Ég hef eina reglu. Ég les alltaf pistla Eiðs Guðnasonar, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, um málfar og miðla. Ekki vegna þess að við Eiður sem sammála í pólitík (við verðum það seint þó við séu sammála um margt) heldur vegna þess að ég hef bæði gagn og gaman af pistlunum. Eiður er ekki aðeins áhugamaður um íslenska tungu, gott málfar og tungutak heldur óþreytandi baráttumaður fyrir því sem betur má fara. Hann er í stríði við málsóða.

Nú hefur Eiður skrifað eitt þúsund pistla, sem hann kallar raunar mola. Aldrei hefur skort efnivið – framboðið hefur verið nægjanlegt. Hvers vegna? Eiður gefur svarið:

„Samfara þessu virðist hafa verið slakað á kröfum um móðurmálskunnáttu, vald á tungunni og ritleikni. Við bætist vanþekking á vinnubrögðum og hugtökum í grundvallaratvinnuvegum eins og sjávarútvegi og landbúnaði. Ekki bætir heldur úr skák að landafræðikennslu er víst löngu hætt í skólum. Margir þekkja því landið sitt illa og fara rangt með örnefni. Enn mætti nefna hér til sögu að líklega hefur dregið úr bóklestri ungs fólks, þótt ekki hafi Molaskrifari tölur tiltækar um það efni. Góður texti er góður kennari. Gæðin síast inn. Fréttamenn ættu að lesa eina Íslendingasögu á ári, eða hafa hljóðdiska með lestri Gísla Halldótssonar á Góða dátanum Svejk í tækinu í bílnum. Því skal samt til haga haldið að auðvitað starfar margt, – mjög margt, fólk á fjölmiðlum sem er prýðilega máli farið og kann vel til verka. Það var til dæmis gott að heyra í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan fimm í morgun ( Kristófer Ingi Svavarsson ?) talað um að sigla beitivind framhjá skerjum (efnahagsvandans) og í frétt af manndrápum var talað um valköst. Þarna var orðaforði og málnotkun góðu lagi og til fyrirmyndar. Bögubósarnir eru samt of margir og málsóðarnir of áberandi.”

Þeir sem hafa áhuga á að gera fjölmiðlun að ævistarfi eða vilja taka þátt í líflegri þjóðmálaumræðu með greina- og pistlaskrifum, ættu að taka upp sömu reglu og ég: Lesa reglulega það sem Eiður Guðnason skrifar.