn Besta flokksins og Samfylkingarinnar hefði mátt ætla að jarðvegurinn fyrir málflutning sjálfstæðismanna væri frjór.

Ekki glæsilegtFylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Arfleifð meirihluta borgarstjórnar er ekki sérlega glæsileg. Skuldir og skuldbindingar A-hluta borgarsjóðs hækkuðu um tæp 80% að nafnvirði frá ársbyrjun 2010 til ársloka 2012. Skuldasöfnunin jafngildir liðlega 900 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Á sama tíma lækkuðu skuldir Garðabæjar um rúmlega 5% og skuldir Seltjarnarness um 10%.

Reykvíkingar hafa ekki fengið að njóta betri þjónustu þrátt fyrir skuldasöfnun og auknar tekjur (og hærri álögur). Árið 2012 voru tekjur borgarsjóðs um 2,9 milljörðum króna hærri en 2009.

Í könnun Capacent Gallup á viðhorfi íbúa sextán sveitarfélaga kom í ljós að Reykvíkingar eru almennt ekki ánægðir með þjónustu borgarinnar. Höfuðborgin er í þriðja neðsta sæti þegar spurt er um þjónustuna í heild. Aðeins helmingur borgarbúa virðist ánægður með þjónustu grunnskóla en íbúar allra hinna sveitarfélaganna eru ánægðari og Garðbæingar og Seltirningar eru ánægðastir. Reykjavík er á botninum þegar kemur að leikskólum.

Reykjavíkurborg fær ekki háa einkunn þegar kemur að þjónustu við eldri borgara og fatlaða. Höfuðborgin er í langneðsta sæti.

Betra færi gefst ekkiFylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá 1930

Minnihluti getur varla beðið um betri færi í kosningum. Skuldir hafa aukist stórlega, íbúar eru ekki sáttir við þjónustuna og álögur eru í hámarki. Meirihlutinn ræðst í gæluverkefni í ósátt við íbúa, hundsar athugasemdir, sinnir ekki eðlilegri umhirðu og leggur steina í götur þeirra sem vilja fara á milli heimilis og vinnu á eigin bíl. Áhersla Besta flokksins og Samfylkingarinnar er á 101 og Vesturbæ, þar sem 20% borgarbúa eiga heimili. Hagsmunir annarra hverfa – 80% íbúa – sitja á hakanum, allt frá samgöngum til skóla og annarrar þjónustu.

Þrátt fyrir allt þetta nær Sjálfstæðisflokkurinn sér ekki á strik í höfuðborginni og fengi aðeins 25% atkvæða samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Þetta er 23% undir meðalfylgi flokksins í Reykjavík frá árinu 1930 og liðlega 35% frá mesta fylgi flokksins árið 1990.

Slök staða sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem áður var höfuðvígi þeirra, á sér margar skýringar. Íbúasamsetningin hefur breyst og borgarasinnað fólk velur sér fremur heimili í öðrum sveitarfélögum af ástæðum sem ættu að vera augljósar. En þó óhagstæðari samsetning geri það ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur í hreinan meirihluta, getur hún aldrei skýrt út þá erfiðu stöðu sem flokkurinn glímir við. Annað vegur hér þyngra.

Að rugla kjósendur

Borgarbúar eiga erfitt með að átta sig á því fyrir hvað sjálfstæðismenn í Reykjavík standa.

Eru þeir hlynntir eða andvígir flugvellinum? Eru sjálfstæðismenn fylgjandi þeirri áherslu að þétta byggðina á kostnað úthverfa og þjónustu við þau? Eru þeir talsmenn þess að þrengja að einkabílnum, gera samgöngur milli borgarhverfa erfiðari og tímafrekari? Hvernig ætla sjálfstæðismenn að styrkja grunnskólana? Vilja þeir óbreyttar álögur á íbúa og hámarksútsvar? Þannig má lengi telja.

Á undanförnum árum hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gefið kjósendum misvísandi skilaboð. Engu er líkara en að frambjóðendur flokksins í komandi kosningum ætli að halda því áfram. Borgarstjórnarflokkur og frambjóðendur sjálfstæðismanna hafa ekki komið fram sem ein heild – samhentur hópur með sömu sýn á framtíðina. Afleiðingin er sú að kjósendur eru ringlaðir.

Ætli Sjálfstæðisflokkurinn að ná árangri í borgarstjórnarkosningunum í vor, verður stefnan að vera skýr. Og fyrirmyndirnar eru allt í kringum Reykjavík.

Góður árangur nemenda í grunnskólum Garðabæjar er ekki tilviljun. Þar hafa sjálfstæðismenn lagt áherslu á fjölbreytni og raunverulegt val. Nemendur í Garðabæ komu afburðavel út úr stærðfræðihluta PISA-könnunarinnar líkt og Gunnar Einarsson bæjarstjóri benti á í blaðagrein:

„Ef Garðabær væri sjálfstætt ríki væri það í 6.-12. sæti af 65 þátttökulöndum PISA… Það er ljóst að kennsla í grunnskólum Garðabæjar er á heimsmælikvarða þegar kemur að læsi á stærðfræði.“

Í Kópavogi hafa sjálfstæðismenn sýnt hvernig hægt er að ná tökum á erfiðum skuldabagga en um leið taka ákveðin skref í að minnka álögur á íbúana.

Á Seltjarnarnesi og í Garðabæ hefur verið gætt hófsemdar í álögum og skuldir lækkaðar á sama tíma og íbúarnir fá góða þjónustu sem þeir kunna að meta.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík geta því lært margt af félögum sínum í hinum bláa öryggiskraga sem lagður hefur verið að höfuðborginni.